Morgunblaðið - 05.10.2019, Blaðsíða 36

Morgunblaðið - 05.10.2019, Blaðsíða 36
36 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 5. OKTÓBER 2019 Hann Steini er dáinn. Þetta sagði sonur minn við mig í símanum. Síðan hefur ekk- ert verið í lagi. Inga mín að sjálf- sögðu, en einnig allir aðrir í fjöl- skyldunni, í losti og ekkert hægt að gera eða segja sem nokkurt gagn er að. Það er ekki erfitt að minnast Steina. Hann var einfaldlega besta og traustasta manneskja sem ég hef kynnst. Alltaf tilbúinn að hjálpa og standa við bakið á öll- um sem til hans leituðu. Við börn Ingu var hann frábær, gaf þeim rými til að venjast nærveru hans innan fjölskyldunnar og alltaf tilbúinn að gera allt sem hann gat gert fyrir þau. Við vorum um dag- inn að rifja eitthvað upp um Steina, þá stóð Magnús upp og sagði: „Hann kenndi okkur öllum svo mikið.“ Hann hitti naglann á höfuðið með þessum orðum og þar vil ég ljúka mínum orðum. Við er- um öll svo miklu ríkari að hafa kynnst og umgengist Steina og þess vegna sakna hans allir svo sárt núna. Farðu vel, vinur. Ég veit að þú færð góðar móttökur í þeim heimi sem tekur við af þessum. Blessi þig allar góðar vættir. Þín tengdamóðir, Laufey Jörgensdóttir. Það er óraunverulegt að sitja hér og skrifa minningargrein um Steina mág og svila. Svo hræði- lega ósanngjarnt að hann skuli Þorsteinn Andrésson ✝ ÞorsteinnAndrésson fæddist 15. júní 1962. Hann lést 22. september 2019. Útförin fór fram 2. október 2019. hafa verið hrifinn á brott frá Ingu. Þau voru búin að koma sér fyrir á drauma- staðnum sínum og framtíðin blasti við. Nú var tími til að leyfa sér að slappa aðeins af, njóta sveitasælunnar og aðstöðunnar sem þau voru búin að koma sér upp saman af ótrúlegum dugnaði og sam- heldni, að geta farið að njóta af- raksturs erfiðisins og þess að dunda sér í kjallaranum við að gera upp Volvoinn eða L200 eða eitthvert margra hugðarefnanna. Ekki það að Inga væri ekki dugleg að finna til verkefni eins og hænsnakofann, sem var kominn af stað og er núna okkar að klára, eða stórhuga viðbætur við mat- jurtagarðinn Steini grínaðist oft með þegar Inga talaði um að þau þyrftu að gera þetta eða hitt að það þýddi yfirleitt að hann þyrfti að gera það, en sannleikurinn er sá að hann hefði með glöðu geði gert allt og meira til fyrir Ingu. Það var frábært að fylgast með þeim frá því að þau fóru að stinga saman nefjum. Inga ljómaði af hamingju og Steini sá ekki sólina fyrir Ingu sinni og aldrei bar skugga á. Hann var ófeiminn við að dásama hana og lofa og oft svo að hluta fjölskyldunnar, sem seint verður sökuð um að vera opin, þótti nóg um. En svona var Steini, opinn og einlægur og mikill fjöl- skyldumaður. Fjölskyldan var honum allt og hann varð strax hluti af okkar. Hann vildi allt fyrir okkur gera og það mátti alltaf leita ráða eða fá aðstoð. Núna síð- ast þegar við fluttum var Steini mættur þrátt fyrir að vera slæm- ur í bakinu og vildi ekki heyra á það minnst að vera rólegur og slappa af. Við vorum oft spurðir við Steini hvort við værum bræður og ég benti Ingu systur á að það væri lík- lega eitthvað freudískt við þetta val hennar á manni, en glaður hefði ég þegið bróður eins og hann. Við kveðjum góðan dreng, vin okkar Steina, með söknuði og þakklæti fyrir allt. Gangan með þér æviárin okkur líður seint úr minni. Við sem fellum tregatárin trúum varla brottför þinni. Þína leið til ljóssins bjarta lýsi drottins verndarkraftur. Með kærleiksorð í klökku hjarta kveðjumst núna, sjáumst aftur. (Hákon Aðalsteinsson) Jörgen (Daddi) og Hjördís. Undirrituðum eru sérlega minnisstæð fyrstu kynni sín af Þorsteini, eða Steina eins og við kölluðum hann. Ég var að mæta fyrsta dag minn