Bændablaðið - 29.08.2019, Blaðsíða 6
Bændablaðið | Fimmtudagur 29. ágúst 20196
Það er merkilegt hvað það kemur alltaf flatt
upp á mann að ágúst sé að líða hjá. Kannski
vegna þess að eins og Vilhjálmur orðaði það:
„sumarið líður allt of fljótt“, enda er það í
styttra lagi á norðurslóðum og því mikilvægt
að nýta tímann vel. Haustverkin eru víða
hafin og meðal þeirra eru smalanir. Fyrstu
göngur eru farnar á nokkrum svæðum núna
um helgina.
Fjölbeytt verkefni fram undan
Eitt þeirra verkefna sem bændur þurfa að
setja ofarlega í forgangsröðina er að gera
áætlanir um það hvernig minnka megi sótspor
innlendrar landbúnaðarframleiðslu. Við
viljum öll leggja okkar af mörkum til þess að
bregðast við breyttum aðstæðum í umhverfinu.
Hamfarahlýnun jarðar er risavaxið vandamál
en ef allir leggja sig fram um breytingar er
enn von. Bændur þurfa að spyrja sig til hvaða
aðgerða þeir geta gripið í sínum búskap til
þess að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.
Leiðarstef okkar er sjálfbærni og að gera íslensk
matvæli ennþá betri og umhverfisvænni.
Vegvísir í loftslagsmálum
Á nýafstöðnum fundi Samtaka norrænna
bænda (NBC) var mikið rætt um aðgerðir í
loftslagsmálum og hvernig hægt er að stefna
landbúnaði í sjálfbærari og umhverfisvænni
átt. Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins er að
vinna að gerð vegvísis fyrir landbúnaðinn og
afurðin mun líta dagsins ljós á næstu vikum.
Forsaga málsins er sú að í apríl 2016 gerðu
umhverfisráðuneytið, atvinnuvegaráðuneytið
og Bændasamtökin samkomulag sín á milli
um loftslagsvænni landbúnað. Markmiðið
var að leggja fram tillögur að raunhæfum
loftslagsvænum lausnum fyrir landbúnaðinn
og minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá
landbúnaði. Á grunni samkomulagsins var
m.a. gerð greining á losun frá landbúnaði
og lögð drög að reiknivélum sem auðvelda
bændum að meta losun frá sínum búum.
Raunhæfar leiðir til að draga úr losun og
auka kolefnisbindingu
Með vegvísinum skilgreinum við raunhæfar
leiðir sem landbúnaður á Íslandi getur tekist
á við til þess að draga úr losun og jafnframt
að auka kolefnisbindingu. Þannig fáum við
verkfæri til þess að vinna með. Vegvísirinn
mun einnig nýtast við endurskoðun á
aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og sem
innlegg í umhverfisstefnu landbúnaðarins
sem er í smíðum samkvæmt ákvörðun
Búnaðarþings 2018. Mikilvægt er að bændur,
almenningur og stjórnvöld standi saman að
aðgerðum. Við bændur viljum vera hluti af
lausninni enda höfum við tækifæri til þess að
láta virkilega að okkur kveða. Hvort sem um
er að ræða aukna skógrækt, landgræðslu, betri
landnýtingu, endurheimt votlendis, kynbætur,
bætta búskaparhætti og meiri fagmennsku í
greininni þá erum við reiðubúin til þeirra
verka.
Heilbrigð góð fæða og ábyrg neysla
Það var mikið upphlaup í vikunni þegar
borgarfulltrúi í Reykjavík tjáði sig á þá leið að
draga ætti verulega úr framboði dýraafurða eða
hætta alfarið að bjóða upp á þær í mötuneytum
borgarinnar. Eins og oft vill verða skiptust
menn í fylkingar og stór orð féllu á báða bóga.
Málið er nokkuð viðamikið en Reykjavíkurborg
ein og sér framreiðir í kringum 7,7 milljónir
máltíða á ári og 23 þúsund manns snæða í
mötuneytum borgarinnar á degi hverjum.
Þegar leið á umræðuna dró borgarfulltrúinn
heldur í land og athyglin beindist að nýrri
matarstefnu borgarinnar sem er að mörgu leyti
metnaðarfullt plagg. Þar er meðal annars talað
um mikilvægi þess að minnka matarsóun og
auka hlut matvæla sem ekki eru flutt um hálfan
hnöttinn frá framleiðanda á disk neytenda.
Umræðan um kjötneyslu og aðra neyslu
dýraafurða er hins vegar eitthvað sem
bændur veigra sér ekki við að taka þátt í.
