Bændablaðið - 29.08.2019, Blaðsíða 7
Bændablaðið | Fimmtudagur 29. ágúst 2019 7
LÍF&STARF
Í síðustu vísnaþáttum hafa mestmegnis verið birtar vísur eftir Björn S. Blöndal Vatnsdæling. En þar sem
hugurinn er um þessar stundir mjög vistaður
í Húnavatnssýslu þá verða í þessum þætti
birtar vísur eftir Vestur-Húnvetninginn
Jón S. Bergmann. Jón var fæddur á
Króksstöðum í Miðfirði þann 30. ágúst
1874, en lést 9. september 1927. Jón var
afar hagmæltur og ekki síður hraðkvæður
svo orð fór af. Jón tileinkar Sigríði systur
sinni þær stökur sem hér verða birtar:
Um sjálfa stökuna orti Jón þrjár fyrstu
vísur þáttarins:
Eru skáldum arnfleygum
æðri leiðir kunnar.
En ég vel mér veginn um
veldi ferskeytlunnar.
Þegar skyggði‘ á þjóðarhag
þrældómsmyrkrið svarta,
ferskeytlunnar létta lag
lagði yl í hjarta.
Meðan einhver yrkir brag
og Íslendingar skrifa,
þetta gamla þjóðar-lag, -
það skal alltaf lifa.
Jón yrkir svo um „almannaróminn“ sem
ýmist lætur vel í eyrum eða rýir fólk allri
æru:
Mörgum óar óstjórn löng,
er þó nóg af lögum;
sundrung þróast, fækka föng,
fjölgar Gróusögum.
Kona nokkur, talin gaflhlað hið versta, fékk
þennan vitnisburð Jóns:
Mærin hafði á mönnum vald,
-margar átti hún sögur,
ekki fyrir innihald,
en umgerðin var fögur.
Með hækkandi aldri, þá minnkar
eftirspurnin. Jón sendi konu þessa
hughreystingu:
Þó að hárið hélulitt
hugnist miður sveinum,
mundu, ljúfa ljósið mitt,
að lengi er von á einum.
Vísuna næstu nefnir Jón „Góð kaup“:
Auðinn lagði hún allan til,
efni í fyrsta þáttinn,
sem hún hélt að hér um bil
hefði borgað dráttinn.
Um mikilsmetinn mann orti Jón:
Aldrei var svo ráðið ráð,
rætt eða fært í letur,
alvara né hnyttið háð,
að Helgi vissi ei betur.
„Líkkistusmiðurinn“. Jón yrkir honum
þessa vísu:
Þegar sveitin sorgarljóð
syngur vini liðnum,
þá er eins og hrædýrshljóð
hlakki í kistusmiðnum.
Jón nefnir vísuna, „ hófleg bjartsýni“:
Þetta hefir farið fremst
frónski prestaskólinn,
ef að þessi klerkur kemst
klakklaust upp í stólinn.
Um leirhnoðara nokkurn orti Jón næstu
tvær vísur:
Ljókkar enn þín ygglibrá
yfir ljóði mínu,
því að snöp eru engin á
andans hrjóstri þínu.
Fara um eyrun eins og þeyr
orð þín, laus í skorðum;
aldrei blæstu anda í leir
eins og Drottinn forðum.
Umsjón:
Árni Geirhjörtur Jónsson
kotabyggð1@gmail.com
232MÆLT AF
MUNNI FRAM
Fulltrúar NBC funduðu í Reykjavík:
Norrænir bændur eiga samleið
í loftslagsmálum
– Forseti Íslands bauð gestum upp á kaffi og með því að íslenskum sveitasið
Tæplega 70 norrænir bændur og starfsmenn
norrænna bændasamtaka komu til fundar
í Bændahöllinni dagana 21.–22. ágúst sl.
Fulltrúarnir voru frá Noregi, Svíþjóð,
Finnlandi, Danmörku og Íslandi en þeir
vinna saman í Samtökum norrænna
bændasamtaka, NBC. Meðal gesta voru
formenn allra norrænu bændasamtakanna
og annað áhrifafólk í norrænum landbúnaði.
Fundir sem þessir eru haldnir á tveggja
ára fresti og þar er farið yfir þau mál sem
hæst standa í landbúnaði hverju sinni.
