Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2016, Blaðsíða 142
141STUTT YFIRLIT UM INNSIGLI Á ÍSLANDI
Búmörkin skera sig frá öðrum varðveittum innsiglum og eignarmörkum
að því leyti að þau innihalda rúnaletur, sem almennt finnst ekki á öðrum
innsiglum. Sveinbjörn Rafnsson hefur bent á að búmörk eru eiginlega ekki
sambærileg skjaldarmerkjum í eðli sínu, þó notkun þeirra geti oft verið svipuð:
„Ekki eru eiginleg búmerki skilgreinanleg sem skjaldarmerkjalegs eðlis
(heraldísk), því að þau eru gerð úr einföldum strikum og þess vegna
ekki unnt að gera úr þeim skjaldarmerkjalegar myndir sem samanstanda
af litlum f lötum. Hins vegar mun ýmist að þau séu bundnar rúnir eða
hreinlega merki sem ekki er unnt að leysa upp í letur“.32
Upphafstafir eða nafn eigandans er oft grafið á myndf lötinn, í svokallaðri
bandrún, þar sem margar rúnir eru dregnar upp á sömu rót. Búmörk voru
mjög algeng í Danmörku og á Íslandi á miðöldum og töluvert lengur, alls
eru yfir þúsund slík merki varðveitt í Danmörku, en svo virðist sem notkun
þeirra hafi lagst af meira og minna um 1700, en þó haldist lengur á Íslandi.
Þá varð sífellt algengara að slík merki og persónuleg innsigli alþýðunnar
hefðu latínustafi, fremur en rúnir. Ef til vill endurspeglar það minnkandi
rúnalæsi í kjölfar siðaskipta. Það sem er þó athyglisvert með búmörkin er
að skýr dæmi eru um að slík merki hafi gengið í erfðir, svo að upphafsstafir
á merkinu virðast ekki hafa skipt öllu máli. Þá er einnig vitað um konur
sem tóku yfir búmörk eiginmanna sinna eða fjölskyldu að þeim gengnum
og jafnvel konur sem létu gera sér eigið búmark.33 Eftir að rúnir hurfu úr
búmörkunum urðu þau í raun óþekkjanleg frá öðrum innsiglum borgara
sem notuðu einnig upphafsstafi með latínustafrófi.
Innsiglarannsóknir á Íslandi
Á Íslandi virðast innsiglarannsóknir hafa legið í dvala í rúma öld og
fyrir vikið hafa íslensk innsigli fallið í gleymsku og dá, t.a.m. er ekki
til nein sambærileg íslensk útgáfa um innsigli eins og þær sem finnast á
Norðurlöndum. Þar með er þó ekki sagt að ekkert hafi verið skrifað um
íslensk innsigli, þótt sértæka útgáfu um þau vanti. Árni Magnússon (1663–
1730) var fyrstur Íslendinga til að rannsaka íslensk innsigli, svo að vissu
leyti mætti segja að rannsóknir á Íslandi (eða íslenskum innsiglum) hafi
hafist snemma. Árni safnaði fornbréfum og innsiglum, ásamt handritum,
og skrifaði dálitla samantekt um gerð innsiglanna, myndefni og eigendur.
32 Sveinbjörn Rafnsson 1975, bls. 90.
33 Tønnesen 2002, bls. 141-146.