Húnavaka - 01.01.2018, Page 176
H Ú N A V A K A 174
Guðrún Anna Sigurjónsdóttir
frá Blönduósi
Fædd 21. janúar 1932 – Dáin 10. ágúst 2017
Anna var fædd að Geirastöðum í Þingi. Foreldrar hennar voru Sigrún Krist-
björg Jakobsdóttir (1902-1937) og Sigurjón Jónasson (1907-1969). Anna átti
fjögur systkini sammæðra: Jónas (1924-2004), Maríu (1924-1994), Guðrúnu
Jakobínu (1927-1942) og Jóhann Hauk (1929-2016). Þá átti hún þrjú syst-
kini samfeðra: Guðrúnu (1937-2004), Jónas, f. 1945 og Hávarð, f. 1948.
Anna var aðeins fjögurra ára gömul þegar hún missti móður sína. Hún ólst
upp hjá fósturforeldrum sínum, þeim Guðrúnu Þorkelsdóttur og Jónasi Illuga-
syni. Guðrún giftist síðar Jóni Ólafi Benónýssyni. Fósturforeldrar Önnu
reyndust henni afar vel og Sigurjón faðir hennar sýndi henni ræktarsemi.
Anna lauk hefðbundnu skólanámi þess tíma og hún stundaði nám við
Kvennaskólann á Blönduósi árin 1949-1950. Þar
lærði hún margt og eignaðist góða og trausta vini.
Á heimaslóð kynntist Anna ungum Húnvetningi,
Þorgeiri Sigurgeirssyni (1928-2015). Þau felldu
hugi saman og gengu í hjónaband á annan dag
jóla árið 1951. Þau hjón eignuðust tvö börn sem
eru: Torfhildur Sigrún, f. 1951, maki hennar er
Leifur Brynjólfsson og eiga þau tvo syni. Jónas,
f. 1952, maki hans er Harpa Högnadóttir og
eiga þau tvö börn. Heimili Önnu og Þorgeirs var
á Blönduósi til ársins 1956 en þá fluttu þau til
Reykjavíkur. Nokkrum árum síðar skildu leiðir
þeirra.
Fyrir sunnan vann Anna í fyrstu hjá Pönt-
unarfélaginu Græði en árið 1959 hóf hún störf í
Mjólkursamsölunni í Reykjavík. Þar vann hún til starfsloka eða í rúma fjóra
áratugi. Henni féll vel að vinna í Samsölunni og eignaðist þar marga trausta
vini. Anna naut þess að ferðast bæði innanlands og erlendis. Formúlan höfðaði
mjög til hennar enda hafði hún gaman af bílum. Anna og Hrafn Marinósson
frá Blönduósi voru vinir og áttu góðar stundir saman.
Anna átti marga vini og taldi ekki eftir sér að sinna þeim og fólki sem
þarfnaðist félagsskapar og aðstoðar. Hún vitjaði margra slíkra. Barnabörnin
og langömmubörnin nutu og umhyggju ömmu sinnar og samskipta við hana.
Átthagarnir voru Önnu kærir og hún tók þátt í starfi Húnvetningafélagsins.
Anna var glaðsinna og skemmtileg en hún var föst fyrir ef því var að skipta.
Hún hafði gaman af því að dansa og að vera vel klædd. Matargerð lét henni
sérlega vel. Hún var orðheppin, hnyttin í tali, lífleg og gamansöm. Hún var
ekki heilsuhraust síðustu árin og sjón hennar dapraðist mjög.