Tímarit Máls og menningar - 01.04.2019, Side 41
á S t e p p U n n i
41
Samanta Schweblin
Á steppunni
kristín guðrún Jónsdóttir þýddi
Lífið á steppunni er ekki auðvelt, allt langt frá byggðu bóli. Hér er ekki
annað að sjá en þennan stóra skrælnaða trjábrúsk. Húsið okkar er í
nokkurra kílómetra fjarlægð frá þorpinu, en það kemur ekki að sök; það
er notalegt og við höfum allt til alls. Pol fer þrisvar í viku í þorpið til að
senda landbúnaðartímaritum skrif sín um skordýr og skordýraeitur auk
þess sem hann kaupir vörurnar sem ég hef hripað niður á blað. Á þessum
stundum, þegar hann er fjarri, kem ég hinu og þessu í verk sem ég vil
frekar gera í einrúmi. Ég held að Pol hafi engan áhuga á að vita neitt
um það, en þegar maður er orðinn örvæntingarfullur og kominn fram
á ystu nöf, eins og við, virðast auðveldustu lausnirnar, kerti, reykelsi eða
eitthvert ráð úr tímariti, skynsamlegir valkostir.
Til eru margar uppskriftir að frjósemi þótt ekki sé mark takandi á
þeim öllum, svo ég veðja á þær trúverðugustu og fer staðfastlega eftir
þeim. Ég skrái í stílabók sérhvert smáatriði sem við á, breytingar hjá
Pol eða mér.
Á steppunni dimmir seint og tími okkar er þess vegna takmarkaður.
Allt þarf að vera til reiðu: vasaljósin og netin. Pol dundar sér við að þrífa
hlutina meðan hann bíður eftir hentugum tíma. Að fjarlægja rykið til
þess eins að allt óhreinkist jafnóðum gefur gjörðum hans yfirbragð
helgiathafnar, líkt og hann sé búinn að hugsa, áður en hann hefst handa,
hvernig mögulega sé hægt að gera hlutina enn betur, og fara nákvæm
lega yfir atburði liðinna daga til að reyna að finna eitthvert smáatriði
sem betur mætti fara, og myndi færa okkur nær þeim, eða að minnsta
kosti einu þeirra: sem sagt okkar eigin.
Þegar við erum tilbúin réttir Pol mér úlpuna og trefilinn. Ég hjálpa
honum að fara í hanskana og við setjum á okkur hvort sinn bakpokann.
Við förum út um bakdyrnar og höldum inn í landið. Kvöldið er svalt
þrátt fyrir að komin sé stilla. Pol fer á undan, hann lýsir leiðina. Inn
í landinu myndast litlar dældir á milli stórra hæða; við nálgumst þær.
Trjábrúskarnir þarna eru lágir, þeir ná varla að yfirskyggja okkur. Pol