Fréttabréf Öryrkjabandalags Íslands - 01.12.1998, Qupperneq 43
Vinur í grennd
Isíðasta tölublaði var afar hugþekk
og gnpandi þýðing á litlu Ijóði sem
kallaðist á íslenskunni: Vinur í
grennd. Að betur athuguðu máli þá
þótti þýðandanum, Sigurði Jónssyni
tannlækni, sem eina viðbótarvísu
þyrfti. Hún kemur hér, stendur út af
fyrir sig fyrir sínu, en svo er bara að
skeyta henni við ljóðið í síðasta blaði
svo í samhengi fáist:
Sjálfur ef vin þú átt góðan í grennd
gleymdu ekki hvað sem á dynur,
að albesta sending af himninum
send
er sannur og einlægur vinur.
Sigurður Jónsson tannlæknir.
Ryksuguríma
Alltaf hlýnar ritstjóra nú um
hjartarætur þegar hann fær af
því fregnir að Fréttabréfið sé einhvers
metið. Sigurður tannlæknir Jónsson
hefur oft lagt honum lið, ekki bara
sem ritstjóra, heldur og ekki síður sem
undirleikari hans og Karvels um
árabil. Nú bar svo til síðast að Sig-
urður fékk alls ekki Fréttabréfið í
hendur s.s. þó átti að vera. í tilefni af
því sendi hann þessa ryksugurímu, en
nafnið til komið sakir þess að ríma
þessi kom Sigurði í hug, er hann var
að ryksjúga heima hjá sér. Og með
kærri þökk ritstjórans er þessi ríma hér
birt:
Að fá ekki í hendur Fréttabréf ykkar
finnst mér af lakara tagi,
því ekkert veit ég annað sem klikkar
hjá Örykjabandalagi.
SJ.
Vonandi reynist þetta rétt, en blaðið
er Sigurður búinn að fá.
Ingibjörg
Þorgeirsdóttir
Ingibjörg Þorgeirsdóttir:
Tvö ljóð
Formálsorð: Hún Ingibjörg Þorgeirsdóttir bjó lengi hér í Hátúni 10
og lagði okkur lið með ljóðum og sögum. Nú dvelur hún nærri
æskuslóðum að Barmahlíð í Reykhólasveit.
Bókaútgáfa Æskunnar gefur út fyrir jólin bók þessarar miklu
heiðurskonu. En hér eru tvö lítil ljóð, jólunum tengd.
Aðfangadagskvöld
Horfa frá heiði bláu
himinsins stjörnur niður,
breiðist of byggðir allar
blessaður jólafriður.
Er sem augnablik hljóðni
ymur stundlega glaumsins
meðan klukkurnar kalla
kveðju eilífa draumsins.
Nóttin helga
Enn ertu komin hátíðin helgibjarta
hopar undan þér myrkrið og dauðaóttinn
er stígur þú niður á jörðina sorgum svarta
úr sölunum efra, blessaða jólanóttin.
Horfa þín barnsaugu inn í hvert einmana hjarta
í þeim lítur það von sína og týndu drauma,
-finnur sitt upphaf, elskunnar vermandi strauma.
Og því er svo undarlegt með þennan gest, sem gisti
gamla veröld fyrir mörghundruð árum
lítið barn með brosi og mannlegum tárum
að enn er þess minnst með gleði og grænum kvisti,
geislandi Ijósadýrð í koti og höllum,
fagnað og sungið í heimum og himnum öllum
hörpurnar stilltar til vegsemdar Jesú Kristi.
Ingibjörg Þorgeirsdóttir.
FRÉTTABRÉF ÖRYRKJABANDALAGSINS
43