Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2016, Blaðsíða 64
63FORNLEIFAKÖNNUN Í ODDBJARNARSKERI
Í heimildum eru til lýsingar á byggingarefni verbúðanna í Oddbjarnarskeri
frá árabilinu 1703–1900 og einnig á því hvernig þær voru skipulagðar á
seinni hluta 19. aldar og þar til útræði lauk. Formenn og bátaeigendur áttu
viðinn í sínum búðum og hjöllum og f luttu hann með sér að heiman. Sama
átti við um torfið, það varð að f lytja með sér en hins vegar mátti taka grjót
til bygginga í Skeri.64
Til er greinagóð lýsing Péturs frá Stökkum á því hvernig búðirnar í
Oddbjarnarskeri voru á árabilinu um 1875-1890:
Allar voru þessar búðir loftlausar; veggirnir bygðir úr torfi og grjóti, vel 5
feta háir [um 1,5 m], lengdin um 7-12 álnir [um 4-7 m], breidd f lestra um
5 álnir [um 3 m]. Sperrur voru settar á veggi, langbönd voru á sperrum,
viðarárefti og torfþak. Fáar einar voru bygðar með mæniás og stoðum.
Lítill gluggi var á hverri búð. Ein skipshöfn var um hverja búð, nema tvær
eða þrjár þær stærstu; voru þær ætlaðar tveimur skipshöfnum. Við hverja
búð var dálítið anddyri eður skýli, sem nefnt var „kró“; var hún jafnframt
notuð fyrir eldhús. Var króin ekki hærri en svo, að vel var manngengt. Í
henni voru einar eða tvennar hlóðir, eftir því, hvort búðin var ætluð einni
eða tveimur skipshöfnum. Jafnan voru þrjú rúm í hverri búð, sem ætluð var
einni skipshöfn, en sex í hinum, sem ætlaðar voru tveimur. Rúmin voru á
lofti; undir þeim var geymt ýmislegt af færum vermannanna.65
Allar virðast búðirnar sem skoðaðar voru við fornleifakönnunina vera
byggðar á svipaðan hátt, tveggja hólfa, aðalíveruherbergi og lítil kytra við
inngang. Aðeins mátti sjá sambyggðar búðir á tveimur stöðum.
Við fornleifakönnunina var Oddbjarnarsker mælt upp, bæði sjálfur
melhóllinn sem og umfang skeljasandfjörunnar eins og við var komið.
Minjarnar voru mældar í landshnitakerfi ISN93 auk þess sem verbúðirnar
voru teiknaðar, þeim lýst, og þær ljósmyndaðar. Þá var gengið umhverfis
eyjuna og skráðar allar minjar sem sáust í rofbökkum. Í rofstálinu mátti
víða greina steinadreifar sem líklega eru fornar verbúðir í sand orpnar,
sem og öskuhauga með miklum og vel varðveittum beinaleifum (sjá mynd
5). Sennilega má finna öskuhaug hjá hverri verbúð því að við búðirnar
eru bein í því róti sem lundinn hefur grafið upp við hreiðurgerð sína.
Á vettvangi var einungis hægt að greina níu verbúðatóftir og sennilega
endurspeglar það nokkuð réttan fjölda eins og hann var undir lok útræðis
í Skeri. Tóftunum voru gefin númer við könnunina og byrjað við verbúð
Snæbjarnar sem fékk fyrsta númerið.
64 Pétur Jónsson 1940, bls. 2.
65 Sama heimild, bls. 2–3.