Tímarit Máls og menningar - 01.11.2005, Síða 34
Bragi Ólafsson
þiggja boðið væri tekin að vel ígrunduðu máli. Svo ákvað ég að
taka ekki þá áhættu að hann myndi hætta við allt saman, og notaði
fremur varfærnisleg orð til að hrósa honum fyrir hafa gert upp hug
sinn; hann hefði bara gott af því að fara til Ástu þetta kvöld, hann
gæti alveg slakað á þótt vinkona hennar, Sesselja - sem ég væri
reyndar búinn að hlera að væri leikkona og starfaði með einhvers
konar tilraunaleikflokki - yrði meðal gestanna; hún myndi ekki
meiða hann eða éta, hann gæti verið alveg rólegur.
7
Það reyndist hins vegar vera rétt hjá Aðalsteini, að það gæti haft
„áhrif á það sem gerðist í framhaldinu“ ef hann mætti í boðið til
Ástu - jafn kjánalega og það hljómaði þegar hann sagði það. Með
öðrum orðum: hann lét svo lítið að mæta í boðið. Og þar var Sess-
elja, hin nýja vinkona gestgjafans, sú sem bað Ástu sérstaklega um
að bjóða Aðalsteini í veisluna - þó auðvitað hafi það komið í minn
hlut að telja hann á að þiggja boðið. Sesselja var í túrkislituðum
silkikjól, og á því augnabliki sem Aðalsteinn hringdi dyrabjöllunni
var hún á gangi fram og aftur eftir eldhúsgólfinu, eins og hún
væri að fara yfir einhvern dramatískan texta í huganum, algerlega
ómeðvituð um hversu taugaóstyrk hún leit út í speglaveröld Ástu.
Þegar Aðalsteinn kom svo inn í eldhúsið - hann hélt með þumli og
vísifingri utan um vinstri eyrnasnepil sinn, eins og hann væri að
klípa í hann - hafði Sesselja staðnæmst við eldhúsborðið; hún hélt
einu af appelsínugulu eplunum upp að munninum, á svipinn eins
og hún sæi eftir að hafa bitið í það.
Hún var með munninn fullan þegar þau heilsuðust; það skildist
ekki orð af því sem hún sagði.
Aðalsteinn kynnti sig með fullu nafni. Og á því augnabliki sem
Sesselja ætlaði að segja eitthvað meira - þegar hún hafði kyngt því
sem hún var með í munninum - hafði Aðalsteinn ákveðið að ef
einhver manneskja mætti éta sig með húð og hári, þá væri þetta
hún; það væri engin spurning í sínum huga, jafnvel þótt hún,
Sesselja, „kynni að spyrja hann einhverra spurninga seinna um
kvöldið“.
Þannig orðaði hann það við mig í símanum daginn eftir. Og ég
32
TMM 2005 • 4