Ársrit um starfsendurhæfingu - 2015, Qupperneq 45
45www.virk.is
Erum ánægð
með árangurinn
Vilhjálmur Kári Haraldsson mannauðsstjóri hjá Garðabæ
Virkur vinnustaður hefur verið samstarfsverkefni
leikskóla Garðabæjar og VIRK. Vilhjálmur Kári
Haraldsson er mannauðsstjóri hjá Garðabæ.
Hann er sáttur við árangur þróunarverkefnisins, sem
nú hefur verið innleitt í mannauðsstjórnun bæjarins.
„Allir leikskólar Garðabæjar tóku þátt í
samstarfsverkefninu Virkur vinnustað-
ur, sem fólst í samstarfi VIRK og
atvinnurekenda. VIRK óskaði eftir þátt-
takendum í þetta þriggja ára verkefni.
Það sem heillaði okkur var helst að það
var áhersla á jákvæða og heilsusamlega
nálgun. Þetta er gríðarlega viðkvæmt
viðfangsefni,“ segir Vilhjálmur Kári
Haraldsson mannauðsstjóri í Garðabæ.
„Veikindi fólks eru eðlilega viðkvæmt mál.
Allir starfsmenn á leikskólum Garðabæjar
voru með í þessu verkefni. Leikskólarnir
eru átta talsins og starfsmenn þeirra eru
hundrað níutíu og níu í hundrað fimmtíu
og níu stöðugildum.“
Hvernig gekk þetta samstarf?
„Samstarfið gekk mjög vel og við fengum
góða leiðsögn frá VIRK og aðhald líka.
Þegar verið er að byrja í svona verkefni
sér fólk ekki árangur strax og setur það
þá aftar í forgangsröðina. En það var ýtt
við okkur, við rukkuð um skýrslur og
niðurstöður og fyrirspurnir komu um
hvernig gengi.
Það hjálpaði okkur mjög mikið að fá
ráðgjöf frá VIRK, svona verkefni eru
langhlaup. Eftir svona tvö ár fórum við
að sjá árangur. Þá fóru allir þátttakendur
að verða stoltir af starfinu í kringum þetta
og fannst það skipta máli.“
Stofnanir innleiða
viðverustjórnun
Hver er niðurstaðan?
„Niðurstaðan hjá okkur er sú að við erum
búin að setja þetta inn í mannauðsstefnu
Garðabæjar og allar stofnanir bæjarins
munu innleiða þessa viðverustjórnun, en
eru mislangt komnar. Sumir innleiddu
þetta fyrir þremur árum en aðrar stofnanir
eru að byrja vegferðina. Þetta er því orðið
hluti af markvissri mannauðsstjórnun hjá
Garðabæ.“
Breytir þetta miklu?
„Já, þetta skiptir gríðarlega miklu máli. Ef
hægt er að draga úr fjarvistum þá sparar
það mikla fjármuni. Óvissa með fjarvistir
er alltaf viðvarandi en ef allir eru að huga
að þessum þætti þá er hægt að draga úr
honum. Auðvitað eru veikindi fólks breyta
sem erfitt er að hafa áhrif á, en stærsta
áskorunin er langtímaveikindi. Þar getur
þetta skipt miklu máli.“
Hafa margir glímt við langtímaveikindi
hjá leikskólum Garðabæjar?
„Það er ekki meira um slíkt í leikskólum en
á öðrum vinnustöðum. En vissulega eru
margir að glíma við langtímaveikindi og
hefur verið brugðist við því. Í þessari við-
verustjórnun eru leiðbeiningar um hvernig
bregðast skal við langtímaveikindum og
skammtímaveikindum. Það er gert á nokk-
uð mismunandi hátt.“
Verkfærið viðverusamtal
Hver er munurinn?
„Verkfærið sem við notum í skammtíma-
veikindum er svokallað viðverusamtal. Í
því felst að við erum að kanna hvort það
er eitthvað í starfsemi vinnustaðarins sem
hefur áhrif á veikindin. Þegar um langtíma-
veikindi er að ræða er endurkoma í vinnu
mikilvæg. Hafi einhver verið í burtu t.d. í sex
mánuði getur hann komið inn í hlutastarf
tímabundið, meðan hann er að ná fullri
starfsorku. Við erum með í viðverustefnunni
að ef fólk er fjarverandi samfellt í fimm daga
þá kemur til viðverusamtals.“
Ertu ánægður með árangur þessa
þróunarverkefnis VIRK?
„Heilt yfir erum við ánægð með verkefnið.
En auðvitað er árangurinn misjafn eftir
leikskólunum. Það er með þetta eins og
annað, ef lagður hefur verið metnaður og
mikil vinna í verkefnið þá kemur meira út
úr því.“
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
VIÐTAL
„Niðurstaðan hjá okkur er sú að
við erum búin að setja þetta inn
í mannauðsstefnu Garðabæjar
og allar stofnanir bæjarins munu
innleiða þessa viðverustjórnun,
en eru mislangt komnar.“