í vinnu sem fram- kvæmdastjóri hjá Landvélum og fyrsti maður sem heilsaði mér, og það bókstaflega í anddyrinu, var Steini. Hann kynnti sig og lét mig bara strax vita að það ætti ekki að koma mér á óvart að hann myndi hætta fljótlega. Svo mörg voru þau orð. Hér 11 árum seinna er ég að skrifa þessa grein og minnist þess ekki að þetta hafi borið aftur á góma, svo eitthvað höfum við gert rétt saman á þessum rúma áratug. Steini var að mörgu leyti ein- stakur maður og þeir sem þekkja til hans skilja hvað við er átt. Hann var svo sannarlega vinur vina sinna og áhugasamur um hvað við samstarfsfélagarnir vor- um að gera utan vinnu, ávallt tilbúinn að hjálpa. Hjartað var stórt og hann vildi helst hafa öll samskipti einföld og einlæg, kom- um til dyranna eins og við erum. Án vafa einn af hornsteinunum í starfsumhverfi okkar, starfs- menningu og starfsanda. Styrkur Steina sem starfs- manns var að hann var fljótur að greina aðstæður og vandamál og hugsaði í lausnum. Tæknimálin voru áhugasvið hans og þar var glussafræðin í fyrsta sæti. Steini var verklaginn og hikaði ekki við að taka sér verkfæri í hönd og kannski leið honum best með hendurnar útataðar í olíu í miðri viðgerð. Bráðskarpur og oftar en ekki urðu lausnir hans eða tillögur ofan á þó svo að stundum hefði mátt gefa einstaka verkefnum meiri tíma og yfirlegu. Fyrstu árin okkar saman á vinnumarkaði bjó Steini einn og þá var vinnan hans ær og kýr, mættur með fyrstu mönnum og alltaf til taks, hvenær sem var sólahringsins, helgar sem virka daga. Síðar kynntist Steini henni Ingu sinni og hennar fjölskyldu og saman byggðu þau sér einstakan sælureit rétt utan borgarmark- anna. Þótti mér vænt um að sjá þessa breytingu á högum Steina. En enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Steini okkar var á sinn hátt búinn að byggja upp sterkt tengslanet við marga birgja, og þjónustuaðila, einkum frá Skandinavíu. Sem fyrr lagði Steini áherslu að hafa þessi sam- skipi einföld og mannleg. Það var meira hringt og spjallað, minna um formlegheit og vesen. Er Steini var á ferðinni var tækifærið oft nýtt og kíkt í kaffi hjá koll- egum, bara til að sýna sig og halda í tengslin, þessi mannlegu. Fólk að tala við fólk, ekki flókið enda má sjá á þeim fjölda samúðarkveðja sem við höfum fengið frá helstu erlendu samstarfsaðilum hans að þeir líta allir á Steina sem vin frek- ar en einhver tækni-eða sölumann sem er staðsettur í miðju ballar- hafi. Steina var tíðrætt um dauðann og að mörgu leyti meyr gagnvart dauðanum. Er við hæfi að enda þetta á þeim boðskap Steina að við lifum núna, njótum þess í núinu því enginn veit sína ævidaga. Ingvar Bjarnason. Það var okkur hjónum áfall að fregna af andláti félaga okkar og nágranna Þorsteins Andréssonar. Þorsteinn var þeirrar gerðar að eftir var tekið; stór í sniðum, fram- koman hrein og bein og aldrei var hjálpsemin langt undan. Nokkuð áður en Þorsteinn og eiginkona hans Ingibjörg ákváðu að reisa sér myndarlegt heilsárs- hús við Silungatjörn höfðu tekist með okkur kynni, þar sem hjálp- semi Þorsteins kom við sögu. Steini, eins og hann var ávallt kall- aður, var afburðaduglegur í öllu sem hann tók sér fyrir hendur og húsbyggingin lék í höndum hans. Þá kom hann mjög að ýmsum sameiginlegum framfaramálum sumarhúsaeiganda á svæðinu með stjórnarsetu í félaginu okkar og með því að liggja ekki á liði sínu í vegaframkvæmdum. Vonandi er ekki á neinn hallað þótt því sé haldið fram að Steini hafi átt stærsta þáttinn í að gera aðgengi að svæðinu okkar mun betra en áður, hvort sem er að sumri eða vetri. Þá var það ósjaldan sem Steini mætti óbeðinn með sitt kankvísa bros og blik í augum, þegar maður var búinn að festa