Heimsmynd - 01.06.1987, Blaðsíða 116
Gígja á heimili sínu á
Sjafnargötunni ásamt
kettinum Felix.
✓
Líf í utanríkis-
þjónustunni
Gígja Björnsson segir frá lífi sínu sem
sendiherrafrú í útlöndum
eftir llluga Jökulsson
Hún stóð við hlið manns síns í opinber-
um veislum í helstu borgum heims; bauð
ráðherrum og forsetum til matar hjá sér
og skálaði við kóngafólk í kokkteilboð-
um. Nú heldur hún heimili fyrir síams-
köttinn Felix á Sjafnargötunni og bæði
virðast býsna ánægð með sitt hlutskipti.
„Þetta er vinalegasti köttur,“ segi ég
þegar Felix hefur skoðað mig hátt og lágt
og lagt yfir mig, vona ég, sína aristókrat-
ísku blessun.
„Já,“ samsinnir Gígja. „Þetta er vina-
legasti köttur." Svo brosir hún og brettir
upp ermina á kjólnum sínum svo djúp
skráma blasir við á framhandleggnum.
„Svona er hann nú vinalegur!"
Felix er sem sé ekkert blávatn þegar
svo ber undir en það er Gígja Björnsson
ekki heldur. Hún er kannski ekki lengur
neitt unglamb og þarf að styðja sig við
staf til öryggis eftir nýlegan uppskurð, en
er þó greinilega leiftrandi af lífsfjöri og
þrótti. Ung gekk hún að eiga Henrik Sv.
Björnsson og fylgdi honum víða um
lönd, þar sem hann var við störf fyrir
íslensku utanríkisþjónustuna sem einmitt
um þær mundir komst á legg. Um leið
varð hún tengdadóttir fyrsta forseta lýð-
veldisins og átti þess kost að fylgjast með
mótun þess háa embættis. Hún ól börn
sín upp í útlöndum og þar búa þau enn,
þótt sonur hennar, alnafni forsetans afa
síns, sé brátt væntanlegur frá London til
starfa í utanríkisráðuneytinu hér, móður
sinni til mikillar gleði. Hún kveðst nú
vera bæði sátt og þakklát þegar hún lítur
yfir farinn veg.
„Auðvitað hef ég minn söknuð," segir
hún og á þá við mann sinn sem lést fyrir
tæpum tveimur árum. „En minningar á
ég hins vegar ekki nema góðar.“
Heimilið á Sjafnargötunni er fullt af
þessum minningum. Þetta er vandað ís-
lenskt menningarheimili í gömlum stíl og
þó á ýmsan hátt ákaflega nútímalegt;
þarna er bjart yfirlitum og litir smekk-
lega valdir saman; hvergi er ofhlaðið
munum eða málverkum þótt þau hjón
hafi bersýnilega átt yfrið nóg af minja-
gripum frá útlöndum til að prýða með
heimili sitt. Hún sýnir mér meðal annars
gamla myndasögu frá Eþíópíu, málaða
björtum litum á geitarskinn, og segir
116 HEIMSMYND