Heimsmynd - 01.05.1990, Page 93

Heimsmynd - 01.05.1990, Page 93
MANNASIÐIR eftir MAGNÚS ÞÓRÐARSON » alsverður tími af ævi sérhvers manns fer í að hugsa um það hvernig hann komi öðrum fyr- ir sjónir, hvernig eigi að um- gangast aðra og hvernig eigi að ráða í það af orðum, við- móti og atferli annarra hverj- um augum þeir líti á hann. Hjá flestum dýrategundum ræðst það mjög snemma á æv- inni hvar hver er í valdaröð- inni innan hópsins. Hjá mann- inum er þetta allt miklu flóknara, en þó er einkennilegt að lesa um það að meira að segja í heimi maura minnir ýmislegt á atferli mannsins í umgengni við aðra. Flestum mun finnast verst að láta aðra líta niður á sig. Ekki er því að neita að menn eru misjafnlega hörundssárir í þessum efnum. Sumir eru móðgunar- gjamari en aðrir. Öll þekkjum við þó hrokagikki; menn sem virðast njóta þess -* að láta aðra finna til máttar síns og yfir- burða. Þeir hafa gaman af því að traðka á litla manninum, oft að ástæðulausu, að því er virðist. það er eins og þeir geti ekki stillt sig, liggi annar vel við höggi. Frá upphafi til enda er líf manna sam- leikur við aðra menn. Þar er ýmsum brögðum beitt og ekki öllum fögrum, sé reynt að leggja siðferðilegt mat á þau. Við þessu sýnist lítið hægt að gera þótt ekki megi vanmeta áhrif trúarbragða, svo sem kristni, á almennar leikreglur og sambúðarvenjur í lífi manna. Lífsreglur trúaðs manns draga úr harðneskjunni í jarðlífinu, að minnsta kosti þegar hann umgengst trúbræður sína, en hætt er við að hann verði stundum undir í glímu við trúlausa fanta. Mjúki maðurinn fellur fyrir hinum harða, en fall hans getur orðið mýkra en ella vegna þess að lífs- gildi hans og viðmiðun sætta hann frem- ur við skellinn. Harði maðurinn kemur hins vegar hart niður í hverju falli. Hann metur tap sitt meira en mjúki maðurinn metur sitt. Honum finnst hann hafa ver- ið lítillækkaður og niðurlægður, bæði lík- amlega og andlega. Ýmisleg ráð eru notuð til þess að nið- * urlægja aðra og eru þau svipuð hvort sem tilgangurinn er að ryðja hugsanleg- um keppinaut eða andstæðingi frá eða hvort engin rökrétt eða sýnileg ástæða er fyrir hendi önnur en sú að auglýsa al- mennt yfirburði sína. Augnaráðið eitt getur gefið viðmælanda og öðrum við- stöddum til kynna allt frá umburðarlyndi yfirburðamannsins, óþolinmæði, með- aumkun eða hæðni til lítilsvirðingar og hreinnar fyrirlitningar. Meiðandi orð eru til af margvíslegu tagi, sem hinn grimmi kann að skjóta inn í mál sitt á réttum stöðum. Sum eru svo fínleg að hinn meiddi tekur ef til vill ekki eftir þeim fyrr en annar næmari hefur bent honum á að hann hafi verið særður. Væntanlega er það ímyndun mín, en mér hefur alltaf fundist kvenfólk vera naskara á að nema og skilja hálfkveðnar vísur í tali manni, dylgjur og dulbúnar svívirðingar. Sé þetta rétt er það líklega hluti af hinu frumstæða móðureðli sem alltaf er á varðbergi. Sumir segja reyndar að konan sé skyldari kettinum í eðli sínu en karl- inn. Hún sé catty eða féline, en hann skyldari bolabítum eða víghundum að eðlisfari. Hér er ég kominn út á afar hál- an ís og þori ekki að halda þessum hug- leiðingum áfram. Hugleiðingar um yfirlœti og embættishroka En mér leyfist kannski að skrifa örlítið um „umburðarlyndi yfirburðamanns- ins“? Flestum mun finnast það lítt þolan- legt og jafnvel óþolandi