Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2016, Blaðsíða 139
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS138
persónulegu innsigli á bakhlið opinbera innsiglisins, sem mótinnsigli (en.
contra-seal), til að ljá skjalinu enn meira vægi en ella. Innsigli stofnana gátu
verið lengi í notkun, og til eru dæmi um klaustur og kirkjur, sem notuðu
sama innsiglið í meira en 100 ár.22 Fleiri innsigli stofnana eru varðveitt
á Norðurlöndum, t.a.m. eru varðveitt kirkjuinnsigli, fyrir almennar
sóknarkirkjur, og skólainnsigli.23
Prestar og aðrir embættismenn kirkjunnar, utan biskupa og
klausturhaldara, báru einnig innsigli. Flestir prestvígðir menn áttu innsigli,
en ekki er alltaf vitað hvort menn hafi haft slíka vígslu eður ei. Í einhverjum
tilvikum er mögulegt að prestar hafi átt eða notað borgaraleg innsigli.
Meirihluti prestainnsigla var sporöskjulaga fram að miðri 14. öld en eftir það
urðu kringlótt innsigli algengari. Myndefni þeirra er fjölbreytilegt en fylgir
þó ákveðinni hefð. Innsiglin sýna oft eigandann í messuklæðum framan
við altari, með kaleik í hendi eða brauð. Sakramentið var þó einnig táknað
með kaleiknum einum og sér, án prestsins. Algengt myndefni á þessum
innsiglum er líka lamb Guðs. Prestar notuðu einnig tvískipt innsigli sem
líktust innsiglum biskupa með Jesú Krist, Maríu mey eða einhvern dýrling
ofan við eigandann krjúpandi í bæn, en það myndefni var frekar útbreitt
og algengt í öllum kaþólskum löndum frá og með 13. öld.24 Sambærilega
þróun má sjá meðal varðveittra innsigla á Íslandi.
Þá hafa fundist legsteinar með sama tvískipta myndefni frá sama
tímabili í Noregi en slíkir legsteinar hafa ekki fundist annarstaðar, sem
gæti bent til samskipta milli lista- og verkamanna á svæðinu eða ákveðinna
fyrirmynda sem voru þekktar. Eftir að kringlótt innsigli urðu algengari
hvarf prestsmyndin smám saman af innsiglunum svo oft varð aðeins
dýrlingurinn eftir, kaleikurinn eða lambið, og vitað er til þess að prestar
hafi einnig notað einföld skjaldarmerki og búmerki, sem voru algengari
meðal alþýðu en hjá prestlærðum mönnum.25
Ríki, héruð, sýslur, borgir og bæir, gátu einnig haft opinber innsigli,
þótt þau séu ekki eins algeng. Í Svíþjóð eru varðveitt fáein innsigli frá
einstökum borgum, kaupstöðum og héröðum, t.d. frá Stokk hólmi, Kalmar,
Nyköping, Uppsölum, Linköping, Vesterås, Häst holmen, Skänninge,
Norrköping, Lödöse, Nådendal, Gotlandi og Jamtalandi.26 Á Íslandi er
varðveitt ríkisinnsigli, sem notað var frá 16. öld og sýnir f lattan, hausaðan
22 Norske Sigiller fra Middelalderen: Geistlige Segl fra Nidaros Bispedømme, 3. bindi, 2012, bls. 29.
23 Sama heimild, bls. 29-30.
24 Sama heimild, bls. 30.
25 Sama heimild, bls. 31.
26 Sjá t.d. Medeltida småkonst: Sigill i Riksarkivet, bls. 23-34.