Húnavaka - 01.01.2018, Page 149
H Ú N A V A K A 147
Ég hef a.m.k. erft þetta kartöflugen
Þó aksturinn og bílaútgerð hafi verið ævistarf föður míns, var nú svo sem
starfað við ýmislegt annað enda erfiðir tímar á þeim árum sem þau mamma
byrjuðu að búa. Kreppa var í heiminum og fátækt mikil svo reynt var að hafa
öll spjót úti til að afla heimilinu tekna.
Árið 1930 tók pabbi við bensínumboði Olíuverslunar Íslands, sem nú er
þekktara sem Olís, eða bara ÓB-bensín hér á Blönduósi, og seldi fyrir þá
bensín og olíur allt fram til ársins 1964. Vorum við systkinin eðlilega gernýtt
við þá starfsemi sem bensíntittir, þó það starfsheiti þekktist ekki þá.
Ekki má gleyma kartöflunum en foreldrar okkar voru með ekki færri en þrjá
kartöflugarða, einn upp við Litlalæk, annan hjá Stóru-Giljá og svo auðvitað í
Selvík. Við kartöfluupptekt og arfatínslu fékk maður að puða og ég, a.m.k.
hef erft þetta kartöflugen því enn ræktum við Guðjón kartöflur í Selvíkinni.
Foreldrar mínir voru lengi með kýr sem hýstar voru í húsi því sem seinna
varð Verslunarfélagshúsið. Sigga var kúreki, rak kýrnar upp í Klifakot eftir
mjaltir á morgnana og sótti svo á kvöldin. Þá hefur pabbi líka verið með hross
en það er fyrir mitt minni. Árið 1937 á hann fimm hross sem heita Bleik 11
vetra, Jörp 7 vetra Bleikur 3ja vetra, Rauður 3ja vetra og Mosa 2ja vetra.
Árið eftir er Mosa dauð.
En vorið 1943 er heldur betur orðin breyting á. Þá er Bleik orðin Gamla-
Bleik enda orðin 17 vetra, Jörp er á sínum stað en nú hefur Sigga eignast Bleik
og kallast hann nú Siggu-Bleikur. Bæst hafa í hrossahópinn; Rauðka (sem mér
finnst nú reyndar beljunafn), Mosi og Grani.
Hér lýkur þessari frásögn um líf og starf hans pabba. Hann starfaði sem atvinnubílstjóri
hér í sýslunni í yfir 50 ár. Hann var farsæll bílstjóri og ég veit ekki til að hann hafi nokkru
sinni lent í alvarlegu umferðaróhappi, eða valdið öðrum tjóni.
Þegar ákveðið var að afkomendur foreldra minni kæmu saman á 100 ára afmæli pabba
árið 2006 ákvað ég að taka saman smá frásögn um ævi hans, svo unga fólkið í ættinni fengi
innsýn í veröld forfeðra sinna sem þau aldrei kynntust og flutti ég hana á ættarmóti sem
haldið var í júlí 2006.