Skírnir - 01.04.2005, Blaðsíða 38
36
ÓTTAR M. NORÐFJÖRÐ
SKÍRNIR
inum. Það sem vekur þó eftirtekt er að orðið snotur er algengast
allra þessara samheita, hvort sem því er beitt einu og sér eða í sam-
setningunum al-, meðal-, ó- eða ráðsnotur. Orðið virðist raunar
gegna hlutverki eins konar samnefnis yfir skynsemisþætti einstak-
lingsins, enda er því beitt fyrir allt í senn að hafa mannvit eða geð
sitt, að vera vitur, fróður, horskur, snjall, svinnur eða spakur. Án
þess að festast í smáatriðum um eðli og skírskotun hvers orðs fyr-
ir sig má segja að öll snúi þau að skynsemi með einum eða öðrum
hætti.7 Þessum hugtökum verður því jöfnum höndum beitt þegar
vísað er til skynsemi mannsins.
Til þess að öðlast frekari skilning á þeirri merkingu sem forn-
menn lögðu í orðið snotur er nauðsynlegt að skoða Snorra-Eddu.
Þar er gyðjunni Snotru lýst á þennan veg: „Hún er vitur og lát-
prúð. Af hennar heiti er kallað snotur kona eða karlmaður sá er
hóflátur er.“8 Orðið snotur merkir því allt í senn: ‘vit’, ‘kurteisi’ og
‘hófsemi’. Hugtakanotkunin í Hávamálum er augljóslega svipuð,
enda er snotur jafnan sett í samhengi við einhvern af ofangreind-
um mannkostum. Þessir mannkostir eru því forsendur þess að
vera snotur og þar með forsendur þess að vera sæll.
Hornsteinn hugtakakerfis Hávamála er „vitið“. Lungi kvæðis-
ins fjallar með einum eða öðrum hætti um það - hvernig menn
öðlast það, hvernig menn rækta það og hvernig menn skulu beita
því. Hinn háfleygi lofsöngur í v. 10 ætti því ekki að koma neinum
á óvart:
Byrði betri
ber-at maður brautu að
en sé mannvit mikið.
Auði betra
þykir það í ókunnum stað.
Slíkt er volaðs vera.9
7 Ég hef þar fyrir mér skýringar orðanna í forníslenskum og fornnorrænum orða-
bókum (Sveinbjörn Egilsson (1913-16), Fritzner (1954), Cleasby (1957) og
Heggstad (1930)). f grófum dráttum merkja snotur, spakur, svinnur og snjall
‘vitur’, geð merkir ‘vitsmunir’ og fróður merkir ‘sá sem veit margt’. Vit og
mannvit merkja bæði ‘skilningur’.
8 Edda Snorra Sturlusonar (1996), bls. 46.
9 í þessari grein er stuðst við útgáfu Hermanns Pálssonar (1999) af Hávamálum.