sig enn einu sinni í skafli, reiðubú- inn að aðstoða, en hann hafði tekið að sér, nánast upp á eigin spýtur, að halda leiðum opnum að vetri til. Fyrir þessi stuttu en góðu kynni og alla hjálpsemina viljum við nú þakka um leið og við vottum eftirlifandi eiginkonu og öllum að- standendum samúð okkar. Anna og Guðmundur. Hversvegna er leiknum lokið? Ég leita en finn ekki svar. Ég finn hjá mér þörf til að þakka þetta sem eitt sinn var. (Starri í Garði) Kynni okkar Þorsteins Andrés- sonar, eða Steina, hófust fyrir rúmum áratug þegar hann gekk í raðir okkar í Karlakór Reykjavík- ur. Það atvikaðist þannig að hann settist við hliðina á mér á fyrstu æfingu sinni og það var upphaf góðrar vináttu milli okkar. Steini reyndist mér vel, traustur, úr- ræðagóður og með afbrigðum greiðvikinn. Hann naut trausts okkar félaganna í hvívetna og öll- um líkaði vel við hann. Hann gat verið stríðinn og orðhvass en aldrei upplifði ég það að hann meiddi neinn með stríðninni. Steini var völundur í höndunum og var einn af þeim sem geta allt. Vélar voru þó líf hans og yndi enda með afbrigðum glöggur á allt sem að þeim laut. Við vorum einnig góðir vinir utan kórsins og ljúft að koma til þeirra hjóna Ingu og Steina í kaffibolla, en við kynntumst henni þegar þau tóku saman fyrir nokkrum árum. Við kórfélagar hans syrgjum nú félaga okkar en Inga mín, þín er sorgin stærst að þurfa að kveðja góðan eiginmann og ljúfan dreng langt fyrir aldur fram. Farðu í friði, Steini minn, og Guð blessi minningu þína. Við hjónin óskum þér góðrar ferðar á þeim leiðum sem þú hefur nú lagt út á. Inga mín, þér og öllum ástvin- um hans vottum við okkar dýpstu samúð. Þin er sárt saknað, félagi, og fyrsti tenór í Karlakórnum hefur misst mikið. Þórunn Björg og Marteinn. Karlakór Reykjavíkur horfir í sorg á eftir einum af sínum öfl- ugustu og vönduðustu liðsmönn- um. Í kórstarfi reynir ekki bara á tóneyra og söngrödd, heldur ekki síður á glaðværð og vinarþel. Í öll- um þessum þáttum var Þorsteinn Andrésson okkur traustur söng- bróðir, enda skemmtilegur félagi og ljómandi tenór. Hjálpsemi hans var annáluð og var hann ætíð reiðubúinn að leggja hönd á plóg innan kórs sem utan. Hans verður sárt saknað en rödd hans mun óma með okkur áfram. Fyrir hönd Karlakórs Reykja- víkur sendi ég ástvinum Þorsteins okkar innilegustu samúðarkveðj- ur. Eggert Benedikt Guðmunds- son, formaður Karlakórs Reykjavíkur. Við vorum saman í heimavistarskóla á Varmalandi í Borg- arfirði. Fríða frá Bjarnastöðum og við undirritaðar.Við deildum herbergjum og stundum rúmum saman í átta ár. Oftast vorum við fimm saman í hverju herbergi en stundum sex og stundum fjórar. Nábýlið var mikið þannig að við kynntumst vel og væntumþykja hverrar í garð annarrar óx í gegnum árin, væntumþykja sem hvorki tími né fjarlægðir hafa bit- ið á. Fríða var rólega, glaðlynda týpan í hópnum sem öllum lynti við enda hafði hún einstaklega sterka og hlýja nærveru og kom eins vel fram við alla. Hún var duglegur nemandi og tók þeim verkefnum sem borin voru á borð fyrir hana með ró og af öryggi. Færni hennar í handavinnu og heimilisfræði var eftirtektarverð þá eins og nú. Hún galdraði fram dýrindis krásir jafnt fyrir fá- menna sem stóra hópa á röskan en alúðlegan hátt, það var Fríða, og það eru ófáir sem njóta þess að nota hitapokana og augnhvíl- urnar sem hún framleiddi núna seinni ár undir merkjum Fríðu fínerí. Í Varmalandi var ýmislegt Jófríður Guðmundsdóttir ✝ Jófríður Guð-mundsdóttir, Fríða, fæddist 3. september 1966. Hún lést 19. sept- ember 2019. Úför Fríðu fór fram 2. október 2019. brallað á kvöldin og var Fríða alltaf til í sprell og skemmti- legheit. Hún var líka hrókur alls