Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2016, Blaðsíða 208
207RITDÓMUR: MENNINGARARFUR Á ÍSLANDI
njóta þessara blekkinga. Munurinn er sá að sama hversu fullkomlega
leikhúsgestir lifa sig inn í heim sýningarinnar þá gera þeir, a.m.k. á undan
og eftir, skýran greinarmun á sýningunni og raunveruleikanum. Fólk sem
fer á þorrablót, eða klæðir sig í þjóðbúning eða framleiðir óhrært skyr á
plastdollum ( Jón Þór Pétursson: „Róbótar og gamalt skyr“) er hins vegar
hægt að gruna um að hafa ranghugmyndir um gildi og upprunaleika þess
sem það er að gera. Sá grunur vaknar vegna þess að mörk raunveruleika
og sviðsetningar menningararfs eru ekki eins skýr og í leikhúsinu. Konur
klæðast þjóðbúningum í fermingarveislum innan um aðrar í drögtum
eða gallabuxum, og fólk framleiðir óhrært skyr í góðu samstarfi við
heilbrigðiseftirlitið og þetta getur virkað svo þversagnakennt að eina
skýringin sé sú að fólk vaði í einhvers konar villu, að það haldi eitthvað um
það sem það er að gera sem er ekki rétt. Í raun er menningararfshamurinn
bara einn af mörgum sem við bregðum okkur í í daglegu lífi. Fólk er alltaf
að setja eitthvað á svið (föt, farði, klipping, orðfæri, hús, bílar, áhugamál –
hvaðeina) og þær sviðsetningar hafa alls konar táknrænar vísanir sem væri
fáránlegt að gera kröfu um að þurfi að vera sjálfum sér samkvæmar eða
„sannar“ í einhverjum skilningi. Það er auðvelt að glepjast inn á slíkar brautir
því að þegar menningararfur er annars vegar þá er það upprunaleikinn sem
tef lt er fram. Sá sem sviðsetur heldur því fram að það sem hann er að gera
sé upprunalegt og sá sem horfir á eða tekur þátt gengst undir þann skilning,
að minnsta kosti á meðan sviðsetningin varir. Að hvaða marki þátttakendur
trúa því, eða telja mikilvægt, að það sem sviðsett er sé í raun og veru
upprunalegt er órætt. Það er misjafnt, bæði eftir einstaklingunum sem í
hlut eiga og eftir því hvað er verið að setja á svið. Það getur vel verið að
fólk sem fer á þorrablót gangist þar með undir þá kenningu að þorrablót séu
ævaforn siður – en það er þeim örugglega fæstum ofarlega í huga og það
er tæplega hin eiginlega ástæða fyrir þátttökunni. Fólk fer á þorrablót til
að hitta annað fólk og skemmta sér. Það er ekki í raun og veru að fullyrða
neitt um fortíðina. Það gera hins vegar þjóðbúningasaumakonurnar sem
Bryndís Björgvinsdóttir fjallar um („Þetta er fyrir tvöhundruð árum!“).
Þær eru gæslumenn arfsins og vita nákvæmlega hvernig búningurinn á
að vera og af hverju hann á að vera þannig. Þetta er fullkomlega rökrétt
afstaða. Sviðsetningin í tilfelli þjóðbúningsins byggist á því að leikreglunum
sé fylgt út í ystu æsar – ef þeim er ekki fylgt missir leikurinn marks.
Ráðherrann sem lét sjá sig í bómullarbol undir upphlut við opinbera athöfn
er eins og leikari sem kann ekki rulluna sína eða rekur sig í leikmyndina
þannig að hún fellur. Það skemmir sýninguna þegar innri lögmál hennar