Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2016, Blaðsíða 207
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS206
og ungbarnadauði, sem væri beinlínis ósiðlegt að sakna, eða hversdagslegir
hlutir eins og tvítala eða lonníettur sem verða óþarfir, stundum af því að
eitthvað annað og betra kom í staðinn en stundum bara af því að tíminn
leið og samhengi breyttist. Það er því eitthvert val sem á sér stað þegar
fyrirbæri verða að menningararfi. Sumt er hafið upp á stall en annað fellur
í gleymskunnar dá. Og það er þetta val sem er spennandi rannsóknarefni
því að það endurspeglar alls konar viðhorf og skoðanir, og getur sjálft orðið
vettvangur fyrir ágreining, ímyndarsköpun og valdbeitingu.
Fyrirbæri sem eru úrelt, eða við það að verða úrelt, geta orðið
menningararfur ef þeim er gefið nýtt gildi. Nýja gildið felur alltaf í sér
að þau verða fyrst og fremst tákn. Þau geta orðið tákn um íhaldssemi
eða söknuð, þær tilfinningar sem vakna þegar breytingar verða; þau geta
orðið tákn fyrir þá hópa sem hafa slíkar tilfinningar umfram aðra en
þau geta líka orðið tákn fyrir eitthvað nýtt, fyrir viðhorf eða hópa sem
tengdust fyrirbærinu ekkert sérstaklega áður en það varð menningararfur.
Umbreytingin, frá hversdagslegu fyrirbæri til menningararfs, krefst alltaf
sköpunar. Stundum er hún fyrir opnum tjöldum eins og þegar Sigurður
málari hannaði nýjan kvenbúning (Karl Aspelund: „Breytileg merking
menningararfs“) en oftar fer mestur sköpunarkrafturinn í að hlaða undir
hugmyndina um upprunaleika. Það er auðvitað þversögn að upprunaleiki
geti verið skapaður og margir af höfundum bókarinnar virðast upplifa
það fyrst og fremst sem fölsun, aff lutning eða sjálfsblekkingu (Valdimar
Tr. Hafstein: „Menning í öðru veldi“; Sigurjón Baldur Hafsteinsson og
Marta Guðrún Jóhannesdóttir: „Moldargreni og menningararfur“; Katla
Kjartansdóttir og Kristinn Schram: „Óræður arfur“). En það er ekki kjarni
málsins. Eins og Bryndís Björgvinsdóttir bendir réttilega á („Þetta er fyrir
tvöhundruð árum!“) er menningararfur sviðsetning – leikur. Þannig getur
það ekki öðruvísi verið vegna þess að menningararfur er jú nýgerving,
tilbúningur. Eina falsið í dæminu er sú hugmynd að menningararfur geti
verið og eigi að vera á einhvern hátt „sannur“ – að það sem við upplifum
sem menningararf geti haldið nákvæmlega sama gildi og það hafði áður
en okkur datt í hug að það væri menningararfur. Og að það sé hlutverk
sérfræðinga að dæma hvort tiltekinn menningararfur sé „sannur“ eða
að meta hversu upprunalegur hann er, að þeirra verkefni sé að afhjúpa
þversagnirnar og tilbúninginn sem þurfti til að gera menningararfinn að
menningararfi. Slíkir sérfræðingar eru eins og fólk sem fer í leikhús og
verður hneykslað á því að a) leikritið sé skáldað, b) að leikararnir séu að
leika annað fólk en sig sjálft og c) að áhorfendur í salnum virðist beinlínis