Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2016, Blaðsíða 26
25KRISTJÁN ELDJÁRN: 100 ÁRA MINNING
Kristján rannsakaði gaumgæfilega gripi úr klébergi er fundizt höfðu á
Íslandi. Kléberg er heiti sem hann gaf eftir erlendum heitum steintegund
sem finna má í ýmsum nágrannalöndum, en ekki hér, hefur þó verið f lutt
í nokkrum mæli hingað til lands í formi ýmissa smíðaðra brúkshluta.
Má nefna potta margs konar (grýtur), snældusnúða og ljósakolur. Hann
sýndi fram á að þar sem gripir úr klébergi finnast í rústum bendi það til
fornbyggðar. Landnámsmenn hafi f lutt með sér klébegsgripi, en einnig
óunnið kléberg sem smíðað var úr hér.
Víðfeðmasta fornleifarannsókn sem Kristján stóð að er rannsókn
kirkjugrunnanna í Skálholti á árunum 1954-1958. Sér við hlið hafði hann
þá norska arkitektinn og kirknafræðinginn Håkon Christie. Rannsóknin
var gerð í aðdraganda þess að fyrirhuguð var bygging nýrrar dómkirkju í
Skálholti á grunni hinna eldri kirkna, sem allar voru úr timbri og engar
minjar þeirra sýnilegar ofanjarðar. Þarna unnu margir að rannsóknunum
en árangur þessara umfangsmiklu rannsókna birtist í ritinu Skálholt I-III,
sem kom þó ekki út fyrr en að Kristjáni látnum. Hann hafði sjálfur gengið
frá ýmsum köf lum í ritið, en við rannsóknina komu í ljós gríðarmiklar
og merkar heimildir um hinar fyrri kirkjur, einnig legstaðir biskupa og
kvenna þeirra og annars fyrirfólks, og fjöldi merkra forngripa sem bregða
birtu á sögu staðarins. Eftirvænting manna var ekki sízt mikil eftir því
hvort nú kæmi þar í ljós steinþróin, sem segir frá í Páls sögu biskups að
hann léti gera „ágæta haglega“ og var í lagður eftir andlát sitt. Það var
Jökull Jakobsson sem fyrstur kom niður á eitt horn á þrónni og varð þá
ekki um villzt. Kristján gat ekki verið samfellt við uppgröftinn þar eystra,
hann hafði ýmsu að sinna við embætti sitt syðra en fór austur í Skálholt svo
oft sem tími leyfði og vann þá að rannsóknunum. Eitt sinn er hann kom
austur sátu menn að hádegisverði. Menn voru óvenju þögulir og sögðu
fátt, en loks rauf Jón Steffensen þögnina og sagði á sinn alkunna hátt og
dró lengi seiminn: „Jæja, eigum við ekki að fara að líta á Palla bisp?“ Stökk
þá Kristján nánast upp frá borðum, fórnaði höndum í senn undrandi og
fagnandi: „Eruð þið búnir að finna hann?“ – Og ekki var um að villast,
þarna var steinþróin komin og bein Páls í, og að auki bagall biskupsins
skorinn í rostungstönn. Um bagalinn merka skrifaði Kristján síðan þátt í
ritið um Skálholt.
Kristján fór ásamt Gísla Gestssyni safnverði og Þórhalli Vilmundarsyni
prófessor til L'Anse aux Meadows á Nýfundnalandi og tóku þeir þátt í
rannsóknum á fornum minjum, sem menn væntu að væru frá komu norænna
manna forðum þangað og sem síðan hefur hlotið almenna viðurkenningu