Tímarit Máls og menningar - 01.04.2019, Page 91
o r ð U m m y n d l i S t
91
honum hulið því að upprunalegri merkingu orðanna hefur verið úthýst.
Önnur hlið á sama peningi er svo að hversdagsleg orð öðlast víðari og jafn
vel glænýja merkingu í listaenskunni. Raunveruleiki (e. reality) er til dæmis
orð sem kemur oft fyrir í alþjóðlegu listaenskunni. Í daglegu tali merkir
orðið einhvers konar efnislegar staðreyndir sem blasa við okkur vakandi
og allsgáðum. En fyrir innvígða í listaenskunni merkir raunveruleiki eins
konar margstrending með óteljandi hliðum þar sem hver hlið lýsir persónu
bundinni upplifun á hvað sé raunverulegt.
til varnar lista-enskunni
„Listamaðurinn þvingar okkur til að horfast í augu við hrun siðmenn
ingarinnar“. Það var listrýni af þessu tagi sem tímaritið October vildi losna
undan. Aðstandendur þess vildu skapa listrýni þar sem áhorfandanum væri
gefið meira vægi, þekkingin væri margrödduð og listaverk vettvangur til að
byggja þekkingu í sameiningu frekar en að áhorfandinn ætti að falla á hnén
frammi fyrir meistaraverkinu. Það er af þeirri viðleitni sem listaenskan
sprettur og skýrir um leið opinn en rótlausan tón hennar.
Það er í eðli myndlistarinnar að vera margræð og færast sífellt undan skil
greiningum. Listaenskan missir oftast marks þegar hún reynir að apa það
upp. Þegar túlka á myndlist virðist hún jafnharðan geta haft hamskipti og
því ummyndunarferli reynir listaenskan að lýsa. „Myndlistin er alltaf fyrst,“
er stundum sagt og þá er átt við að það virðist sem myndin komi á undan
orðunum. Myndlistarmenn eru oft næmir á það sem koma skal, hvort sem
það er fagurfræðilegs eða hugmyndafræðilegs eðlis. Og þessi „sýn“ er ekki
endilega fullmótuð. Þess vegna er viðfang myndlistarinnar oft það sem er að
„framkallast“ eða einhvers konar millistig umbreytinga. Skrif um samtíma
list skortir eðlilega þá yfirsýn sem eftirtíminn einn getur veitt, því hennar er
að skrá líðandi stund.
Undirskilin þekking
Þegar Cezanne málaði sama fjallið aftur og aftur var hann aldrei að mála
sjálft fjallið heldur fást við skynfræðileg, heimspekileg og jafnvel andleg
fyrirbæri. Þegar listamaðurinn David Hammons pissaði á skúlptúr eftir
Richard Serra var gjörningurinn flóknari en blasti við. Gjörningurinn Pissed
Off fjallar um stéttaskiptingu, kynþáttahatur og vald. Richard Serra er hvítur
karlmaður sem er þekktur fyrir risavaxna skúlptúra í almenningsrými á
meðan David Hammons vinnur út frá menningu svartra Bandaríkjamanna,
þjóðfélagshópi sem hann sjálfur tilheyrir. Í gjörningnum tjáir Hammons
hvernig sumum samfélagshópum er gefið ótakmarkað pláss í almennings
rýminu á meðan þrengt er að öðrum og þeir gerðir ósýnilegir. En það sem
gerir verk Serra, Hammons, Cezanne og annarra listamanna að listaverki er