Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2016, Side 58
57FORNLEIFAKÖNNUN Í ODDBJARNARSKERI
20. aldar.42 Búð Snæbjarnar var rifin síðust búða nokkru eftir að dvalið var
í henni árið 1923.43 Breyttir atvinnu- og útgerðarhættir, einkum tilkoma
þilskipa, drógu smám saman úr útgerð í Oddbjarnarskeri sem og mörgum
öðrum verstöðvum á Breiðafirði44 og víðar.45
Ekki er víst hvenær vorvertíð lagðist af í Oddbjarnarskeri en Hermann
telur það hafa gerst eftir aldamótin 1800 og telur þær skýringar að þá gangi
Oddbjarnarsker úr eigu Flateyinga46 og að af labrestur hafi orðið til þess
að hefðin var rofin. Til er bréf sem vermenn í Oddbjarnarskeri skrifuðu á
vorvertíð, 15. maí árið 1790. Þar lýsa bréfritarar óánægju með verslunarhætti
í Flatey og fram kemur að þorskurinn veiðist illa og telja menn að um sé
að kenna erlendum fiskiskútum sem liggi utar og truf li fiskgengd inn á
sín vanalegu mið.47 Kannski var þessi af labrestur viðvarandi um ára bil,
sbr. frásagnir Ólafs Sívertsen og Snæbjarnar hér að framan um af la brestinn
1830-1840, sem að lokum varð til þess að vertíðir urðu eingöngu á haustin.
Reyndar var það svo, að minnsta kosti á 19. öld, að Hergilseyingar réru
oftar til fiskjar frá Oddbjarnarskeri en á hinum eiginlegu haustvertíðum og
farið var á aukavertíðir, t.d. eftir að vorróðrum lauk í öðrum verstöðvum
(t.d. Hvallátrum vestra) og fyrir réttir á haustin.48 Ef til vill hefur þessi venja
Hergilseyinga, og áður Flateyinga, staðið á gömlum merg og viðgengist
mun lengur en heimildir eru til um. Þá hafði það líka tíðkast að veiða sel í
net í Oddbjarnarskeri á vorin og jókst sú veiði þegar vorumferð við skerið
minnkaði.49 Ef til vill var vorvertíð hætt til að auka selveiði í staðinn en á
vorvertíð réru Hergilseyingar á dögum Snæbjarnar: „…vestur á Látrum [í
Rauðasandshreppi] á vorin, frá krossmessu til Jónsmessu [3. maí - 24. júní],
en undir Jökli frá páskum til krossmessu.“50
Ekki er vitað til að í Oddbjarnarskeri hafi nokkru sinni verið búskapur,
aðeins verstöð (útver)51 og þaðan farið á f lyðru- og hákarlamið og auk þess
veiddur þorskur, ýsa, langa, steinbítur og skata.52 Það má slá því föstu að
útilokað hafi verið að búa með skepnur í Oddbjarnarskeri sökum vatns-
42 Eysteinn G. Gíslason 1989, bls. 203 (myndatexti).
43 Örnefnaskrá Hergilseyjar, bls. 10.
44 Eysteinn G. Gíslason 1989, bls. 202.
45 Ragnar Edvardsson 2005, bls. 58.
46 Hermann S. Jónsson 1939, bls. 3.
47 Lýður Björnsson 2008, bls. 78.
48 Sveinbjörn Guðmundsson 1953, bls. 24; Pétur Jónsson 1940, bls. 2.
49 Hermann S. Jónsson 1939, bls. 3; Örnefnaskrá Hergilseyjar, bls. 9-10; Snæbjörn Kristjánsson 1958,
bls. 14.
50 Snæbjörn Kristjánsson 1958, bls. 60.
51 Lúðvík Kristjánsson 1982, bls. 29-32, 52.
52 Ólafur Sívertsen 1952, bls. 141 og 144.