Húnavaka - 01.01.2018, Side 170
H Ú N A V A K A 168
Reykjum í Hrútafirði, þar bar hann af sem afburða námsmaður. Síðan út-
skrifaðist Jónmundur sem búfræðingur frá Bændaskólanum á Hvanneyri.
Árið 1963 hóf Jónmundur sambúð með Sveinbjörgu Ósk Björnsdóttur
(Boggu) (1919 -2001). Foreldrar hennar voru Björn Þorleifsson og Vilhelmína
Andrésdóttir. Börn Boggu eru Hörður R. Ragnars, f. 1938, Ásgeir (1942-
2011), Óskar, f. 1943 og Guðríður Ósk, f. 1952.
Fyrstu búskaparárin bjuggu Jónmundur og Bogga í Reykjavík og á
Suðurnesjum. Þar vann hann í byggingavinnu, sótti sjóinn í Sandgerði og var
í aðgerð. Eljusemi, vinnuharka og að redda hlutunum var honum eðlislægt.
Á einum fiskibát frá Sandgerði var hann allt í senn; stýrimaður, kokkur, háseti
og vélstjóri og gerði að fiskinum þegar hann kom í land.
Jónmundur og Bogga tóku við búi foreldra hans árið 1967. Seinna keyptu
þau Hafursstaði. Eftir að Bogga lést sá hann einn um búskapinn í nokkur ár
með aðstoð ættingja og vina. Hann vann sér góðan orðstír með hjálpfýsi við
sveitunga, var hjartahlýr og barngóður. Hann lét gjarnan þarfir annarra
ganga fyrir sínum eigin og mátti ekkert aumt sjá.
Marga fjöruna hafði Jónmundur sopið til fjalla og sveita. Hann varð fyrir
ýmsum óhöppum og slysum misalvarlegum, tók tvisvar sinnum út af bát, varð
undir margra tonna húsklæðningu, nauti, dráttarvél og rútu svo fátt eitt sé talið
upp. En hann stóð upp, bognaði nokkuð eftir því sem á ævina leið en lét ekki
deigan síga.
Jónmundur var dökkur yfirlitum, meðalmaður á hæð, þéttur á velli, hafði
öra lund og fljótráður til alls sem honum datt í hug. Það er sagt að Jónmundur
hafi verið þjóðsagnapersóna í lifanda lífi og margar sögur eru til af atvikum úr
lífi hans, tilsvörum og látbragði. Hann átti mörg áhugamál, þrátt fyrir að
vinnan væri sífellt í forgrunni. Hann hafði gaman að veiðum og fór víða um
fjöll og heiðar.
Framan af árum beindist allur hans áhugi að uppbyggingu jarðar sinnar en
síðar urðu það menningarmálin. Hann var lífsglaður og virkur þátttakandi í
flestu því sem Húnavatnssýslur höfðu upp á að bjóða. Það var t.d. eins víst og
sólin kæmi upp að morgni að Jónmundur væri mættur í Skrapatungurétt til að
fylgjast með göngum og hrossasmölun. Hann fór í ferðir eldri borgara til
Kanaríeyja og víðar og lét sig ekki vanta á Sparidaga á Hótel Örk.
Eftir að Jónmundur seldi Hafursstaði og síðar Kambakot, flutti hann á
Mánabraut 13 á Skagaströnd. Hann varð bráðkvaddur og var jarðsunginn frá
Hólaneskirkju 3. maí. Jarðsett var í Höskuldsstaðakirkjugarði.
Sr. Bryndís Valbjarnardóttir.
María Kristjánsdóttir,
Tjörn í Skagabyggð
Fædd 3. apríl 1937 – Dáin 27. júní 2017
María var fædd í Hvammkoti í Vindhælishreppi hinum forna. Foreldrar
hennar voru Guðríður Jónasdóttir (1908-1982) og Kristján Guðmundsson