Skessuhorn - 20.12.2017, Blaðsíða 46
MIÐVIKUDAGUR 20. DESEMBER 201746
Haldið upp á fertugsafmæli FVA
Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi varð fertugur á liðnu
hausti og haldið var upp á afmæli skólans með hátíðardag-
skrá laugardaginn 16. september. Þar voru flutt ávörp og sett-
ar upp ljósmynda- og myndbandasýningar frá starfi skólans
í gegnum tíðina. Nemendur í fjölmiðlaáfanga gáfu út veg-
legt afmælisrit í tilefni tímamótanna, hljómsveitin Tíbrá og
fleiri tónlistarmenn og skemmtikraftar sem numu við skólann
komu fram á hátíðinni.
Forseti gripinn við fjárdrátt
Þegar réttað var í Þverárrétt í Eyja- og Miklaholtshreppi á
liðnu hausti sáu margir réttarmanna kunnuglegu andliti
bregða fyrir. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, var
þar staddur og dró rígvæna dilka í réttinni eins og hann hefði
aldrei gert annað.
Rýrt knattspyrnusumar
Knattspyrnulið vestlensk riðu ekki feitum hesti frá keppnis-
tímabilinu 2017. Skagamenn vermdu botnsæti Pepsi deild-
ar karla bróðurpart sumars og féllu niður í 1. deild. Víking-
ur Ólafsvík háði harða fallbaráttu til lokaleiks þar sem þeir
mættu einmitt ÍA á Akranesvelli. Þurftu þeir að sigra til að
halda sér uppi og treysta á hagstæð úrslit annarra leikja. Hvor-
ugt lánaðist þeim því leiknum lauk með markalausu jafntefli
og önnur úrslit urðu þeim í óhag. Þar með féll Víkingur og
leikur ásamt ÍA í 1. deild á næsta ári.
Kvennalið ÍA og Víkings Ó. léku bæði í næstefstu deild á
liðnu sumri. Víkingskonur áttu erfitt uppdráttar í allt sumar
og féllu að lokum úr deildinni og leika því í 2. deild á komandi
tímabili. Skagakonur luku aftur á móti keppni um miðja deild
og eru vafalítið stórhuga fyrir komandi tímabil.
Knattspyrnufélag Kára á Akranesi hóf bikar á loft að loknu
sumri, en þeir lönduðu efsta sæti 3. deildar karla og leika þar
með í 2. deild næsta sumar.
Tvennar tvíburasystur á
fæðingadeildinni
Tvær tvíburamæður lágu sængurleguna á kvennadeild Heil-
brigðisstofnunar Vesturlands á Akranesi í lok septembermán-
aðar. Að sögn ljósmæðra á Akranesi mun þetta vera í fyrsta
sinn svo vitað sé að tvenn tvíburasystkini dvelji á deildinni á
sama tíma. Oftast fæðast ekki nema ein tvíburasystkini á deild-
inni á ári hverju og því afar ólíklegt að rekast þar á tvenn tví-
burasystkini sama daginn. Foreldrar barnananna eru annars
vegar Bryndís Ottesen og Jón Einar Hjaltested og hins vegar
Linda Sif Frímannsdóttir og Jón Már Brynjólfsson, öll búsett
á Akranesi. Þeim Bryndísi og Jóni Einari fæddust tvær stúlk-
ur, Emilía og Freyja, að morgni þriðjudagsins 19. september.
Þær komu í heiminn á Landspítalanum en rúmlega sólarhring
síðar færði fjölskyldan sig til sængurlegu á kvennadeildina á
Akranesi. Fimmtudaginn 21. september fæddust Lindu og
Jóni Má einnig tvær stúlkur, Natalía og Ísabella. Þær komu
í heiminn á Akranesi og fjölskyldan lá sömuleiðis sængurleg-
una á kvennadeildinni.
Reistu íbúðarhús úr
krosslímdum viði
Fyrsta íbúðarhúsið úr krosslímdum viði, svo vitað sé, var reist
á Akranesi nú í haust. Um er að ræða parhús á tveimur hæð-
um við götuna Seljuskóga þar sem hvor íbúðin um sig er um
200 fermetrar að stærð. Það eru þeir Bjarni Ingi Björnsson og
Jón Þór Jónsson sem byggja húsið fyrir sig og fjölskyldur sín-
ar. Einingarnar eru fluttar til landsins af fyrirtækinu Strúktúr
ehf. Talsvert er byggt af íbúðarhúsnæði á Akranesi á þessu ári.
