Tímarit Máls og menningar - 01.04.2019, Síða 99
m o r g U n n á kó n g S H ó l m i
99
landi árið 1700 átti hann hvorki afturkvæmt til föðurlands síns né fjölskyldu
og andaðist í fangavist í Rússlandi sextán árum síðar. Við brottför hans féll
það þess vegna í hlut konu hans að sjá um eignir hans heima, sinna setrinu
á Kóngshólmi auk annarra jarðeigna þeirra og ljúka gerð trjágarðsins. Það
gerði hún með þeim myndarbrag að aldrei varð hann stærri og fegurri en í
hennar tíð og sonar þeirra hjóna, Carls Fredriks Piper, en honum fékk hún
garðinn fyrst til umráða og loks eignar hálfum öðrum áratug síðar. Úr ætt
inni gekk hann síðan 1757 eftir dramatíska atburði sem gerðust í tíð afkom
enda Carls Fredriks.
Frá þeim tíma gekk á ýmsu um garðinn. Hirðulausir eigendur gerðu hann
sér að féþúfu og seldu þaðan allt sem þeir gátu, svo að hann lenti í niður
níðslu, en á síðari hluta átjándu aldar eignaðist Amarantfrímúrarareglan
staðinn og 1807 Arla Coldinureglan. Oft hefur legið við borð að krumla
eyðileggingarinnar sópaði burt síðustu minjunum um Hortus Piperianus, og
á sjöunda áratug síðustu aldar munaði minnstu að honum yrði fórnað fyrir
bílastæði. Svo heillavænlega tókst þó til að 1997 var vörn snúið í sókn, svo að
nú býður garðurinn þeim sem hann skoða eða eiga leið hjá kyrrláta hvíldar
stund frá dunandi umferðarþunganum og ber þeim kveðju og andblæ liðins
tíma og menningar.
iv
Kona kom út á pall nálægt hliðinu, framan við húsið sem veit að garðinum og
kennt er við Piperska muren. Hún stóð þar um stund og reykti. Svo fleygði
hún stubbnum í átt að steinkeri með sandi rétt við tröppurnar um leið og
hún fór inn aftur og skellti á eftir sér. Stubburinn hafnaði rétt hjá Venusi
frá Vorarlberg sem leiðsögumaður minn kynnti mig fyrir og kúrði þarna
skorðuð í kverkinni við vegginn. Þangað var hún komin alla leið frá Austur
ríki, svo dvergsmá að lítið bar á henni, með sinn mikla kvið og stóru brjóst
sem röskuðu öllum algengustu líkamshlutföllum, en kváðu eiga að vísa til
lífs og frjósemi.
„Svona fleygir fólk frá sér ruslinu út um allt,“ sagði viðmælandi minn,
„og rænir svo stundum afleggjurum, jafnvel af sjaldgæfum tegundum úr
jurtaríkinu sem áttu að fá að vaxa hér í friði, en sífellt þarf að verja fyrir
ágangi. Það er iðulega eins og fólk taki varla eftir þessum reit, það gengur
bara hugsunarlaust framhjá eða skoðar hann sljóum augum rétt í svip og
flýtir sér svo burt. Fæstir una sér lengi eða spyrja um nokkuð. Þegar fólk
sér mann í vinnufötum, eins og mig, gengur það bara þegjandi framhjá, en
upplitið breytist kannski ef það kemur fyrir að ég er með grænu svuntuna
mína. Á henni stendur Bergianska trädgården og það þykir fínt! Þá kinkar
það kannski kolli eða býður góðan dag.“ Hann var í hollvinasamtökum þess
garðs og átti þess vegna svuntuna, en í þessum reit á Kóngshólmi naut sín vel
í verki ástríða hans og hugsjón um að fegra og bæta heiminn.