Tímarit Máls og menningar - 01.02.2018, Side 39
B l ó m s t r a n d i k a r t ö f l u r
TMM 2018 · 1 39
II
Móðursystir mín, Jóhanna Þráinsdóttir, lést í nóvembermánuði árið 2005.
Einhverjum mánuðum síðar fékk ég í hendurnar bréf og fáein ljóð sem
Ari Jósefsson hafði sent henni, líklega snemma árs 1958. Ég varð eiginlega
furðulostinn. Hafði ekki haft minnstu hugmynd um þeirra kynni. Og veit
í sjálfu sér ekki mikið um þau núna, nema þau kynntust þegar móðursystir
mín stundaði tímabundið nám við Menntaskólann á Akureyri. Þau voru þar
saman í einhverri klíku, eins og gerist – eins og á að gerast. Hvort það var
eitthvað meira en vinskapur veit ég ekki, og skiptir strangt til tekið ekki máli.
Óvissa mín, um hvort það hafi verið eitthvað annað og meira en vinskapur,
kann þó að virka ósannfærandi þegar ég upplýsi um það að Jóhanna og Ari
trúlofuðu sig fyrir norðan, hann líklega átján ára, hún ári yngri.
Kunnugir hafa þó tjáð mér að þar hafi sumpart, kannski alfarið, verið um
vinargreiða að ræða af hálfu Jóhönnu; einvörðungu til að koma í veg fyrir að
Ara yrði vikið úr skóla sökum … ókyrrðar.
En hvað vitum við; sjaldan mikið. Og hvað veit ég; nærri því ekki neitt.
Nema að hún slítur trúlofuninni ekki mjög löngu síðar. Það virðist hafa
sært Ara, sem skrifar henni bréf fullt af galgopa en með sárum undir-
straumum – og sendir henni að auki þau tvö ljóð sem hér birtast.
Mér vitanlega hafa þau hvergi birst áður. Sem er synd, hér er bæði um
góðan og skemmtilegan skáldskap að ræða. Ljóð, einkum það lengra, Lítið
bréf í ljóðaformi, sem sýna hversu snemma, rétt átján ára, Ari hefur náð
tökum á forminu, og hversu næma og frjóa tilfinningu hann hefur fyrir
tungumálinu. Í báðum ljóðunum er þessi ómótstæðilega blanda af sjálfsháði,
einlægni, ungæðisskap og augljósum hæfileikum.
Var móðursystur mín dísin í þessum ljóðum Ara … skiptir það annars ein-
hverju máli?
Við virðumst hafa djúpa þörf fyrir að tengja saman veruleika og skáldskap.
Þörf fyrir að finna fyrirmyndir að persónum, átta okkur á hvaðan sögurnar
koma, finna uppsprettuna. Flétta atburði í lífi höfundar saman við þætti
í skáldskap hans. Og vissulega geta verið augljósir þræðir þar á milli. Þeir
virðast stundum beinlínis blasa við. En fátt er sem sýnist í góðum skáldskap,
og þeir sem leitast við að tengja þetta tvennt saman lenda mjög oft í villum.
Leggja saman tvo plús tvo og fá út níu. Í ákafa okkar að tengja saman skáld-
skap og veruleika gleymum við því magni sem býr í skáldskapnum, og þeirri
óbifanlegri kröfu hans að beygja allt undir sín lögmál. „Ferill orðanna verður
ekki rakinn/með sporhundum og fyrirspurnum“, segir í ljóði eftir Hannes
Sigfússon, og það ættum við ætíð að hafa í huga þegar við freistum þess
að finna uppsprettuna, ástæðuna, atburðina sem höfðu áhrif á skáldið við
samningu verksins. Hafa það í huga að í skáldskap geta tveir plús tveir verið
allt í senn: fjórir, núll, tvöþúsund tvöhundruð og átján.