Tímarit Máls og menningar - 01.02.2018, Page 98
Þ o r va l d u r G y l fa s o n
98 TMM 2018 · 1
sinni áminningu fyrir vanrækslu eða brot í starfi enda þótt stór hluti dóm-
skjala væru áritanir og stimplanir hinna opinberu embættismanna.“
Forstjóri Olíufélagsins sagði síðar við Kristján:
„Ef ekki hefðu komið til heimildir, áritanir og stimplar ágætra embættis-
manna fyrir tollfrelsi þessa ólögmæta innflutnings hefði Olíufélagsmálið
aldrei orðið til en sá sem öðrum fremur skipulagði þetta af okkar hálfu slapp
þó blessunarlega að mestu fyrir horn á fyrningarreglum okkar ágætu laga.“
Sá sem slapp fyrir horn var einn mesti virðingarmaður Framsóknar-
flokksins um sína daga, fv. forstjóri Sambands íslenzkra samvinnufélaga,
utanríkisráðherra og seðlabankastjóri og síðar fulltrúi Norðurlanda í stjórn
Alþjóðabankans í Washington.
Kristján bætir við: „Virðing mín fyrir íslenskum dómstólum beið nokkurt
skipbrot.“ Honum var bolað úr starfi.
II. Frá helmingaskiptum til hermangs
Þegar Alþingi samþykkti aðildina að Atlantshafsbandalaginu 1949 og síðan
varnarsamninginn við Bandaríkin 1951 voru landvarnarsjónarmið lögð til
grundvallar. Enginn sá ástæðu til að reyna að leggja mat á fjárhagslegan
ávinning og kostnað sem fylgja myndi samstarfinu líkt og margir telja nú
brýnt til að geta myndað sér skoðun á hugsanlegri inngöngu Íslands í Evr-
ópusambandið. Bandaríkjastjórn hafði undirbúið jarðveginn með örlátri
Marshall-aðstoð við Íslendinga.3 Hermangið kom síðar.
Kristján Pétursson lýsir því vel í bók sinni hvernig helmingaskipti Sjálf-
stæðisflokksins og Framsóknarflokksins voru heimfærð upp á landvist
varnarliðsins með aukaaðild Alþýðuflokksins. Lög voru brotin þvers og kruss.
Þjóðviljinn hneykslaðist á brotunum, en aldrei kom neitt af þessum málum
fyrir dómstóla nema olíumálið. Kannski þurfti Framsóknarflokkurinn að
gjalda þess að talsambandið brast aftur milli hans og Sjálfstæðisflokksins
1959 þegar stjórnarskránni var breytt líkt og gerzt hafði 1942 til að jafna
atkvæðisréttinn gegn vilja framsóknarmanna. Kristján Pétursson þakkaði
Bjarna Benediktssyni, dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins og síðar for-
sætisráðherra, að friður fékkst til að ljúka rannsókn olíumálsins og fara með
málið fyrir dóm.
Kristján sagði mér þetta sjálfur. Hann hringdi til mín 2010, við þekktumst
ekki, og bað um að fá að hitta mig. Þegar hann var setztur í sófann heima hjá
mér, þetta var 4. febrúar, hóf hann mál sitt með þessum orðum: Mig langar
að fá að segja þér hluti sem ég get ekki leyft mér að taka með mér í gröfina.
Ég sperrti eyrun. Kristján lét dæluna ganga í þrjár klukkustundir. Sumt af því
sem hann sagði mér vissi ég fyrir líkt og margir aðrir, annað ekki. Nokkru
síðar, 9. október, leitaði ég ráða Ragnars Aðalsteinssonar hrl. um viðbrögð
við ummælum Kristjáns um símahleranir. Litlu síðar, 10. nóvember 2010, fór