Tímarit Máls og menningar - 01.04.2019, Side 39
S a n n S ö g U r U m m a k a m i S S i
39
Er ekki einn tilgangur hennar að rjúfa einangrun okkar og gera okkur kleift
að deila sorgum og sigrum með öðrum?
Carolina Setterwall fer svolítið aðra leið í sinni miklu bók, Vonum það
besta, sem nú kemur út í þjálli þýðingu Höllu Kjartansdóttur. Carolina
skrifar bókina að vísu í nútíð líka, leyfir okkur að fylgja sér í gegnum ýmsa
kafla úr lífi sínu, en frásögn hennar er yfirvegaðri en frásögn Malmquists,
ekki sama vitundarstreymið og ringulreiðin í textanum sjálfum þó að lýst
sé jafn erfiðum veruleika. Setterwall skrifar bókina, sérstaklega framan af,
til hins látna eiginmanns, ávarpar hann iðulega: „Þú ert ekki vanur að sofa
í svona annarlegri stellingu. Í kengboginni hliðarlegu en með andlitið þrýst
ofan í koddann“ (18). Með þessu kemur mikil nánd og væntumþykja inn í
textann, rétt eins og í minningargreinum í Morgunblaðinu þar sem þessu
stílbragði er stundum beitt. Setterwall hleypir lesandanum líka býsna nálægt
sjálfri sér, svo nálægt að þegar líður á bókina er engu líkara en maður sé
orðinn vinur hennar. Við fáum enda bæði að sjá kosti hennar og lesti sem
gerir að verkum að hún verður samsett persóna, ekki einhliða, að því er
virðist alveg ónæm fyrir augnaráði lesandans. Hún hefur ekki uppi neina
tilburði til að sýna sig eða sanna, er bara ósköp venjuleg manneskja að kljást
við hversdaginn og tilvistarvandann á sinn ærlega hátt, já og auðvitað sorgina
sem hefur orðið hlutskipti hennar. Á milli hennar og okkar virðist ekki vera
neitt sem truflar eða kemst upp á milli nema ef vera skyldi sú hannaða form
gerð sem hún velur frásögn sinni, hvernig hún stillir efninu upp til að það
verði sem áhrifaríkast. Hún hefur t.d. bókina á því að vísa í leiðbeiningar
sem maðurinn hennar sendi henni hálfu ári áður en hann dó, leiðbeiningar
um það hvernig hún eigi að bregðast við ef hann skyldi verða kallaður brott.
Þetta flækist samt ekki fyrir að neinu marki vegna þess að við þekkjum þessar
aðferðir til að halda lesanda við efnið.
Bók Setterwall er líka tvískipt. Fyrri hlutinn samanstendur af tveimur
söguþráðum, annars vegar úr núinu í kringum dauða manns hennar, hins
vegar köflum sem lýsa því sem hún hefur misst, þ.e. sambúð þeirra allt frá
fyrsta kossi. Þegar þessir þræðir hafa náð í skottið hvor á öðrum hefst seinni
hluti bókarinnar sem er án markvissra endurlita. Þar lýsir Setterwall lífi
sínu eftir dauða mannsins, flutningum, umönnun sonarins og samdrætti
við annan mann, sem vel að merkja hefur gengið í gegnum svipaða reynslu
og hún sjálf, er ekkill og einstæður faðir. Þau fara að draga sig saman tæpum
tveimur árum eftir að hún missir mann sinn, sem sumum þykir of snemmt,
og lenda í hremmingum, kannski vegna þeirrar spegilmyndar sem þau verða
hvort öðru.
Rauður þráður í frásögn Setterwall er að hún hafi valdið dauða manns
síns. Hún hafi þröngvað honum til að eignast barn með sér þó að hann hafi
ekki verið tilbúinn og hafi haft efasemdir um að hann hefði orku til þess.
Hún hafi þrælað honum út við flutninga og vinnu. Þetta stöðuga samviskubit
nístir hana stóran hluta þess tíma sem bókin spannar, þó að aðrir reyni að