Tímarit Máls og menningar - 01.02.2018, Side 49
S e b r a h e s t a r n i r í Ti j u a n a
TMM 2018 · 1 49
skyssur“).21 Lesandi heldur fyrst að hér sé um að ræða frásagnir af mexí-
könsku byltingunni (1910–1920), en fljótt kemur í ljós að sögusviðið er
Byltingarstrætið í Tijuana. Við erum á sjötta áratug síðustu aldar og í stuttum
textum fáum við að líta inn á strippbúllur, kabaretta og krár þar sem fata-
fellur dansa fyrir bandaríska sjóliða. Þær heita framandi nöfnum eins og
Lyn Su, Zoraida, Darling, Mærin helga. Athöfnum og dansi kvennanna er
lýst á hlutlausan hátt. Höfundur leikur sér með staðalmyndir vændiskvenna
í þessu túristahverfi borgarinnar. Að einhverju leyti ýtir höfundur undir
Sódómu og Gómorru-ímyndina en í hlutleysinu leynist gagnrýni á aðstæður
þessara kvenna. Lesandi skynjar mannlega hlið þeirra, það sem er á bak við
grímurnar, farðann og pjötlurnar. En fatafellurnar virðast fullmeðvitaðar um
hvernig þær ganga inn í fyrirfram ákvarðaðan heim. Athæfi þeirra verður
farsakennt, þær eru við stjórnvölinn, lesandi sér áhorfendur með augum
danskvennanna og ekki er laust við að þeir verði aumkunarverðir, að eins
konar fórnarlömbum. Konurnar eru ekki lengur söluvaran, þær selja sig ekki,
heldur sjóliðarnir sjálfir sem hafa „skroppið yfir“. Þeir eru í raun keyptir.
Sjóliðarnir og fatafellurnar eru samsek í þessum leik, hluti af farsanum.
Allir taka þátt í honum og þannig er goðsögninni viðhaldið. Tvöfeldnin nær
hámarki þegar kemur í ljós að klæðskiptingur er í raun karlmaður, karl-
áhorfendunum til mikillar skelfingar.
Einn af yngri höfundum borgarinnar er Heriberto Yépez (f. 1974). Hann
hefur getið sér gott orð utan heimaslóða og gefið út margar bækur, skáld sögur
og ritgerðir, sem snúast á einn eða annan hátt um Tijuana. Árið 2006 sendi
hann frá sér verkið Tijuanalogías (Tijuanafræði), eins konar bókmenntalega
sálarlífsstúdíu á borginni. Það er engu líkara en að rithöfundar borgarinnar
séu haldnir Tijuana-þráhyggju og það er ekki síst vegna goðsagnarinnar
myrku. Yépez segir: „Tijuana er banvæn. Ástæðan fyrir því að svo margir
rithöfundar hafa skrifað um borgina er að hún hefur orðið að trúarbrögðum
eða bölþrunginni goðsögn […] Hvað sjálfan mig varðar er mín stærsta ást
þessi óðreiðukennda ástríða sem ég finn gagnvart borginni […] Maður fær
hana á heilann.“22 Í nefndu verki þykist Yépez gangast að mörgu leyti við