Ársrit um starfsendurhæfingu - 2016, Side 59
AÐSEND GREIN
Aukið varnarleysi í tilvistar-
legum breytingum
Í því ferli sem þátttakendur fóru í gegnum,
upplifðu þeir aukið varnarleysi þegar þeir
þurftu að takast á við aðstæður sínar og
samskipti við annað fólk, aðallega fagfólk.
Stundum leiddi þetta til lélegrar eða
neikvæðrar sjálfsmyndar. Einum þátttak-
anda fannst „bara að ég væri ræfill og
aumingi“ og „að ég væri einskis nýtur“.
Annar fann að hann var ekki lengur álitinn
„alvöru maður“ vegna þess að hann var
ekki að vinna. Breytingar á lífi þátttakenda
höfðu áhrif á sjálfsmynd þeirra. Þeir voru
viðkvæmari fyrir viðmóti fagfólks. Góð
ráðgjöf, stuðningur og umhyggjusemi efldu
þá og dró úr varnarleysi þeirra. Þegar
þátttakendur upplifðu umhyggjuleysi, skort
á ráðgjöf og stuðningi, þá jók það á varnar-
leysi þeirra og hafði neikvæð áhrif á bata. Í
ráðgjöf skiptir „klapp á öxlina“ miklu máli,
að styðja og hvetja ráðþega við mótun nýrra
hugmynda um sig og möguleika sína og
aðstoða þá við að finna nýjar leiðir (Patton
og McMahon, 2006).
Sýnileiki veikinda og
sektarkennd
Þátttakendum fannst mjög erfitt að takast
á við ósýnileg heilsufarsvandamál. Einn
sagði: „Vegna þess að ef þú ert að mæta
fólki... Það sést ekkert á þér...“ Þeir voru
viðkvæmari fyrir áliti annarra og upplifðu
jafnvel að aðrir efuðust um veikindin. Þegar
veikindin voru sýnileg var reynslan allt
önnur: „Það var ekki neitt líkt. Vegna þess
að þá... fer það ekki fram hjá nokkrum
manni sem sér þig hvað er að þér.“ Það kom
greinilega fram að einstaklingar sem upplifa
aukið varnarleysi eru næmari á viðmót fólks,
bæði yrt og óyrt. Þessar niðurstöður eru
svipaðar niðurstöðum Hafdísar Skúladóttur
og Sigríðar Halldórsdóttur (2011) um konur
sem lifa við langvinna verki. Í frásögnum
viðmælenda í rannsókn okkar kom fram
sektarkennd þegar rætt var um hlutverk,
ábyrgð og umhyggju fyrir fjölskyldunni,
en einnig örlítill kynjamunur. Konunum
fannst þær þurfa að vera til staðar fyrir
fjölskylduna, en karlarnir virtust meira hafa
áhyggjur af afkomu fjölskyldunnar, þeir
vildu „standa sig í stykkinu“, eins og einnig
kemur fram hjá Ingólfi Ásgeiri Jóhannessyni
(2004). Viðmælendur í rannsókninni voru
á aldrinum 40-60 ára. Því má draga þær
ályktanir, miðað við þau kynhlutverk sem
sú kynslóð ólst upp við, að ólíkur veruháttur
kynjanna skýri þennan áherslumun. Þetta
er í samræmi við rannsóknir Guðbjargar
Vilhjálmsdóttur (2005; 2008).
Mikilvægi þess að hafa
hlutverk
Þátttakendur í rannsókn okkar stóðu frammi
fyrir skerðingu á starfsgetu og þurftu um
tíma að takast á við missi starfstengds
hlutverks, sem var viðbót við það verkefni
að ná líkamlegum og andlegum bata.
Áfallinu fylgdi óvissa og andleg streita, sem
leiddi til depurðar yfir missinum, sem líkja
má við sorgarferlið. Einn sagði: „Ég nennti
ekkert að vera að fara á fætur. ... Af því
að mér fannst ég ekki geta gert neitt.“ Hjá
viðmælendum kom fram hversu dýrmætt
það var að hafa hlutverk sem hafði þýðingu
fyrir þá, svo sem það að hjálpa öðrum. Einn
sagði: „... ég hafði engan tíma til að velta
mér upp úr mínu.“ Það er í samræmi við
áherslur Amundson (2005) og Blustein
o.fl. (2008) um að einstaklingurinn nýti
bjargráð sín og sé sjálfur virkur í að finna
sér verkefni og nýjar leiðir. Með því að vera
virkur og íhuga og endurskoða möguleika
sína eflir einstaklingurinn aðlögunarhæfni
sína til starfa (Jacobs og Blustein, 2008).
