Tímarit Máls og menningar - 01.02.2018, Síða 42
K r i s t í n G u ð r ú n J ó n s d ó t t i r
42 TMM 2018 · 1
Kristín Guðrún Jónsdóttir
Sebrahestarnir í Tijuana
Draumar í þykjustuborg
Þegar ég var að alast upp í sveitinni fyrir austan fjall horfði ég oft hugfangin
á mynd í einu fjölskyldualbúminu: hún var af ömmu og afa, syni þeirra
og tveimur tengdadætrum. Þau sitja í eins konar vagni, fyrir framan hann
stendur sebrahestur og á honum situr afi minn. Öll eru þau með stráhatta
á höfði, meira að segja sebrahesturinn. Þau eru stödd í landamæraborginni
Tijuana í Mexíkó árið 1961. Þangað höfðu þau skroppið frá Kaliforníu til að
gera sér glaðan dag í tilefni af útskrift yngsta sonarins, en þar hafði hann
numið tannlækningar. Kristín amma og Árni afi bjuggu hins vegar á austur-
strönd Bandaríkjanna og voru meðal síðustu vesturfaranna sem fóru frá
Íslandi snemma í byrjun síðustu aldar.
Ferðalangarnir eru glaðir í bragði þótt afi virðist dálítið tortrygginn og
ekki alveg viss um hlutverk sitt; en eitt er víst, þau eru á framandi slóðum. Á
höttunum stendur Honeymoon, Kiss me, Cisco Kid, Pancho Lopes, Mexico.
Já, amma og afi sem ólust upp við kröpp kjör á Íslandi eru hér í drauma-
borginni Tijuana með barðastóra stráhatta og afi á sebrahestinum. Það var
ekki síst þessi sebrahestur sem vakti athygli mína; hann átti reyndar eftir
að verða á vegi mínum síðar á lífsleiðinni og á í raun sök á þessum skrifum.
Hann virðist nokkuð glaðhlakkalegur og ekkert óánægður með knapann. En
hvað var þessi sebrahestur að gera þarna? Í Mexíkó? Einhvern veginn hafði
ég alltaf tengt þá við Afríku. Og hvenær urðu þeir svona gæfir? Þegar betur
er að gáð kemur í ljós að hér er bara alls enginn sebrahestur á ferðinni, heldur
asni. Asni sem hefur verið málaður svörtum og hvítum röndum. Þykjustu
sebrahestur eða sebra-asni. Og þarna var afi minn sem fæddist í Kóranesi á
Mýrunum kominn í gervi ofurbófans Cisco Kid, og loksins komið að hveiti-
brauðsdögunum hjá þeim ömmu, fjórum áratugum eftir að þau hittust á
Íslendingasamkundu í Boston.
***
Tijuana hefur löngum verið vinsæl ferðamannaborg, ekki síst þeirra sem
sækja hana úr norðri, skreppa frá Bandaríkjunum til að dvelja þar síð-
degis- eða kvöldstund og upplifa Mexíkó með snöggsoðnum hætti, hverfa
yfir í annan heim um stundarsakir. Einkum þó þeirra sem fara á næturrölt