Tímarit Máls og menningar - 01.02.2018, Page 102
Þ o r va l d u r G y l fa s o n
102 TMM 2018 · 1
um verðbréfaviðskipti formanns Sjálfstæðisflokksins úr gögnum sem var
lekið úr Glitni og máttu sæta lögbanni skömmu fyrir alþingiskosningarnar
2017, lögbanni sem bíður úrskurðar dómstóla.23
Skyldu yfirvöldin hafa áhyggjur af því að fólkið í landinu kunni að efast
um jafnræði þegnanna fyrir lögum?
Gagnastuldurinn úr Seðlabankanum er samt aukaatriði. Efni símtalsins
á brýnt erindi við almenning því þar kemur fram að Seðlabankinn ákvað
að lána Kaupþingi 500 milljónir evra auk fyrri lána og bankastjórinn segir í
símann: „Ég býst við því að við fáum ekki þessa peninga til baka.“ Dómstólar
þurfa að fjalla um hvort háskalánveiting af þessu tagi feli í sér umboðssvik
eða önnur brot. Til að svo megi verða þarf að hefja rannsókn málsins í tæka
tíð því annars fyrnist málið með gamla laginu 6. október 2018.
Þingnefnd undir forsæti Atla Gíslasonar alþm. og hrl. var falið að undir-
búa viðbrögð Alþingis við skýrslu RNA. Með bréfi 7. maí 2010 kom nefndin
á framfæri við settan saksóknara nöfnum fjögurra manna af þessum sjö sem
voru nefndir í II. kafla að framan, þ.e. þriggja fv. bankastjóra Seðlabanka
Íslands og fv. forstjóra FME. Settur saksóknari svaraði 7. júní með bréfi og
sendi frá sér fréttatilkynningu24 sama dag og segir þar: „Niðurstaða setts
saksóknara er að umfjöllunarefni og ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis
… gefi að svo stöddu [leturbreyting mín, ÞG] ekki tilefni til að efna til saka-
málarannsókna á hendur Davíð Oddssyni, Eiríki Guðnasyni, Ingimundi
Friðrikssyni og Jónasi Fr. Jónssyni.“ Engin gögn eru tilfærð í bréfinu til að
skýra þessa niðurstöðu sem gengur í berhögg við niðurstöðu RNA en hún var
vel rökstudd eins og ráða má af því að Landsdómur féllst á hliðstæða niður-
stöðu RNA varðandi Geir H. Haarde fv. forsætisráðherra. Aðeins tvö tilvik
eru tilgreind í bréfi setts saksóknara, annað vegna viðbragða Seðlabankans
við erindi Landsbankans í ágúst 2008 varðandi aðstoð við flutning Icesave
innlánsreikninga úr útibúi yfir í dótturfélag og hitt vegna afgreiðslu Seðla-
bankans á erindi Glitnis varðandi lán til Glitnis í september 2008, erindi sem
var einnig hafnað. Lán Seðlabankans til Kaupþings 6. október 2008 kom ekki
til álita í bréfi setts saksóknara. Orð hans „að svo stöddu“ þarf að skoða í því
ljósi. Þar eð nýjar upplýsingar hafa komið fram með opinberun símtalsins 6.
október 2008, sýnist einboðið að niðurstaða setts saksóknara hafi verið reist
á veikum forsendum og þarfnist því endurskoðunar.
Ísland er við vatnaskil. Fólkið í landinu á það á hættu að í augum
umheimsins festist orðið „mafíuríki“ við Ísland svo sem orðið er nú notað
í umræðum t.d. um Möltu, Rússland, Ungverjaland og Úkraínu.25 Hættan
stafar af því að lögbrot eru hér og hafa lengi verið látin viðgangast í stórum
stíl eins og ég hef lýst hér að framan. Játningar liggja fyrir í sumum málum
að segja má, trúverðugir vitnisburðir í öðrum. Sökudólgar verjast með því
að kenna þeim um sem segja útlendingum frá lögleysunum og spillingunni
frekar en að þegja.26