Mikilvægt hlutverk ráðgjafa er aðstoð við að
para saman starfsmann og starf, þannig að
bæði starfsmaður og atvinnurekandi öðlist
það sem þeir leita að (Neault og Pickerell,
2011).
Mikilvægi félagslegra tengsla
Rannsóknin leiddi greinilega í ljós að tengslin
við aðra og þá sérstaklega fjölskylduna
skiptu einstaklinginn meginmáli. Einn sagði:
„Á meðan maður hefur fólkið sitt í kringum
sig þá skiptir ekkert annað máli.“ Allir
þátttakendur töldu félagslegt net mikilvægt
og skynjuðu mikilvægi þess þegar þeir voru
án þeirra tengsla. Þetta er í samræmi við
niðurstöður Koch o.fl. (2005). Þátttakendur í
rannsókninni upplifðu félagslega einangrun
og einmanaleika. Einn þátttakenda okkar
lýsti því hve „hættulegt það var að missa
tengsl við umheiminn“ og það að vera bara
heima það væri „svo erfitt að brjóta það upp“.
(Heinrich og Gullone, 2006). Þátttakendur
voru sammála um mikilvægi stuðnings
annarra; fagfólks, fjölskyldu og ekki síst
stuðningi jafningja. Einn sagði hversu
gagnlegt það hefði verið „…að hitta fólk sem
er svipað ástatt fyrir… og ræða við fagfólk...“.
Þetta rímar við rannsóknarniðurstöður
Smithson o.fl (2006). Í rannsókn okkar
komu fram vísbendingar um að skortur væri
á samfelldum stuðningi. Þátttakendur sögðu
frá góðum stuðningi í endurhæfingunni en
það virtist vanta samvinnu milli kerfa og
samfellu milli þess stuðnings sem boðið var
upp á í bataferlinu „...þá var eiginlega klippt á
allt... Skortur var á eftirfylgni. Einn sagði: „þó
að það væri ekki nema bara hringt í mann”
þegar hlé var á meðferð eða eftir útskrift.
Áðurnefnd rannsókn Ebberwein (2004)
sýnir fram á gildi heildstæðrar þjónustu og
að einstaklingurinn fái aðstoð við að gera sér
áætlun um næstu skref. Á síðustu árum hefur
verið í boði starfsendurhæfingarþjónusta,
s.s. VIRK, sem felur í sér samfellu og
stuðning á endurhæfingartímabilinu (Ingi-
björg Þórhallsdóttir, 2010) líkt því sem
þátttakendur rannsóknarinnar töldu skorta.
Mikilvægi jákvæðni og
bjartsýni
Frásagnir einstaklinganna endurspegluðu
baráttuna við að ná aftur valdi yfir lífi
sínu og aðstæðum. Afgerandi var hversu
hvetjandi það var þegar þeir fóru að trúa
því að þeir myndu ná bata. Einn sagði: „...
það er ótrúlegt hvaða styrk þú færð til að
taka á móti svona.“ Það kom greinilega
fram í rannsókninni hversu trúin á bata
og jákvæðni voru eflandi og batahvetjandi
en neikvæður hugsunarháttur að sama
skapi niðurbrjótandi. Einn sagði: „Þó að
það sé komið kvöld núna...þá skín sólin í
fyrramálið. Hún kemur alltaf upp... sama
hvað á gengur.“ Svipaðar niðurstöður
komu fram í eigindlegri rannsókn Jónínu
Sigurgeirsdóttur og Sigríðar Halldórsdóttur
(2007) um upplifun fólks af endurhæfingu.
Viðmælendur í rannsókn okkar tiltóku
sérstaklega hversu gleði og húmor gerði
daglegt líf léttara. Einn sagði: „það var gert
grín að sínum veikindum og annarra...“
Jákvæð áhrif húmors og hvatningar er
meðal annars lýst í áðurnefndri rannsókn
Koch o.fl. (2005). Ennfremur kom það
fram í viðtölunum að miklu skipti að
einbeita sér að því sem er, „að geta notið
augnabliksins“, sem er í samræmi við það
sem fram kemur hjá Jacobs og Blustein
(2008). Þetta hugarfar er í samræmi
við kenningar hugsmíðahyggjunnar um
að einstaklingurinn noti hugræna færni
sína og taki stöðugum breytingum í
gagnvirku samspili við umhverfi sitt og aðra
einstaklinga. Þar er einstaklingurinn sjálfur
við stjórnvölinn og velur sér bæði viðhorf og
viðfangsefni (Patton og McMahon, 2006).
59virk.is