Orð og tunga - 08.07.2019, Qupperneq 27
Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir: Kjarni tungumálsins 15
nokkuð um það að segja þar sem þær hafa gjarnan verið ákveðnir
áhrifa valdar um tungumálið.
Það má ímynda sér aðstæður árið 2018 þar sem orð af erlendum
uppruna er tekið inn í orðabók vegna þess að orðið er raunverulega
notað, gjarnan fyrst á óformlegum vettvangi. Menn setja stundum
fyrirvara eða afsaka sig þegar þeir nota slíkt orð, og segja þá t.d. í
fjöl miðlaviðtali „ef ég má sletta.“ Þróun slíks orðs í orðabók getur
verið sú að orðið er kannski fyrst merkt slangur, síðan óformlegt, og
ef orðið sýnir engin merki um að það sé að hverfa á braut er slíkum
merkimiðum sleppt á endanum (í sumum tilfellum), enda er orðið
þá orðið hluti af eðlilegri íslensku. Meðal eldri dæma um slíkt orð er
dúkka, sem er tökuorð úr dönsku og var merkt með spurningarmerki
bæði í Íslensk-danskri orðabók (1920–1924) og í ÍO (1983). Í fyrri bókinni
táknar spurningarmerkið „erlent tökuorð sem algengt er í talmáli,
einkum í bæjum; ekki viðurkennt í ritmáli.“ Í þeirri síðari táknar
spurningarmerkið „vont mál, orð eða merking[u] sem forðast ber í
íslensku.“ Í Íslenskri nútímamálsorðabók er dúkka ekki merkt neinu
sérstöku málsniði enda mundu flestir telja það látlaust og venjulegt
orð.
Dæmi um orð í Íslenskri nútímamálsorðabók sem hefur ekki losnað
við að vera merkt óformlegt er nafnorðið bús. Það er merkt sem vont
mál í ÍO 1983. Bús virðist ekki enn hafa öðlast fullan þegnrétt í málinu
en það gæti stafað af merkingu þess (‘áfengi’). Elsta þekkta ritheimild
um orðið bús er frá árinu 1950 í bókinni Vögguvísa eftir Elías Mar
(ROH), svo að orðið á sér nokkuð langa sögu í nútímaíslensku. Raun-
ar er upprunalega enska orðið booze einnig merkt óformlegt í ensku
veforðabókinni English Oxford Living Dictionaries.
Fleiri dæmi um orð sem ljóst er að eru tökuorð (eða slettur) en
heyrast samt oft (og sjást) eru blokkera, formúlera, fókusa, fókusera,
kommentera, púrítani, sessjón, tradisjón og vandalismi. Þessum orðum
var bætt inn í Íslenska nútímamálsorðabók, einkum vegna tíðni þeirra
í textasöfnum, en til að upplýsa notandann um að orðin hafi ekki
hlutlausan stíl í íslensku eru þau merkt óformleg. Eftir því sem tímar
líða fram kemur í ljós hvort málsnið þeirra breytist.
Ný orð geta átt sér allt aðrar forsendur en lýst hefur verið hér.
Stundum er brýn þörf á að bæta orðum við málið vegna þess að
breytilegar aðstæður, ný tækni o.s.frv. krefjast nýrra orða til að nota
í stað erlendra hugtaka, orða sem falla vel að íslensku máli. Ari Páll
Kristinsson (2017:149 o.áfr.) hefur nefnt þetta fyrirbæri málauðgun.
Þessi þörf er sannarlega ekki nýtilkomin, samanber það sem áður var
tunga_21.indb 15 19.6.2019 16:55:49