Norðurlandaþjóðirnar skiptast á að halda
fundina en sambærilegur fundur var síðast
haldinn hér á landi árið 2009. Með fundinum
lauk tveggja ára formennskutímabili
Íslands í NBC en Norðmenn taka nú við
forystuhlutverkinu.
Bændur geta verið hluti af lausninni
Aðalumfjöllunarefnið í ár voru loftslagsmálin
og þær áskoranir sem þeim fylgja. Þá voru
haldnir fyrirlestrar um fjölbreytt mál,
s.s. um nýliðun í landbúnaði, dýraheilsu,
samvinnufélög og alþjóðamál. Fulltrúar
skiptust á skoðunum og deildu reynslu sín á
milli. Það kom skýrt fram í máli fundargesta
að allir eru að vilja gerðir að mæta þeim
áskorunum sem hamfarahlýnun jarðar hefur
í för með sér. Þó svo að aðstæður séu að
mörgu leyti ólíkar á Norðurlöndunum og
búskaparskilyrði fjölbreytt á hópurinn margt
sameiginlegt. Auknar kröfur neytenda um
ábyrga framleiðsluhætti kalla á aðgerðir í öllum
nútímalandbúnaði og þar geta Norðurlöndin
skapað gott fordæmi. Löndin eru misjafnlega
langt komin í sínum aðgerðum en flest
bændasamtök á Norðurlöndunum hafa þegar
markað sér skýra stefnu í loftslagsmálum. Þau
vinna að því með stjórnvöldum að minnka
kolefnisfótspor landbúnaðarins og auka
kolefnisbindingu með ýmsum hætti.
Forseti Íslands bauð bændum á
Bessastaði
Að fundi loknum fór hópurinn í vettvangsferð
á Reykjanesið. Byrjað var á því að heimsækja
Bessastaði þar sem hr. Guðni Th. Jóhannesson,
forseti Íslands, tók á móti norrænu bændunum
og fræddi þá um sögu staðarins. Hópurinn
fékk höfðinglegar móttökur og var m.a. boðið
upp á kaffi að íslenskum sveitasið – með
kleinum, pönnukökum og fleiri góðgerðum.
Eftir heimsóknina á Bessastaði tóku bændur
hús á HS-Orku í Svartsengi, Orf-líftækni og
fiskeldisstöð Hafrannsóknastofnunar á Stað
við Grindavík. Öll þessi fyrirtæki og stofnanir
eru góð dæmi um nýsköpun og kraft sem býr
í íslenskum landbúnaði og matvælageiranum.
HS-Orka framleiðir rafmagn og dælir
upp jarðhita og er í nánu samstarfi við
ýmis matvælafyrirtæki á Suðurnesjum.
Orf-líftækni hefur þróað einstaka tækni
til þess að erfðabreyta byggi og nýta
afurðirnar í snyrtivörur. Fiskeldisrannsóknir
Hafrannsóknastofnunar miða m.a. að því
að auka nýtingu jarðhita í fiskeldi og þróa
aðferðir til þess að berjast við laxalús. /TB
Guðrún S. Tryggvadóttir, formaður BÍ, og hr.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Í pallborðsumræðum kom skýrt fram
að norrænir bændur vilja axla ábyrgð í
loftslagsmálum og leggja sitt af mörkum.
Björn Örvar hjá Orf líftækni sagði frá starfsemi
fyrirtækisins í hrauninu við Grindavík.
Fulltrúar ungra bænda á Norðurlöndunum með
Guðna forseta á tröppunum á Bessastöðum.
Jóna Björg Hlöðversdóttir, bóndi á Björgum
og formaður Félags ungra bænda.
Hópurinn fékk höfðinglegar móttökur á
Bessastöðum.
Ragnar Jóhannsson sagði frá fiskeldis-
rannsóknum á Reykjanesi.
Fulltrúar bænda á NBC-fundinum ásamt hr. Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, fyrir framan Bessastaði. Norrænir bændur vinna þétt
saman og reka samstarfsvettvang til þess að skiptast á skoðunum og deila reynslu sín á milli. Með fundinum lauk tveggja ára formennskutímabili
Íslands í NBC en Norðmenn taka nú við forystuhlutverkinu. Myndir / TB