Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2016, Blaðsíða 32
31„SJALDAN FELLUR REÐUR LANGT FRÁ RÓTINNI“
leið til að fanga athygli væntanlegra erlendra viðskiptavina. Kaldhæðni
lyktarinnar, menningararfsins, er því ekki staðfesting heldur tæki til að
öðlast viðurkenningu og virðingu.6
Af ofantöldum dæmum má sjá hvernig kaldhæðni er notuð sem gagnrýni
á viðteknar hugmyndir og yfirvald.7 Kaldhæðni er aðferð í samskiptum
fólks sem tekur á sig margvísleg form; líkamleg, talmálsleg, ritmálsleg og
myndir, svo eitthvað sé nefnt, þar sem gætir misræmis eða andstæðu á
milli þess sem sagt/gert er og þess sem við er átt.8 Kaldhæðni má þar með
líta á sem gagnrýna spurnarafstöðu sem örvar „siðferðilegt og pólitískt
ímyndunaraf l [...] gagnvart hinu gefna, ætlaða eða þvingaða“9 og sem slík
er hún viðsnúningur gegn hvers konar valdi hefða.
Til að varpa ljósi á kaldhæðni í tengslum við söfn mun ég hér á eftir ræða
sérstaklega það sem kalla má tungumálaleik Reðurstofu Íslands og Hins
íslenzka reðasafns, en frá opnun stofunnar/safnsins hefur fjölfölduðum
einblöðungi með orðtökum verið dreift til gesta safnsins. Sú einfalda
útgáfa og innihald hennar dregur fram kaldhæðni í starfseminni og varpar
um leið, að mínu mati, gagnrýnu ljósi á söfn og starfsemi þeirra. Fjölritaður
einblöðungur Hins íslenzka reðasafns undirstrikar mikilvægi afbökunar,
háðs, óræðni og togstreitu um sannleikshugtakið sem hluta af stofnanalegu
hefðarveldi safna og er að öllu jöfnu ekki viðurkennt af slíkum stofnunum.
Menningarpólitík nýfrjálshyggju eða „svo er margt reðrið sem reyfið.“10
Við upphaf tíunda áratugarins varð hugmyndafræði nýfrjálshyggju að
meginstefnu ríkisstjórna11 hér á landi. Sú hugmyndafræði innleiddi nýja
stjórnvisku á sviði ríkisins, sem lagði sig fram um að endurmeta hlutverk
sitt og samfélagslegra stofnana.12 Ríkisvaldið lagði sig einnig fram um að
breyta rekstrarumhverfi stofnana svo rekstur þeirri nyti góðs af samkeppni
á markaði.13 Hvatinn að breytingunum var sagður kominn til vegna
hnattvæðingar. Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, sagði
6 Katla Kjartansdóttir og Kristinn Schram 2014. Yfirskrift greinarinnar, „Something in the air“, sýnir
merk ing ar legan leik höfunda að orðum eins heimildarmanns í greininni og ljá þeim andstæða
merkingu.
7 Fernandez og Huber 2015, bls. 241.
8 Sama heimild, bls. 243.
9 Sama heimild, bls. 241.
10 „(17. öld) Allt er breytingum háð“ (Orðtakasafn HÍR).
11 Ómar H. Kristmundsson 2003.
12 Harvey 2005; Holtorf 2009.
13 Sjá skýrsluna Íslensk muna- og minjasöfn. Meðferð og nýting á ríkisfé 2009.