Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2016, Blaðsíða 15
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS14
silfur og gull og góð vopn, sem lagt var með eigendum sinum í hauginn,
og átti þessi trú lengi eftir að fylla hugi manna.2
Hinir gömlu fornfræðingar okkar á 19. öldinni, Sigurður Vigfússon
forstöðumaður Forngripasafnsins og Brynjúlfur Jónsson fræðimaður frá
Minna-Núpi, höfðu þó annan tilgang með rannsóknum sínum. Fyrir þeim
vakti fornfræðileg athugun. Þeir fóru víða um land og grófu þar sem bent
var á fornmannahauga eða fornbæi sem oft var getið í fornsögum. Ekki
var þó alltaf árangurinn sem erfiðið enda var aðferðum þeirra í f lestu
áfátt og kunnátta til rannsókna takmörkuð. Þeir kunnu fornsögurnar hins
vegar nánast utanbókar og efuðust sjaldan um frásagnir þeirra. Tilgangur
rannsókna þeirra og kannana var þó ekki sízt sá að fá stuðning við frásagnir
fornsagnanna. Rannsóknir Sigurðar og Brynjúlfs eru oft næsta ómarkvissar,
teikningar af skornum skammti og lýsingar fábrotnar miðað við þær
kröfur sem nú eru gerðar. Aðferð þeirra var oft sú að moka upp beinum
og gripum, hirða það sem virtist vænlegt til fróðleiks, vopn, skartgripi og
annað það sem gat átt erindi til sýningar í Forngripasafninu og mun eins
hafa verið víðar á þeirri tíð. Greinar um rannsóknir sínar birtu þeir í Árbók
Fornleifafélagsins og eru margar þeirra vissulega fróðlegar og merkar, ekki
sízt þar sem sumt af því sem þeir lýstu er nú ekki lengur að sjá. Hið sama má
segja um fornleifagröft Þorsteins Erlingssonar í lok 19. aldar. Hann kannaði
með grefti fornrústir í Þjórsárdal vegna fyrirhugaðra rannsókna á ætluðum
norrænum fornrústum vestan hafs. Sigurður Guðmundsson málari, fyrsti
umsjónarmaður Forngripasafnsins, virðist ekki hafa grafið í fornmannahauga,
svo áhugasamur sem hann var þó um fornöldina. Hann hafði mestan huga
við að af la gripa til safnsins, skrá þá og ganga frá til sýningar, skrifaði að auki
merkar greinar, sumar enn óútgefnar, um menningarsögu Íslendinga.
Allt til setningar fornleifalaganna 1907 má segja að fornleifagröftur hafi
öllum leyfzt og eftirlitslaust. Nefndur var gröftur í Kveldúlfshaug en síðar
gróf einnig Andrés Fjeldsted í hauginn, að því er virðist í forvitnisskyni
aðeins, en næsta óljóst er hvað þá kom í ljós. Nefna má einnig gröft
Snæbjarnar Kristjánssonar í Hergilsey í kumlateiga á nokkrum stöðum við
Breiðafjörð. Hann var ekki mjúkhentur við verk sín, svo sem sjá má af
ævisögu hans, mokaði gröfunum upp með járnreku og rakst á ýmislegt
forvitnilegt, svo sem leifar af smákistli, brýni, málmbrot og perlur, og á
2 Halldór J. Jónsson tók saman ritaskrá dr. Kristjáns Eldjárn að honum látnum og birtist hún í Árbók
fornleifafélagsins árið 1984. Flestar heimildir sem hér er stuðst við eru í þeirri skrá en einnig
er leitað fanga víðar t.d. í ævisögu Kristjáns eftir Gylfa Þ. Gröndal sem út kom hjá Forlaginu í
Reykjavík árið 1991, Sögu Snæbjarnar í Hergilsey eftir Snæbjörn Kristjánsson og í ýmsum greinum í
Árbók Hins íslenzka fornleifafélags.