fagnaðar þegar haldnar voru veislur á herbergjunum á fimmtudagskvöld- um enda lumaði hún alltaf á besta góð- gætinu. Því deildi hún með okkur hin- um af þeim höfðingsskap sem einkenndi hana alla tíð. Íþróttir voru mikilvægur hluti af tómstundunum þar. Fríða var liðtæk í flestum greinum en þeg- ar keppt var í boltakasti hafði enginn roð við henni og allir vildu hafa hana í sínu liði þegar farið var í brennibolta. Skottæknin sást líka vel í handbolta og sýndi hún þar atvinnumannatakta. Þegar við vorum litlar var vinnan við búskapinn partur af lífi okkar allra. En Fríða vann ekki bara við sveitastörf heldur var rekin hestaleiga heima hjá henni – eitthvað sem okkur þótti afar spennandi og framandi. Fríða var alltaf vinnuþjarkur og leið best þegar hún hafði nóg verklegt fyrir stafni. Ein af síð- ustu fésbókarfærslunum hennar þar sem hún, núna í september, stendur með pensil í hönd að mála uppi í sumarbústað ber þessa best merki. Samvera okkar bekkjarsystra hefur minnkað með árunum en þökk sé fésbókinni þá höfum við getað fylgst hver með annarri þó nálægðin sé þá á annan veg. Þar hafa færslur frá Fríðu ekki síst skipt okkur máli. Við vissum að hún hafði fengið stærra verkefni í lífinu en flestar okkar hinna en sáum að hún var söm við sig og tókst á við það með þrautseigju og dugnaði. Aldrei lét hún deigan síga heldur hélt áfram að lifa líf- inu lifandi með bjartsýnina og já- kvæðnina að vopni. Að hitta hana var líka alltaf jafn notalegt og fór maður endur- nærður heim af þeim fundum ekki síst ef farið var til hennar upp í sumarbústaðinn, unaðsreit- inn hennar og Davíðs. Við kveðjum Fríðu með sökn- uði en einnig þökk fyrir allt það sem hún kenndi okkur í lífinu. Um leið sendum við okkar dýpstu samúðarkveðju til Davíðs, Huldu og systra hennar Dísu, Hrafn- hildar og Hrefnu. Bekkjarsystur úr barnaskól- anum á Varmalandi, Sesselja (Setta), Guðrún, María, Ingveldur Herdís (Inga Dísa), Ingigerður Guðrún (Inga Gunna), Helle, Ebba, Erla Björk, Sigríður (Sirrý), Ragnheiður og Þuríður. Það var mikill missir og sorg hjá Kvennakór Kópavogs þegar fréttir bárust af fráfalli Fríðu okkar. Það vita þær konur sem hafa verið í kvennakór að sá fé- lagsskapur er einstaklega gef- andi og fallegur. Það er eitthvað við sönginn sem tengir okkur svo sterkum böndum og þar myndast vinkvennatengsl sem vara jafnvel um lífstíð. KveKó datt svo sannarlega í lukkupottinn þegar Fríða ákvað að ganga til liðs við kórinn árið 2007. Það gustaði svo sannarlega um þessa kröftugu konu því strax ári síðar hafði hún tekið við stöðu gjaldkera kórsins og sinnti því starfi af kostgæfni. Það sama ár fagnaði kórinn fimm ára afmæli og gerði Fríða sér lítið fyrir og samdi hinn bráðskemmtilega texta „Saman við stöndum“ við lag þáverandi kórstjóra, þar sem gleði kórkvenna KveKó er reifuð á snilldarlegan hátt. Textasmíð- um hennar var þó engan veginn lokið því hún samdi einnig ynd- islega fallegan texta við franska lagið L’hymne à l’amour sem hún tileinkaði þáverandi kærasta og síðar eiginmanni sínum, honum Davíð. Þrátt fyrir að glíma við erfið veikindi virtist ekkert verkefni of stórt fyrir Fríðu. Hún tók að sér formennsku kórsins í tvígang og þess á milli var hún bæði með- stjórnandi og ötul í nefndarstörf- um. Hún var fulltrúi KveKó í Gígjunni, landssambandi ís- lenskra kvennakóra, á árunum 2008-2010 og átti stóran þátt í að móta starf kórsins eins og hann er í dag. Hún var einnig ein af þeim driffjöðrum kórsins sem komu á fót jólasöng í Ljósinu sem og Hönd í hönd, árlegum góð- gerðartónleikum kórsins. Hjarta KveKó slær í takt við þær konur sem skipa kórinn hverju sinni og væri kórinn ekki það sem hann er í dag nema vegna kvenna