Íslenskt mál og almenn málfræði - 2015, Blaðsíða 131
helgi skúli kjartansson
Að ver(ð)a samferða
og hliðstæðar breytingar úr verða í vera
1. Inngangur
„Ég vildi vera honum samferða,“ sagði ég við son minn daginn áður en
þetta er ritað. „Vera“, ekki „verða“. Þó er ég alinn upp við að verða fólki
samferða. En nú er þetta ð alveg horfið úr málkenndinni hjá mér og ekki
annað eftir en að vera samferða. Jafnvel í framtíðarmerkingu: Eigum við
ekki að vera samferða aftur á morgun?1
„Menn vakna ekki upp við það einhvern morguninn“ er haft eftir
nafna mínum Guðmundssyni, „að það séu signir í þeim vókalarnir.“ Nei,
málbreytingar verða ekki á einni nóttu, síst breytingar á heilu málkerfun-
um, og jafnvel stök málfarsatriði hjá einstökum málnotendum þokast
smám saman úr einu farinu í annað.2 Ég hef árum saman fundið þetta
blessaða ð í ver(ð)a samferða lækka á lofti málvitundarinnar uns það er nú
alveg til viðar gengið.
Af hverju? Einhvern veginn er þetta hin almenna þróun í mínu mál -
samfélagi. Látum Google telja:3
Íslenskt mál 37 (2015), 131–138. © 2015 Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.
1 Ég þakka ritstjóra ýmsar ábendingar sem ég nýtti til að lagfæra upphaflega gerð þess-
arar greinar.
2 Af verða og vera eru að vísu ekki til millistig sambærileg við hinn aflíðandi hljóðgild-
ismun sérhljóðakerfisins. Það sem breytist smátt og smátt er tíðnin hjá þeim sem notar
sagnirnar á víxl en vera oftar og oftar; og þó maður skipti skyndilega um, þá hefur tilfinn-
ingin fyrir því að vera sé rangt dofnað smám saman, úr ʽ*’ niður í ‘?ʼ og loks ekki einu sinni
það. Að málbreyting gerist smám saman á þó frekar við um útbreiðslu hennar en kviknun;
hver ný orðmynd eða orðasamband hefur í eitthver eitt skipti verið notað fyrst, og í mál-
tökunni getur barn frá upphafi tileinkað sér eitthvað sem aldrei var „fyrir því haft“. Sjá
umræðu hjá Margréti Guðmundsdóttur 2008 og í ritum sem þar er vísað til.
3 Hér og framvegis táknar hærri talan fjölda þeirra „niðurstaðna“ (þær tákna vefskjöl
eða vefsíður; dæmin geta verið fleiri en eitt í sama skjali eða á sömu síðu) sem leitarvélin
finnur, lægri talan (innan sviga) þeirra sem hún sýnir eftir fyrstu leit. Hér finnur hún t.d.
„um það bil 1.440 niðurstöður“ (ég sleppi fyrirvaranum en allar háar tölur eru gefnar upp
sem „u.þ.b.“), en sleppir í fyrstu umferð „niðurstöðum sem svipar mjög til þeirra 97 sem
hér eru birtar.“ Lægri talan hefur þann kost að margtelja ekki texta sem afritast, jafnvel
sjálfkrafa, af einni vefsíðu á aðra, en þess gætir mjög á blogg- og umræðuvefjum. Hins
vegar er fjarri því að beinar endurtekningar skýri allan muninn á þessum tölum.