Skírnir - 01.04.2005, Blaðsíða 11
SKÍRNIR
GUÐMUNDUR FINNBOGASON
9
II
En hver var Guðmundur Finnbogason? Guðmundur fæddist á
Arnstapa í Ljósavatnsskarði 6. júní 1873. Arnstapi er við Ljósa-
vatn en nafnið á vatninu, segir Guðmundur á einum stað, „er sjálft
fegursti skáldskapur" og bætir síðan við:
Þarna opinberaðist mér einn af leyndardómum tilverunnar, hvernig eitt
endurskín í öðru, hvernig sál fjallsins gat um stund tekið sér bústað í vatn-
inu og birzt mér, sem stóð á bakkanum. Eg hefi ef til vill ekki orðað þetta
svona þá en eitthvað þessu líkt skynjaði ég.7
í þessum orðum er að finna ávæning af þeirri kenningu sem varð
uppistaðan í merkilegri doktorsritgerð Guðmundar um „samúðar-
skilninginn“ sem hann varði við Hafnarháskóla árið 1911. Hún
fjallar einmitt um það „hvernig eitt endurskín í öðru.
Guðmundur var af fátæku fólki kominn, foreldrar hans Finn-
bogi Finnbogason (1843-1886) og Guðrún Jónsdóttir (1843-1900)
voru einyrkjar með stóran barnahóp á harðbalakoti norður í Ljósavatns-
skarði. Mér hefir alltaf fundizt það einhver óskiljanlegasta gáta hagfræð-
innar, hvernig þau gátu framfleytt okkur hjálparlaust, svo lítil sem efnin
voru. En þar var áreiðanlega farið vel með lítið.8
Þegar Guðmundur var á ellefta árinu var hann sendur í fóstur að
Möðrudal á Fjöllum en húsfreyjan þar, Arnfríður Sigurðardóttir,
var fóstursystir Finnboga, föður Guðmundar. Þar var hann meðal
annars við smalamennsku á sumrum og hafði þá jafnan með sér
eitthvað að lesa þar sem hann sat yfir ánum enda snemma bók-
hneigður. Veturinn, sem Guðmundur fermdist, var hann sjö vikur
hjá séra Hannesi Þorsteinssyni Fjallapresti. „Á þessum vikum,“
sagði Guðmundur síðar,
lærði ég íslenzku, réttritunarreglur Valdimars Ásmundssonar, reiknings-
bók Briems, dönsku lesbók Steingríms Thorsteinssonar. Sr. Hannes kom
mér fyrst í stöfunina með það að skilja vísurnar í Islendingasögum. Þeg-
ar ég kom aftur heim í Möðrudal þótti ég vera talsvert lærður maður.9
7 Guðmundur Finnbogason 1939:10.
8 Guðmundur Finnbogason 1962:159.
9 Guðmundur Finnbogason sjötugur: Segir frá æskuárum og æfistarfi. Viðtal £
Morgunblaöinu, 5. júní 1943:4.