Húnavaka - 01.01.2018, Page 182
H Ú N A V A K A 180
Síðar kom Helga Ásta aftur norður til foreldra Sigurðar þegar hún var orðin
einstæð móðir með eitt barn. Upp úr því taka þau saman og flytja suður til
Reykjavíkur. Þar starfaði Sigurður sem verslunarmaður.
Þau fluttu aftur norður haustið 1959 og þá voru börnin orðin þrjú. Til að
byrja með bjuggu þau í Ásgeirshúsi sem var gamalt, tæplega 40 fermetra hús.
Smám saman varð ansi þröngt um barnmarga fjölskylduna og byggði Sigurður
þá hús á Holtabraut, sem fjölskyldan flutti í árið 1968. Þar var mun rýmra um
þau og þar bjó Sigurður þar til hann lést.
Börn Sigurðar og Helgu Ástu eru sex: Margrét, f. 1954, gift Herði G.
Ólafssyni og eiga þau fjögur börn. Helga, f. 1957,
gift Þorsteini Högnasyni og eiga þau þrjú börn.
Þorsteinn, f. 1958, kvæntur Elínu Hrund Jóns-
dóttur. Börn þeirra eru fjögur. Hulda, f. 1960, gift
Þorsteini Erni Björgvinssyni, þau eignuðust þrjú
börn en eitt er látið. Sigursteinn, f. 1963, kvæntur
Charuda Phonsuwan. Börn þeirra eru fjögur.
Birna, f. 1964, gift Ólafi Páli Jónssyni og eiga þau
þrjú börn.
Fljótlega eftir að Sigurður flutti aftur norður
setti hann á stofn bíla- og dekkjaviðgerðafyrir-
tækið Hjólið á Blönduósi. Til að byrja með var
hann með aðstöðu í gamla líkhúsinu við gamla
spítalann á Blönduósi eða þar til hann byggði
stórt hús við Norðurlandsveg. Í Hjólinu sinnti hann dekkjaviðgerðum, al-
mennum bíla- og vinnuvélaviðgerðum ásamt nýsmíði. Jafnframt rak hann
einangrunar plastverksmiðju til fjölda ára.
Árið 1987 lagði Sigurður niður fyrirtækið. Eftir það sinnti hann m.a.
bleikjueldi en hann hafði mikinn áhuga á fiskeldi. Hann vann mikið þegar
börnin voru lítil en var þó ávallt í góðum tengslum við þau. Hann bar ekki
tilfinningar sínar á torg en hann var umhyggjusamur og ábyrgðarfullur og
bar hag barna sinna ávallt fyrir brjósti. Sigurði þótti gaman að verða afi.
Hann fylgdist vel með barnabörnunum og langafabörn unum og þeim þótti
gott að vera með afa sínum.
Sigurður hafði mikinn áhuga og smekk fyrir ljóðlist og góða tilfinningu fyrir
tungumálinu. Hann lagði áherslu á að tala gott mál og hefði aldrei hvarflað að
honum að heilsa eða kveðja með hæ eða bæ. Hann kenndi börnum sínum og
barnabörnum að vanda mál sitt og framkomu. Hann hafði mikinn áhuga á
leiklist og starfaði með Leikfélagi Blönduóss í fjöldamörg ár. Hann var
formaður þess í nokkur ár auk þess sem hann var gerður að heiðursfélaga.
Hann var einnig mikill spilamaður og var bæði í lomber- og bridgeklúbbi á
Blönduósi.
Útför Sigurðar fór fram frá Árbæjarkirkju 20. október.
Sr. Guðrún Karls Helgudóttir.