Skírnir - 01.04.2005, Blaðsíða 133
SKÍRNIR
SINN EIGINN SMIÐUR
131
Það þarf ekki tortrygginn nútímalesanda til að hugsa á þess-
um brautum. Greinilegt er að sagan kallar á slíkan lestur, þó ekki
væri nema orðanna: „eigi má faðerni manna marka at skaplyndi".
Greinilega er ætlast til að söguhlýðendur hugleiði faðerni og þeir
geta enda varla annað í ljósi mikilvægi faðernisins í sögunni. Það
virðist því óhætt að álykta að hér sé írónía á ferð og sú tegund
hennar að segja eitthvað án þess að segja það. Það sem er sagt og
þó ekki sagt er þetta: Auðvitað var Sverrir ekki sonur Sigurðar
munns! Oll klifunin um frændur hans og systkini, að ógleymd-
um háðstóninum í garð þeirra Orms Péturssonar, Héðins Þor-
grímssonar og Þorgils þúfuskíts, allt er þetta bara gabb. Sverrir
var eftir alltsaman enn einn gerviprinsinn. Eini munurinn er sá
að hann var ómælt snjallari, hæfileikaríkari og þrautseigari en
hinir.
Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að hafa nokkur orð
um íróníu. Að sönnu eru írónískar túlkanir á miðaldatextum
vandmeðfarnar.43 Ekki leikur hins vegar á tveimur tungum að
Sverris saga er full af íróníu hvers konar og kaldhæðni. Hún á sér
ekki síst rót í orðum Sverris konungs sjálfs.44 I einni ræðu fagnar
hann því hve margir andstæðingar hans hafi fallið því að ef marka
megi áróður erkibyskups hafi nú fjölgað mjög í paradís (38. kap.).
I annarri ræðir hann hvernig bændur hafi kennt börnum sínum og
þjónustufólki að lemja hlutum í grjót og segja: Hér skyldi höfuð
43 Írónískar túlkanir á fornsögum hafa verið ofarlega á baugi seinustu 30 árin.
Stundum er þá gert ráð fyrir að sögurnar hafi gagnrýninn undirtexta og séu eins
konar samfélagsspegill (sjá t.d. Njörður P. Njarðvík, „Laxdæla saga - en tids-
kritik"; Bjarni Guðnason, Túlkun Heiðarvígasögu). Onnur leið er nákvæmur
lestur á sögunum þar sem sýnt er fram á ósamræmi milli persónulýsinga og at-
hafna sömu persóna (Cook, „Women and Men“; Kalinke, „Transgression in
Hrólfs saga kraka") og auk þess hefur allnokkur umræða farið fram um sög-
urnar undir áhrifum frá hugmyndafræði Baktíns um karnivalið (Helga Kress,
„Bróklindi Falgeirs"; Halldór Guðmundsson, „Skáldsöguvitund"; Svanhildur
Óskarsdóttir, „Dáið þér Ynglinga?“; Helga Kress, „Njálsbrenna“; Valgerður
Kr. Brynjólfsdóttir, „A valiant king or a coward?“). Allar túlkanir af þessu tagi
líða fyrir það hversu erfitt er að skilgreina íróníu og sjálfur hef ég hneigst til að
vera tortrygginn. Það merkir þó ekki að miðaldatextar séu íróníulausir. Þetta er
flókið efni sem ég mun senn helga sérstaka grein.
44 Á það hefur Bagge bent (From Gang Leader, 27-28; „Mannlýsingar", 30).