Íslenskt mál og almenn málfræði - 2014, Page 97
2. Fónem eða ekki fónem
Í upphafi 3. kafla doktorsritsins vísar Haukur (2013a:57) til þess að ég hafi
á sínum tíma (Höskuldur Þráinsson 1981:118) bent á samstuðlun upp-
gómmæltra og framgómmæltra lokhljóða í dæmum eins og þessum
(hljóðstafir, þ.e. stuðlar og höfuðstafir, auðkenndir með feitu letri í staf-
setningunni og með hljóðritunartáknum á eftir hverri línu):5
(2) Hljóðstafir:
a. smiður kóngur, kennarinn, [kh] [ch]
kerra, plógur hestur (Stephan G. Stephansson) [ch]
b. Gaman er að gifta sig [k] [c]
gefi saman prestur (Þura í Garði) [c]
Hér er greinilega leyfilegt að stuðla saman hljóð sem ekki eru nákvæmlega
eins frá hljóðfræðilegu sjónarmiði (þ.e. ekki eins í framburði). Spurningin
er þá hvernig það megi vera og þetta er einmitt gott dæmi um forvitnilegt
samspil hljóðkerfis og bragkerfis. Hljóðkerfisfræðingar vilja auðvitað átta
sig á því hvernig hljóðkerfi tungumála eru upp byggð og hin fræðilega
glíma snýst m.a. um að komast að einhverri niðurstöðu um þetta og færa
rök fyrir henni. Dæmi á borð við þau sem sýnd eru í (2) sýna ljóslega að
málhljóð sem virðast í fljótu bragði ekki vera „sama hljóðið“ og hafa mis-
munandi myndunarstað geta stuðlað saman. Samt er það svo að samhljóð
sem hafa ólíkan myndunarstað stuðla yfirleitt ekki saman. Hvað er það þá
sem veldur því að [kh] og [ch] geta stuðlað saman (myndað jafngildisflokk)
en [ph] og [th] ekki til dæmis? Eru [kh] og [ch] þrátt fyrir allt „sama
hljóðið“ í einhverjum skilningi og hvaða skilningi þá?
Eðlilegast virðist að skilja ofangreinda tilvitnun í doktorsrit Hauks
(2013a:67) þannig að hann geri ráð fyrir að [kh] og [ch] séu fulltrúar mis-
munandi fónema.6 Ég hef nú ekki fundið nákvæman rökstuðning fyrir
þessari niðurstöðu í riti hans en ástæðan gæti verið sú að hann miðaði við
þá staðreynd að auðvelt virðist að finna lágmarkspör sem benda til þess að
Stuðlar, hefðarreglur, hljóðkerfi 97
5 Hér eru notuð þau hljóðritunartákn sem Haukur notar í doktorsritgerð sinni í sam-
ræmi við það sem nú tíðkast yfirleitt í skrifum um íslenska hljóðfræði en ég notaði önnur
tákn í minni grein í samræmi við eldri hefð.
6 Yfirlesari bendir reyndar á að þessi tilgreindu ummæli Hauks megi skilja þannig að
þegar eða ef [kh] og [ch] klofni í tvö fónem sé ekki óvænt að þau haldist í sama jafngildis-
flokki, þ.e. að hann sé ekki endilega að fullyrða að þetta hafi gerst. Það skiptir í sjálfu sér
ekki meginmáli varðandi þá almennu spurningu um samspil hljóðkerfis og bragreglna sem
hér er til umræðu.