Tímarit Máls og menningar - 01.02.2018, Page 64
G e o r g e M a c k a y B r o w n
64 TMM 2018 · 1
að drekka á kránni hennar Madge þar sem pjáturkanna af bjór kostaði
penní. Sam Moorfea varð að láta sér nægja að sitja heima og drekka
bjórinn sem hann bruggaði sjálfur og Jenny dóttir hans skenkti honum.
„Já, hún er falleg hún Jenny,“ sagði Will járnsmiður sem vegna starfa
síns drakk ævinlega með bændunum. „Ég gæti vel hugsað mér að hún
Jenny færði mér glas af súrmjólk á hverjum degi þegar ég stend milli
aflsins og steðjans og þurrka af mér svitann.“
„Nei, hún Jenny á betra skilið,“ sagði John Greenay en faðir hans átti
stóra jörð. „Ég sé hana fyrir mér á uppskerutíma með fangið fullt af
kornknippum og síða hárið hennar bærist í vindinum.“
Þetta sumar kepptust ungu mennirnir við að lofa Jenny Moorfea.
Augu þeirra glömpuðu af ánægju og bjór. Eldri mennirnir á kránni
hristu höfuðið eins og þeir vildu segja: „Svona hugsuðum við einu sinni,
áður en tunguliprar stúlkurnar sem við kvonguðumst byrjuðu að nöldra
í okkur og rífast.“ Gömlu mennirnir blikkuðu hver annan. „Ojæja, þeir
komast að því fyrr eða síðar, kjánaprikin.“
2
Þannig var að Sam Moorfea átti þrjá unga syni og kotið hans var svo lítið
að hann þurfti einnig að gera út lítinn fiskibát sem hann notaði til ýsu-
veiða á grunnmiðum þegar hann hafði tíma aflögu frá bústörfum. Sam
hafði misst konuna fyrir þremur árum svo húsverkin lentu á Jenny og
þegar faðir hennar náði að veiða eitthvað af fiski fór Jenny með aflann
og seldi húsmæðrunum í Hafnarvogi.
Þess vegna kynntist Jenny einnig fiskimönnunum og þegar fegurð
hennar sprakk út í fullum blóma þetta sumar byrjuðu sumir ungu fiski-
mannanna að gefa henni auga og þeir töldu sig aldrei hafa séð fegurra fljóð.
Þetta fyrsta kvöld á Hvalfangaranum töluðu ungu mennirnir aðeins
um Jenny frá Furss. „Afi minn sá hafmey á Kirkjuklettinum,“ sagði
Tom Swanbister, „og hann þreyttist aldrei á að tala um hvað hún hefði
verið falleg – aumingja gamli maðurinn – hann dó án þess að sjá Jenny
Moorfea.“
„Ég er að safna fyrir nýjum bát,“ sagði Alec Houton. „Ég á 12 pund
í krukkunni sem mamma geymir í kommóðunni og ég myndi steypa
þeim öllum í hendurnar á Jenny fyrir einn koss …“
Stephen Hoy sagði: „Ég ætla að kalla nýja bátinn minn Jenny. Ég
ætlaði að kalla hann Annie eftir stúlkunni í næsta húsi sem ég hélt að ég
myndi kvongast einhvern daginn en nú er ég búinn að ákveða að kalla
hann Jenny. Ég veiði vel með Jennyar-nafninu.“