Skírnir - 01.04.2005, Page 154
152
KATRÍN JAKOBSDÓTTIR
SKÍRNIR
útskýrir að það sé sjálfstæðishetja íslendinga hváir morðinginn og
segir: „Sjálfstæðis? Það var allt fullt af blómum og ég lagði hana í
blómin. Hver var Jón Sigurðsson?"30
Með þessu fellur leiðartilgátan um sjálfa sig þó að rannsakend-
urnir hafi reyndar náð á leiðarenda. Hugmyndir Erlendar um
merkinguna í Jóni Sigurðssyni hrynja, merking íslensks þjóðernis
er komin á flot í þessari sögu. Og í raun er það undirstrikað í byrj-
un þegar Erlendur og Sigurður Óli mæta í kirkjugarðinn við Suð-
urgötu til að kanna verksummerki: „Erlendur og Sigurður Óli
gengu að grafreitnum og þeim mætti veik rotnunarlyktin af þjóð-
hátíðarkransinum og blómunum á leiðinu.“31 Blómin á leiði þjóð-
hetju Islendinga eru dauðarósir, af þeim leggur rotnunarlykt sem
um leið setur svip sinn á þennan heilaga stað íslensks þjóðernis. Is-
lenskt þjóðerni er ef til vill jafn deyjandi og þessar rósir.32
Þeir félagar, og einkum þó Erlendur, leggja hins vegar merk-
ingu í að líkið hafi fundist á þessum stað og telja sig í upphafi vera
í leit að „þjóðernislegum morðingja“.33 Sú leiðartilgáta leiðir
rannsakendurna út í hugleiðingar um þjóðerni. Meðal annars
hneykslast Erlendur á því að þorramatur sé auglýstur með fólki í
bandarískum kúrekabúningum og dregur þá ályktun að ekkert sé
„varið í íslenskan þorramat fyrr en búið er að tengja hann við Am-
eríku.“34
Það er nýleg tilhneiging að hugsa um þjóðerni sem mat og
tengist sívaxandi úrvali af mat frá öllum heimshornum hér á landi.
Þannig stendur þorramaturinn eftir sem séríslenskt framlag í mat-
30 Arnaldur Indriðason: Dauðarósir, 255.
31 Samarit, 16.
32 Nafnið Dauðarósir er sótt í þekkt kvæði Jóhanns Sigurjónssonar um Jónas
Hallgrímsson, annan holdgerving íslenskrar sjálfstæðisbaráttu sem hefst á orð-
unum „Dregnar eru litmjúkar/dauðarósir....". Þar kallar Jóhann Jónas „óska-
barn ógæfunnar" sem kallast á við titilinn „óskabarn fslands“ sem Jón Sigurðs-
son hlaut. Munurinn á þessum tveimur óskabörnum íslenskrar þjóðernis-
hyggju kemur upp í hugann þegar afstaða til þjóðernis er skoðuð í Dauðarós-
um þar sem persónur hafa afar ólíkar hugmyndir um þjóðerni. Kvæðið má m.a.
finna í Jóhann Sigurjónsson: Ljóðabók. Eiríkur Hreinn Finnbogason hafði um-
sjón með útgáfunni. Reykjavík 1994, 73.
33 Arnaldur Indriðason: Dauðarósir, 27.
34 Sama rit, 28.