Við samantekt Skessuhorns í haust voru þá á annað hundrað
íbúðir í smíðum eða/og á teikniborðinu.
Matarauður Vesturlands
Verkefninu Matarauð-
ur Vesturlands var ýtt úr
vör í landshlutanum á liðnu
hausti af Samtökum sveitar-
félaga á Vesturlandi. Mark-
mið þess er að efla mat-
vælaframleiðslu, fullvinnslu
hráefnis í héraði, sölu beint
frá býli, hráefnistnotkun úr
heimahéraði á veitingastöð-
um og matartengda upplifun
á Vesturlandi. Skessuhorn
gaf út sérblaðið Matarauð-
ur Vesturlands í samstarfi við
SSV og verkefnisstjórn í til-
efni af verkefninu.
Skin og skúrir við Hraunfossa
Veitingastaður var opnaður við Hraunfossa á liðnu sumri
af fjölskyldufyrirtækinu Hraunfossar-Barnafoss ehf. Að því
standa Snorri Jóhannesson og Jóhanna Björnsdóttir á Auga-
stöðum, dóttir þeirra Kristrún og maður hennar Arnar Ey-
fjörð Arnarsson. Veitingaskálinn við Hraunfossa er 160 fer-
metrar að stærð með 200 fermetra sólpalli. Framtakið er vel
heppnað að mati flestra þeirra sem þangað hafa komið, en
þeir eru margir því Hraunfossar eru ein fjölsóttasta náttúru-
perla Borgarfjarðar. Það vita líka þeir sem hófu í októbermán-
uði meinta ólöglega innheimtu bílastæðagjalds við Hraun-
fossa. Að henni stóðu eigendur jarðarhlutans Hraunsáss II,
sem eru þrír þekktir fjárfestar sem víða hafa komið við í við-
skiptalífinu: Lárus Blöndal hrl. og forseti ÍSÍ, Guðmundur
A. Birgisson, oft kenndur við Núpa í Ölfusi og Aðalsteinn
Karlsson. Keyptu þeir Hraunsás II fyrir nokkrum árum, en
hluti jarðarinnar liggur yfir stóran hluta núverandi bílastæð-
is við Hraunfossa. Gjaldtaka á bílastæðinu er alfarið í óþökk
annarra landeigenda og rekstraraðila veitingaskálans, sem og
stjórnvalda. Stóð hún yfir í fjóra daga, frá föstudegi til mánu-
dags, þar til lögregla stöðvaði gjaldtökuna enda var þá farið að
hleypa farþegum úr hópferðabílum út á þjóðveginn með til-
heyrandi stórhættu.
Kosið aftur til Alþingis
Annað árið í röð gengu Íslendingar til Alþingiskosninga. Kos-
ið var 28. október síðastliðinn, eða fimm vikum eftir að rík-
isstjórn Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar
sprakk. Tildrög stjórnarslitanna voru þau að tveir ráðherrar
þeirrar ríkisstjórnar, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra, höfðu leynt sam-
ráðherra sína og samstarfsflokka því að faðir forsætisráðherra,
Benedikt Sveinsson, hefði skrifað meðmælabréf vegna um-
sóknar dæmds kynferðisafbrotamans um uppreist æru. Sætti
Björt framtíð sig ekki við það og ákvað að slíta samstarfinu.
Að kosningum loknum tóku stjórnmálaleiðtogar sér tíma til
að mynda meirihluta en að lokum varð mynduð ríkisstjórn
Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna undir
forystu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Selkópar fóstraðir í Búðardal
Fyrr í vetur fengu tveir selkópar úr Fjölskyldu- og húsdýra-
garðinum í Reykjavík nýtt heimili þegar þeir voru fluttir í fóst-
ur í Búðardal. Þar hafði Svavar Garðarsson útbúið litla afgirta
tjörn við höfnina þar sem selirnir hafa síðan verið fóstraðir, en
Svavar átti jafnframt hugmyndina að fóstri selanna. Kóparnir
una sér vel í Búðardal, éta vel af fóðri og hafa það gott í tjörn-
inni. Vonir standa til þess að með tíð og tíma fáist leyfi til að
sleppa kópunum og að í framhaldinu verði byggð upp þekking
og aðstaða í Búðardal til aðlögunar og síðan sleppingar sela
sem hafa af einhverjum ástæðum verið sviptir frelsinu.
Fréttaannáll ársins 2017 í máli og myndum
Framhald á næstu opnu