Tímarit Máls og menningar - 01.04.2019, Blaðsíða 66
J ó n k a r l H e l g a S o n
66
og hann birtist í The Viking Age eftir Paul du Chaillu. Helsti munurinn felst
í því að Grettir segir við, okkur og okkar þar sem í frumtextanum stendur
þeir, þeim og þeirra. Í framhaldi af þessari heimsókn ákveður Leifur að
kanna löndin í vestri sem Bjarni hafði uppgötvað. Hefur hann fyrst viðkomu
á Hellulandi, þá Marklandi og loks í Vínlandi, þar sem Tyrker finnur vínvið
og vínber, rétt eins og í Grænlendinga sögu.
Tveir kaflar í The Thrall of Leif the Lucky sem lýsa landafundum Leifs
hefjast á beinum tilvitnunum með smáu letri í viðkomandi lýsingar Græn-
lendinga sögu úr The Viking Age. Hér eru lesendur skáldsögunnar minntir á
að Liljencrantz sé að vinna úr gömlum sögulegum heimildum. Þeir hafa samt
takmarkaðar forsendur til að átta sig á hvað í texta Liljencrantz er hreinn
skáldskapur. Dæmi um ótalmargar viðbætur hennar er að Leifur uppgötvar
vetur þeirra í Vínlandi að Alwin (sem hefur dulbúið sig sem franskan hefðar
mann) kann að rita rúnir. Fær Leifur hann til að skrifa niður eftir forsögn
sinni sögu leiðangursins og lofar að uppfylla hverja hans ósk að launum.
Þetta verkefni ýtir undir að Leifur leggur að endingu blessun sína yfir ást
Alwins og Helgu, en rétt er að taka fram að í skáldsögunni er Leifur ekki
keppinautur Alwins um stúlkuna heldur einn skipverja hans, Egill nokkur
Ólafsson. Þá eru áhöld um hvort foreldrar Helgu í Noregi vilji leyfa henni
að giftast enskum þræl, þó svo að hann sé af göfugum ættum. Skáldsögunni
lýkur á því að Alwin og Helga sigla með Leifi aftur til Grænlands og er allt
útlit fyrir að þau muni búa þar hamingjusöm til æviloka.
Þegar hefur verið vikið að nokkrum atriðum þar sem handritshöfundur
The Viking hvikar frá söguþræðinum í skáldsögu Liljencrantz. Þannig var
nefnt að Leifur kvikmyndarinnar fer frá Noregi í þeim tilgangi að kanna ný
lönd, fremur en að boða Grænlendingum trú. Í samræmi við þetta einfaldar
Cunningham þá kafla sem lýsa komu Leifs til Grænlands og dvöl hans þar.
Hann gerir sér mat úr heiðni Eiríks rauða og hatri hans á kristnum mönnum
en það birtist meðal annars í senu þar sem Eiríkur heggur einn manna sinna
í herðar niður eftir að hafa uppgötvað að viðkomandi er með róðukross
um hálsinn. Við þetta tækifæri er Grænlandi lýst í skjátexta sem „hinum
berangurslega útverði norrænnar menningar þar sem miskunnarlaus þrjósk
heiðnin ræður enn ríkjum“.21 Næsta sena kvikmyndarinnar byggir allnáið
á þeim kafla The Thrall of Leif the Lucky þar sem Eiríkur fleygir exi sinni í
átt að Leifi en munurinn felst í því að á hvíta tjaldinu brýst út bardagi milli
heimamanna og skipverja Leifs. Komast þeir síðarnefndu við illan leik um
borð í skip sitt og sigla þegar í stað vestur á bóginn. Leifi gefst enginn tími til
kristniboðs í þessari heimsókn en í lok senunnar er gefið í skyn að Eiríkur
sé, þrátt fyrir allt, stoltur af því að eiga svo hugdjarfan son. Þetta er eitt dæmi
af mörgum um það hvernig Leifi er lýst í The Viking sem hugprúðum villi
manni; hann kann að bregða brandi en getur líka verið miskunnsamur og
tilfinningasamur þegar við á og grípur þá gjarnan um róðukrossinn sem
hangir um háls hans.