Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2016, Blaðsíða 71
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS70
af torfi að utanverðu. Aðeins tvö dæmi eru um sambyggðar búðatóftir
en má ætla að það hafi verið algengara áður fyrr þegar búðirnar voru
f leiri enda landrými lítið og skortur á byggingarefni. Torf og húsavið
varð að f lytja með sér úr landi en grjóttaka var heimil í Skeri, eins og
áður kom fram.76 Því má vel hugsa sér að veggir hafi verið samnýttir eins
og hægt var og að verbúðir hafi staðið saman í klasa. Þetta er eitt af því
sem fornleifauppgröftur gæti leitt í ljós. Búðirnar í Oddbjarnarskeri voru
árstíðabundnir dvalarstaðir og stóðu auðar milli vertíða þó til séu heimildir
um að verbúðir hafi gegnt fjölbreyttari hlutverkum í landi, jafnvel verið
notaðar sem fjárhús.77 Lúðvík Kristjánsson taldi að eldri gerðir verbúða
hefðu verið einsleitari að gerð78 en fornleifarannsóknir á þessum minjum á
landsvísu gætu varpað frekara ljósi á þessa skoðun en enn eru þær fáar og
brotakenndar. Hins vegar gætir töluverðrar fjölbreytni í gerð búða a.m.k.
frá síðasta skeiði útræðis á Íslandi, búðum sem eru einkum frá 19.-20. öld.79
Stærð bygginganna er mismunandi, en við þennan þátt háir heimildum að
margar verbúðanna eru ekki uppmældar heldur teiknaðar eftir lýsingum.
Þó virðist sem stærri búðirnar geti hafa verið í kringum 7-8 x 2,5-3 m
að stærð og má þar taka sem dæmi búð á Hjallasandi á Snæfellsnesi með
þremur herbergjum og gangi og talið að stærsta herbergið hafi verið
rúmlega 7,5 x 2 m stórt.80 Slík búð gæti því hafa verið af svipaðri stærð og
stærsta búðin í Oddbjarnarskeri, búð 8, með herbergi sem var um 7 x 2 m
að innanmáli. Í Sauratúni á Ströndum var grafin upp búð sem aðeins var
2 x 1,5 m að innanmáli.81 Talið er að þessi litla búð gæti hafa verið eldhús
í verstöðinni fremur en svefnskáli því í henni var eldstæði en engin merki
rúmbálka. Sauratúnsbúðin er talsvert eldri en minjarnar sem sýnilegar
eru í Oddbjarnarskeri eða talin vera frá því um 1500.82 Athyglisvert er
gólf Sauratúnsbúðar er niðurgrafið og einnig gólf búðar sem rannsökuð
var við sama tækifæri, og er talin frá um 18.-19. öld, í Skálavík vestan
Bolungarvíkur og var uppmoksturinn notaður í veggina.83 Við rannsóknir
á Tjörnesi í N-Þingeyjarsýslu kom fram að gólf tveggja verbúða af þremur
eru niðurgrafin og eru þær taldar vera frá tímabilinu um 16.-17. eða 18.
76 Árni Magnússon 1938, bls. 248.
77 Lúðvík Kristjánsson 1982, bls. 440-442.
78 Sama heimild, bls. 402.
79 Sama heimild, bls. 402 og 403-440.
80 Sama heimild, bls. 417.
81 Ragnar Edvardsson 2004, bls. 7-9.
82 Sama heimild, bls. 9.
83 Sama heimild, bls. 8-9.