Tímarit Máls og menningar - 01.04.2019, Síða 105
m e ð a l a d d í n S a n d a í S l e n S k U n n a r í v e S t i S va S a n U m
105
vægara um fréttir, dægurþras og þessháttar eða leiðinlegum bollaleggingum
sem stundum komu fyrir ef illa lá á skáldinu.“ Ekki tókst honum að vísu að
bægja alveg burt þunglyndislegum þönkum en bréfin eru vissulega andrík,
fjörug og skemmtileg. Og löng og mörg, þó aðeins sé um úrval að ræða:
Afköst Matthíasar hafa verið tröllaukin á sviði bréfritunar ekki síður en í
skáldskapnum. Sennilega hafa fáir Íslendingar – og er þá mikið sagt – verið
haldnir öðru eins ritæði og skáldjöfurinn, því hann var líka eitt afkastamesta
ljóðskáld íslenskrar bókmenntasögu.
„Hvað ætli þeir segðu hérna um einn Shakespeare?“
Fræg er vinátta höfuðskáldanna Steingríms Thorsteinssonar og Matthíasar,
sem fóru meira að segja saman og fundu í Fljótshlíðinni strákinn sem skyldi
taka við af þeim sem skáldmæringur, Þorstein Erlingsson. Þeir kynntust
fyrst í Kaupmannahöfn árið 1856 þegar Matthías var í sinni fyrstu utan
för en þá starfaði hann sem verslunarmaður í Flatey á Breiðafirði og var
enn ekki sestur á skólabekk. Sex árum síðar var Steingrímur útskrifaður
úr háskólanum í Kaupmannahöfn í málfræði og sestur þar að, en Matthías
orðinn tuttugu og sjö ára skólapiltur í Reykjavík, nýbúinn að skrifa leikritið
sem seinna fékk nafnið Skugga-Sveinn, en hét nú Útilegumennirnir – og sló
í gegn. Þann 17. mars 1862 skrifar hann Steingrími bréf um þennan listræna
sigur með þeirri hógværðardrýldni sem sýnist við hæfi hér:
Ég bjó til eða sullaði eða skrúfaði saman leikriti í jólafríinu. Það heitir „Útilegu
mennirnir“ og er í 4 þáttum með ljóðmælarusli hér og þar. Mér leiddist þessi danska
„Kommindía“, sem griðkonur hérna segja, og tók mig því til, og þó þetta rit mitt
í raun og veru sé ómerkilegt gjörði það þó hvínandi lukku; ég var æptur fram á
scenuna og klappaði pöbullinn yfir mér svo að ég varð áttavilltur. Svei mér ef ég
nenni að tala meira um þetta efni við þig, hinu lofa ég að senda þér exemplar af
þessum sótröptum ef ég gef þá út í vor eða sumar, sem ég líklega ekki kemst hjá að
gjöra. Til hins langar mig út af lífinu, að búa til eitthvert sögudrama, en til þess er ég
enn ekki fær, enda þótt ég væri laus orðinn við þessa hlekki. Ég hef vaðið í gegnum
flest Shakespeares rit í vetur, á sænsku, því ég hef ekki tíma til að lesa originalinn.
Hvað ætli þeir segðu hérna um einn Shakespeare? Landar eru í mörgu kýmilegir en
sem critici, skaltu trúa, taka þeir sig fyrst broslega út! Yfir þessu áminnsta riti mínu hafa
999 hrafnar krunkað á víxl og kalla þessa aðferð æstetiska. Annars eru menn sólgnir í
leiki og verða því meir genverðugir sem þeir komast á betra, og lýsir það interessi. Við
höfum póstfrí í dag. Mér er hálfillt og get varla skrifað fyrir einhverri óþreyju. Líklega
fer ég ekki á háskólann, því ég hef enga peninga, og enga æsku framar …
Rúmum mánuði síðar skrifar Matthías Steingrími aftur og er nú ótæpilega
slett, enda mjög rætt um æðri listir:
Mig gladdi meira miðinn sem ég fékk frá þér núna með póstskipinu en allt vrövlið
og skrautið í vetur meðan „Útilegum.“ mínir voru á stokkunum. Ég vildi nú óska að
ég væri búinn að yfirfara þá og láta prenta fyrst ég verð að gera það á annað borð.