Húnavaka - 01.01.2018, Page 143
H Ú N A V A K A 141
nýstofnaðs heimilis. Hann kaupir þar 6 diskapör á 2,65, borðdúk á 2,55, bekk
á 30 aura, lausarúm sem kostaði 2,50, stígvélaskó á 3,70, kassa á 35 aura, 3
gjarðir á eina krónu, 3 hrífuhausa sem kostuðu 50 aura, bandreipi fyrir heilar
9 krónur og byttu á 75 aura. Pálmi tengdafaðir hans gerir líka góð kaup á
þessari aksjón, fjárfestir m.a. í beislishring, skeifum, töglum og hamri.
En hún átti góða að
Hvort amma og afi hafa hugsað sér að taka við búi á Æsustöðum af foreldrum
ömmu, hefði afi fengið að lifa, veit ég ekki. Við getum öll gert okkur í
hugarlund hversu mikið það áfall hefur verið fyrir ömmu að missa manninn
sinn, eftir aðeins þriggja ára hjónaband, frá tveimur ungum drengjum. En hún
átti góða að og eftir lát hans bjó hún áfram á Æsustöðum með drengina sína í
sambýli við foreldra sína.
Amma kynntist öðrum manni sem hún giftist og árið 1921 keyptu þau
jörðina Bjarnastaði og fluttust þangað. Þetta seinna hjónaband stóð ekki lengi
og árið 1925 skildu þau. Upp frá því bjó hún ein á Bjarnastöðum með hjálp
drengjanna sinna, pabba og Pálma og uppeldissonanna, Þorbjörns Ólafssonar
og Sigurjóns Jónassonar, allt þar til Pálmi tók við búskapnum. Fljótlega upp úr
því flutti hún hingað til Blönduóss, heim til pabba og mömmu, helgaði
heimilinu krafta sína og tók þátt í uppeldi okkar systkinanna á sinn blíða og
hógværa hátt. Hún átti þó lögheimili á Bjarnastöðum alla ævi og unni þeirri
jörð mjög mikið.
Zophonías Zophoníasson.Guðrún Einarsdóttir.