eins og Fríðu. Hún var ekki aðeins kór- systir heldur góður félagi sem ávallt hafði ráð undir rifi hverju og var óspör að deila dásemdar uppskriftum til okkar hinna. Það er sárt að kveðja en við kórsystur hennar erum þakklátar fyrir að hafa fengið að kynnast Fríðu og munum minnast þeirra góðu stunda sem við áttum saman. Fjölskyldu hennar og vinum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur. F.h. Kvennakórs Kópavogs, Sigurlaug Kristjánsdóttir. Við kölluðum okkur Skellurn- ar – það var smá einkahúmor. Gátum hlegið saman svo undir tók í fjöllunum, brussast í gegn- um alls kyns ævintýri og bullað saman inn í nóttina þegar eðlilegt fólk var farið að sofa fyrir löngu. Við sátum í heita pottinum um vorkvöld með Dakiri (kunnum aldrei almennilega nafnið) og andlitsmaska og pissuðum næst- um í pottinn því við vorum svo fyndnar. Fríða kom blaðskellandi inn í líf okkar þegar hún byrjaði í Kvennakór Kópavogs veturinn 2007 og áður en við var litið var hún komin í stjórn og orðin að- alskipuleggjandi ferðar kórsins til Búdapest, búin að kaupa vasa- pela fyrir ungverskan undirleik- ara kórsins, sem hún hafði aldrei séð og sjarmera ungverskan leigubílstjóra til þess að sækja og skutla hópnum. Þessari konu urðum við að kynnast nánar! Sem betur fer vildi hún vera með okkur – og margt var brallað í kórnum. Má þar nefna kórferðalög, partí og æfingabúðir með tilheyr- andi búningavafstri. Allir búning- ar voru heimagerðir og minnis- stæðast er þegar við vorum þrjár saman í herbergi, við tvær sem portkonur og Fríða sem indíána- höfðinginn Aldeilis Hissa. Vinskapur okkar þéttist svo utan kórsins og við kynntumst henni betur. Við stofnuðum fimm kvenna föndurhóp, Föndurfljóðin, þar sem var heilmikið föndrað – og kannski líka svolítið borðað af nammi. Fríða var óþrjótandi upp- spretta hugmynda og þegar ráð- ist var í verkefnin voru sumir fljótari en aðrir að klára. Fríða var stundum búin með verkefnið heima og kom með það til að sýna okkur. Jólaföndrið var að sjálf- sögðu tekið með stæl. Konfekt og sælgætisgerð. Eldhúsið hennar Fríðu undir- lagt svo góssið var sett út til kæl- ingar og hundurinn sleikti það allt. „Hvíldarinnlögn í Hvítársíðu“ var árlegur viðburður í bústaðn- um hennar Fríðu, með og án góðra vinkvenna. Markmiðið var að slaka á, næra sig og njóta. Við prjónuðum þar við kerta- ljós og kjöftuðum svo mikið að við röktum allt mynstrið upp daginn eftir! Inni á milli hlátursroka gát- um við heilmikið talað um verk- efnin í lífinu og okkur þótti öllum svo vænt um trúnaðinn sem við gátum sýnt hver annarri. Við er- um þakklátar fyrir að Fríða vissi hvað okkur þótti vænt um hana og við vissum hve henni þótti vænt um okkur. Fríða sagði svo oft: „það má“ … eða „það má líka“ og það lýsir kannski best hversu opin og já- kvæð hún var, fordómalaus og kom til dyranna eins og hún var klædd. Hún vildi öllum vel og var ekki að velta sér upp úr vankönt- um annarra, úrræðagóð, hug- myndarík, lausnamiðuð og góð- hjörtuð. Við syrgjum því kæra vinkonu sem kenndi okkur svo ótal margt. Þrátt fyrir veikindi sín í næstum 20 ár kvartaði hún ekki, setti orku sína í að lifa lífinu lifandi og horfa á það gjöfula í lífinu. Við vitum að Fríða hefði viljað að þessi lífsviðhorf hennar myndu lifa áfram og við trúum því að Davíð og Hulda Rún muni halda þeim á lofti – það munum við reyna að gera líka. Hvíl í friði, elsku vinkona, og við stólum á að einn daginn mun- um við Skellurnar aftur bræða úr blandaranum við að gera okkur Darikiri og hlæja svo hátt að und- ir taki í himninum. Gunnhildur Gísladóttir og Sigríður Tryggvadóttir (Gunnhildur og Sigga).
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.