Neyslubreytingar eru stöðugar í samfélaginu
og þær ráðast af ýmsum ólíkum þáttum. Það
er liðin tíð að Íslendingar borði um 40 kg af
lambakjöti á ári og kartöflur hafa deilt sviðinu
síðustu þrjá áratugi með grjónum og pasta.
Aukin neysla á grænmeti er fagnaðarefni
og allt sem eykur fjölbreytni og gæði í fæðu
landsmanna er jákvætt. Við megum hins
vegar ekki gleyma því að umhverfismálin eru
afar fjölþætt og fleiri hliðar á þeim en „með
og á móti“. Við myndum varla vilja draga
stórlega saman í innlendum landbúnaði og
hefja innflutning á mat frá fjarlægum löndum
með tilheyrandi sótspori. Raunkostnaðurinn
við framleiðslu á matvælum víða um heim er
m.a. þaulræktun, óhófleg notkun á skordýraeitri
og dýralyfjum, slæm landnotkun og jafnvel
skert mannréttindi. Þetta þarf að taka með
í reikninginn. Hér á Íslandi erum við rík af
matvælaauðlindum. Vatnið er hreint og gnægð
ræktarlands er fyrir hendi. Búfénaður er
heilbrigður og við eigum bændur sem búa yfir
mikilli þekkingu. Við erum grasræktarland sem
er hagkvæmt að nýta í nautgripa-, sauðfjár- og
hrossarækt. Ræktun á byggi hefur fyrir löngu
sannað sig í svínaræktinni en enn sem komið er
þurfum við að flytja inn fóður fyrir kjúklingana
okkar.
Búfé er lykillinn að fæðuöryggi
Í skýrslu sem FAO, Matvæla- og
landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, gaf
út árið 2017 og heitir „Livestock solutions for
climate change“ kom skýrt fram að búfé væri
lykillinn að fæðuöryggi í heiminum. Kjöt, mjólk
og egg eru 34% af öllu próteini sem mannkyn
neytir og þessar fæðutegundir eru mikilvægar
við að útvega okkur B12-vítamín, A-vítamín,
járn, sínk og kalsíum svo eitthvað sé nefnt.
FAO hefur gefið út leiðbeiningar sem miða að
því að minnka losun metangass frá búfénaði.
Þær felast meðal annars í að bæta framleiðni
búfjárkynja með kynbótum, leggja áherslu á
dýraheilsu og að auka kolefnisbindingu með
betri beitarstjórnun og landnýtingu. Með réttum
aðgerðum telur FAO að minnka megi sótspor
búfjárframleiðslu í heiminum um 20–30%.
Á Íslandi erum við vel í stakk búin til þess að
ná betri árangri í landbúnaði og minnka losun
gróðurhúsalofttegunda. Við þurfum að hugsa
málin til enda og öðlast nauðsynlega yfirsýn,
marka okkur skýra stefnu í matvælaframleiðslu
og stunda ábyrga neyslu. Sjálfbærni og
dýravelferð á að vera rauði þráðurinn, hvort
sem um er að ræða innlenda framleiðslu eða
innflutt matvæli.
Bændablaðið kemur út 24 sinnum á ári. Því er dreift ókeypis á yfir 400 stöðum
á landinu og á öll lögbýli landsins.
Lesendur geta einnig gerst áskrifendur að blaðinu og fengið það sent heim
í pósti gegn greiðslu. Árgangurinn kostar þá kr. 10.900 með vsk. (innheimt í
tvennu lagi). Ársáskrift fyrir eldri borgara og öryrkja kostar 5.450 með vsk.
Heimilisfang: Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík.
Sími: 563 0300 – Fax: 562 3058 – Kt: 631294–2279
Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands.
− Málgagn bænda og landsbyggðar −
SKOÐUN
Vísindi byggja á gagnrýnni hugsun.
Án gagnrýninnar hugsunar vöðum við
áfram í blindri trú á að hlutirnir séu eins
og einhver segir okkur að þeir séu án
þess að við höfum fyrir því að sannreyna
það, eða í það minnsta spyrja spurninga.
Því miður virðist heimsbyggðin og þar
með íslenskt samfélag í æ ríkari mæli stefna
án gagnrýni út á braut sem er uppspretta
öfga og pólitísks rétttrúnaðar. Við horfum
upp á og heyrum um slíka hluti nær daglega
og virðast þar engin takmörk fyrir hve
upphrópanir og fullyrðingarnar geta verið
sterkar, öfgarnar miklar og gagnrýnislaus
meðvirkni botnlaus.