með öllu þegar viðmælandi sýnir lítillæti af náð sinni; það er hann lætur berlega skína í það að hann sé hinum meiri eða æðri en láti svo lítið af mildi sinni og manngæsku að eyða athygli sinni og dýrmætum tíma á þolandann. Þetta kalla enskumælandi þjóðir patronizing, dregið af sögninni to patronize. Stundum er þess konar fram- koma notuð í illu skyni, en eins oft, held ég, er að maðurinn viti ekki af þessari hegðun sinni. Þetta er honum ósjálfrátt af því að hann er svo sannfærður um að hann sé bestur og eigi því að vera mest- ur. Þá er það orðið skortur á almennri kurteisi. Oft held ég að slíka framkomu megi rekja allt til foreldrahúsa þar sem eitthvað hefur brugðist í uppeldinu. Ef til vill hefur allt verið látið eftir honum af því að hann var svo góður drengur eða góð telpa í augum foreldranna, þrátt fyrir allt, og seinna hefur skólasystkinum og samstarfsfólki ekki tekist að uppræta þennan hegðunargalla. Það hefur löng- um verið talinn kostur á íslendingum að þeir umgangist hverjir aðra sem jafn- ingja, öðrum þjóðum fremur. Manngild- ið sé metið eitt sér án tengsla við ætt- erni, auð eða stöðu, enda eru allir Is- lendingar skyldir hverjir öðrum, eiginlega náskyldir. Menn horfi hvorki upp til höfðingja svonefndra né niður á svokallaða lítilmagna, heldur horfist menn beint og óhikandi í augu. Þess vegna er hið falska umburðarlyndi og lít- illæti sjálfsímyndaðra yfirburðamanna óþolandi flestum íslendingum. Margir munu kannast við það að stundum gætir hroka og yfirlætis í fari og fasi embættis- manna þegar þeir umgangast venjulega borgara. Menn skyldu minnast þess að þeir eru ekki neitt annað en vinnumenn okkar á þjóðarbúinu, menn sem við höf- um ráðið í vinnu til þess að inna af hendi sameiginleg verkefni þjóðarinnar og það erum við sem greiðum þeim kaup fyrir þessa vinnu úr vösum okkar (með við- komu á skattstofunni). Því miður verður þessi yfirlætisframkoma embættismönn- unum stundum auðveld og eðlileg af því að við berum ekki höfuðið nógu hátt þegar við þurfum að ganga á fund þeirra. Þá er gott að hafa í huga að er- indi okkar er aðeins erindi vinnuveit- anda við vinnuþega. Við komum ekki á fund hans nema af því að hann á að vinna eitthvert verk fyrir okkur. A síð- ustu öld þúuðu embættismenn almenna borgara en vildu láta þéra sig á móti. Seinna fóru báðir að þéra hinn. Svo end- uðu þéringarnar þannig, því miður, að embættismaður gat notað þær til þess að sýna hinum fjarlægðina sem ætti að vera á milli þeirra! Þá var þetta orðið það sem Englendingar kalla snub og stund- um mætti þýða sem snuprur eða ofan- ígjöf. Nú kunna fáir að þéra nema hvað sumir reyna stundum að nota þær í gam- ansemi við kunningja. Enginn hefði trú- að því fyrr á öldinni að þéringar hefðu slíkan endi. Er það undanhald á almennum kurt- eisisvenjum eða yfirlæti þegar til dæmis starfsfólk á elliheimilum ávarpar dvalar- fólk með „elskan mín“ og „væna mín“? Fólki á elliheimilum finnst þetta niður- lægjandi ávarp, áminning um að það sé orðið börn í annað sinn. Mér er sagt að því þætti „heillin mín“ mun skárra en það er víst löngu úrelt og nánast hlægi- legt nú orðið.D HEIMSMYND 93

x

Heimsmynd

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Heimsmynd
https://timarit.is/publication/1408

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.