Ársrit um starfsendurhæfingu - 2015, Blaðsíða 5
5www.virk.is
VIRK
Starfsendurhæfing er árangursrík leið til
þess að koma í veg fyrir að fólk falli brott
af vinnumarkaði í kjölfar áfalla og stuðla að
endurkomu þess. Nágrannaþjóðir okkar
leggja mikla áherslu á starfsendurhæfingu
því ríkissjóðir Danmerkur, Svíþjóðar og
Noregs verja 0,2% af landsframleiðslu til
starfsendurhæfingar en það samsvarar
fjórum milljörðum íslenskra króna. Finnar
og Hollendingar verja enn meiri fjármunum
til slíkrar fyrirbyggjandi starfsemi.
Ávinningur
starfsendurhæfingar
Ávinningur árangursríkrar starfsendur-
hæfingar getur verið mjög mikill. Mesti
ávinningurinn verður ekki metinn til
fjár en hann felst í betri heilsu, andlegri
sem líkamlegri, og betri afkomu þeirra
einstaklinga sem endurhæfast. En
fjárhagslegan ávinning er unnt að
leggja mat á. Sem dæmi má nefna
að takist að endurhæfa einstakling á
þrítugsaldri þannig að hann verði fullur
þátttakandi á vinnumarkaði í stað þess
að verða örorkulífeyrisþegi nemur núvirtur
samfélagslegur ávinningur 100 m.kr.
Það þarf því ekki nema 20 slík dæmi til
þess að réttlæta þann kostnað sem nú er
varið til starfsendurhæfingar. Niðurstaða
greiningarfyrirtækisins Talnakönnunar er
að starf VIRK sé mjög arðbært. Samkvæmt
tilteknum forsendum, sem eru mjög
varkárar, var ávinningur ríkissjóðs og
lífeyrissjóða í formi minni bótagreiðslna og
aukinna skattgreiðslna 10 milljarðar króna
árið 2013, samanborið við tæplega 1,3
milljarðs króna gjöld VIRK það ár.
Áhyggjur heildarsamtaka
vinnumarkaðarins af örorku
Mikil fjölgun örorkulífeyrisþega og með-
fylgjandi byrði sem hvílir á lífeyrissjóðum,
ríkissjóði og vinnumarkaðnum hefur valdið
heildarsamtökum á vinnumarkaði miklum
áhyggjum undanfarinn áratug. Sama
verður ekki sagt um stjórnmálamenn
landsins. Þegar samið var um hækkun
iðgjalds vinnuveitenda um tvær prósentur
í kjarasamningunum árið 2004 var
önnur prósentan rökstudd með þeirri
þyngingu örorkubyrðar lífeyrissjóða sem
þá hafði átt sér stað og hin prósentan
með auknum ævilíkum og þar með lengra
lífeyristímabili. Í tengslum við framlengingu
kjarasamninga í nóvember 2005 var gert
samkomulag við þáverandi ríkisstjórn um
samstarf um leiðir til að draga úr vaxandi
örorkubyrði lífeyrissjóða. Forsætisráðherra
skipaði nefnd fulltrúa stjórnvalda,
aðila vinnumarkaðar, lífeyrissjóða og
Öryrkjabandalagsins sem skilaði niður-
stöðum og tillögum í mars 2007. Niður-
stöðurnar voru einkum þær að gildandi
örorkumatskerfi hindri endurhæfingu og
að úrskurðaraðilar séu undir þrýstingi að
úrskurða svokallaða 75% örorku vegna
mikilla fjárhagslegra hagsmuna þeirra
sem sækja um örorkulífeyri. Nefndin lagði
til að starfsendurhæfingarúrræði yrðu
aukin til að bæta hag einstaklinga sem
búa við skerta starfsorku, að bótakerfið
yrði endurskoðað þannig að byggt yrði á
getu einstaklinga til að afla sér tekna og að
bætur yrðu að jafnaði háðar skilyrðum um
atvinnuleit og endurhæfingu.
Áform og efndir framlaga
ríkissjóðs
Samið var um að hefja uppbyggingu
starfsendurhæfingar í kjarasamningunum
í febrúar 2008. Samhliða var gert sam-
komulag við ríkisstjórnina um að ríkissjóður
legði sömu fjárhæð og atvinnulífið til
starfsendurhæfingar frá og með árinu
2009. Ekki kom til greiðslu þessa framlags
ríkisins.
Í stöðugleikasáttmálanum í júní 2009 gerðu
aðilar vinnumarkaðar og ríkisstjórnarinnar
„Mikil fjölgun
örorkulífeyrisþega og
meðfylgjandi byrði sem
hvílir á lífeyrissjóðum,
ríkissjóði og vinnu-
markaðnum hefur
valdið heildarsamtök-
um á vinnumarkaði
miklum áhyggjum
undanfarinn áratug.“
samkomulag um að VIRK fengi 150 m. kr.
framlag úr ríkissjóði árið 2010, 250 m.kr.
árið 2011, 350 m.kr. árið 2012 og að frá
og með 1. júlí 2013 yrði framlag ríkisins
jafnvirði 0,13% af tryggingagjaldsstofni.
Engar greiðslur komu úr ríkissjóði til VIRK
þessi ár.
Þegar lög um atvinnutengda starfs-
endurhæfingu og starfsemi starfsendur-
hæfingarsjóða voru samþykkt í júní 2012
var ákveðið að fyrsta greiðsla ríkisins kæmi
í október 2013. Hún kom þó ekki.
Í fjárlögum fyrir árið 2014 var enn ákveðið
að fella niður framlagið til VIRK, sem lögfest
hafði verið í lögum um tryggingagjald, en
í fjárlagavinnunni á Alþingi var því heitið
að að fullt framlag kæmi árið 2015. Það
gerðist ekki og í fjárlögum 2015 var varið
200 m.kr. til VIRK.
Samkomulag VIRK og ríkisins
Þann 4. mars 2015 var undirritað sam-
komulag milli fjármála- og efnahagsráð-
herra og félags- og húsnæðismálaráðherra
annars vegar og VIRK hins vegar. Með
samkomulaginu er vonast til að þær
deilur sem verið hafa um aðkomu ríkisins
að starfsendurhæfingu verði settar
niður. Samkomulagið kveður á um að
ráðherrarnir muni leggja til í frumvörpum
til fjárlaga næstu ár að framlög ríkissjóðs
til VIRK verði 650 m.kr. árið 2016 og jafn-
gildi 0,06% af gjaldstofni tryggingagjalds
árið 2017. Jafnframt að öllum þeim sem
atvinnutengd starfsendurhæfing geti gagn-
ast til að verða virkir á vinnumarkaði verði
tryggð þjónusta hjá VIRK og að í stjórn
VIRK bætist stjórnarmaður skipaður af
félags- og húsnæðismálaráðherra.
Ríkisstjórnin og vinnumark-
aðurinn vilja taka upp starfs-
getumat í stað örorkumats
Heildarsamtök vinnumarkaðarins og
ríkisstjórnin hafa tekið höndum saman
um að tryggja öllum starfsendurhæfingu
og stuðla þannig að aukinni virkni
vinnumarkaðarins. Aðilar samkomulagsins
eru sammála um að taka þurfi upp
starfsgetumat í stað örorkumats innan
almannatryggingakerfisins og mats á
orkutapi innan lífeyrissjóðskerfisins.