Einu sinni var því haldið fram að jörðin
væri flöt og enn þann dag í dag er fjöldi
fólks sem virðist trúa þessari staðhæfingu
gagnrýnislaust. Meira að segja er til
samfélag manna sem hefur þessa trú og
kallast „Modern flat Earth societies“. Einn
helsti trúarleiðtoginn í flatjarðarfræðunum
var enski uppfinningamaðurinn og
rithöfundurinn Samuel Birley Rowbotham
sem var uppi frá 1816 til 1884. Hann skrifaði
16 síðna bækling um þessa heimsmynd sína
árið 1849 undir dulnefninu Parallax. Síðar
hlóð þessi bæklingur utan á sig og varð að
heilli bók árið 1865.
Það skemmtilega við flatjarðar-
kenninguna er hversu heimsmyndin er
einföld. Þar er jörðin flöt með heimskautin
úti á jaðri og ísveggur þar í kring. Eða eins
konar risastórt baðkar með ísveggjum
sem varna því að sjórinn flæði út af
pönnukökunni, Síðan svamla heimsálfurnar
í miðjunni og sólin stjörnurnar og
pláneturnar svifu svo í nokkur hundruð
kílómetra hæð yfir jörðinni.
Ef enginn hefði haft uppi gagnrýna
hugsun um þessa heimsmynd Samuel Birley
Rowbotham, þá gæti hún allt eins hafa orðið
viðtekin skoðun meirihluta jarðarbúa og þar
með fræðinga og vísindamanna. Hún væri
þá kennd í skólum og börn rekin úr tíma
ef þau voguðu sér að bulla eitthvað um að
jörðin væri hnöttur.
Það er samt ekki hlæjandi að þessu því
gagnrýnislaus meðvirkni er okkur ansi
nærri á öðrum sviðum í dag. Slíkt hefur
meira að segja stundum dregið meginþorra
vísindasamfélags heimsbyggðarinnar á
asnaeyrunum áratugum saman.
Undir lok sjötta áratugar gaf vísinda-
maðurinn dr. John Gofman ásamt félögum
út ritgerð um hversu dýrafita væri hættuleg
heilsu manna. Um svipað leyti setti
lífeðlisfræðingurinn Ancel Benjamin Keys
fram kenningar á svipuðum nótum og sagði
hana byggða á rannsóknum sem hann sagðist
hafa gert í sjö löndum. Tókst að sannfæra
vísindamenn og þingmenn um nauðsyn
þess að setja lýðheilsustefnu þar sem neysla
dýrafitu var talin einn helsti orsakavaldur
hjartasjúkdóma. Var þessi lýðheilsustefna
tekin upp um allan heim og keyrð áfram
á Íslandi, m.a. af Landlæknisembættinu.
Ræktunarmarkmið í dýraeldi voru einnig
tekin upp í takti við þessi fræði víða um
heim. Meginþorri vísindasamfélagsins
studdi þessi opinberu lýðheilsumarkmið
gagnrýnislaust, en þeir sem efuðust voru
kallaðir óraunsæir, forpokaðir og fávísir.
Síðan gerðist það þegar komið var
fram á þessa öld að æ fleiri rannsóknir
sýndu að bæði Gofman og Keys höfðu
ekki aðeins haft rangt fyrir sér, heldur
hafði svokölluð rannsókn Keys að stórum
hluta verið blekking og uppspuni. Þá voru
þær þegar búnar að valda milljónum
manna miklum skaða. Reynslan kennir
okkur því að ef menn ætla að lifa lífinu í
blindri trú án þess að efast nokkurn tíma
og neita að horfa gagnrýnum augum á
umhverfi sitt og fullyrðingar annarra, þá
getur farið illa. /HKr.
Bændur leggja áherslu á að minnka sótsporin
Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is – Sími: 563 0339 − Rekstur og markaðsmál: Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is – Blaðamenn: Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Sigurður Már Harðarson
smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is – Auglýsingastjóri: Guðrún Hulda Pálsdóttir ghp@bondi.is – Sími: 563 0303 – Netfang auglýsinga: augl@bondi.is − Vefur blaðsins:
www.bbl.is − Netfang blaðsins: (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is
Frágangur fyrir prentun: Anna Kristín Ólafsdóttir – Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Dreifing: Landsprent og Íslandspóstur. ISSN 1025-5621
ÍSLAND ER LAND ÞITT
Guðrún S. Tryggvadóttir
formaður Bændasamtaka Íslands
gst@bondi.is
Horft af Búlandshöfða á Snæfellsnesi til aust-norðausturs, yfir Látravík og á Kiðanes á Brimlárhöfða. Þar á bakvið blasir við vitinn á Krossnesi
og Eyrarfjall gnæfir þar í baksýn austan Grundarfjarðar þar sem sveitabæirnir baða sig í kvöldsólinni í júlí. Lengst til vinstri sér í Melrakkaey
sem er fyrir miðju mynni Grundarfjarðar. Mynd / Hörður Kristjánsson
Að rýna til gagns