Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2016, Side 53
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS52
Aðeins var hægt að ná í vatn við Vatnssteina á stórstraumsfjöru, en þangað
munu vermenn hafa f lykkst þegar færi gafst til að fylla ílát sín en þar í
klöppinni er svolítil skál, talin höggvin af mannahöndum, og úr henni
var hægt að ausa með litlum potti. Var vatnið svo heitt að þar í mátti sjóða
egg og fisk, eða um 80°C. Þótti „steinvatn“ betra en „laugavatnið.“9 Það
kom úr vatnsbóli sem er í Laugaskeri, norðan Leiðarsunds. Þar eru tvær
uppsprettur, hærri og neðri laug. Sú hærri er sandorpin og þarf að grafa
eftir henni og þótti vatnið úr henni lélegt og allsalt, en neðri laugin var í
bergskál og vatnið nokkuð hreint og um 40-45°C. Laugarnar koma upp á
smástraumsfjöru, ef sjógangur er ekki mikill, en þá varð líka að fara á báti.
Á stórstraumsfjöru er hægt að ganga þangað. Hermann greinir þá frá því að
tilraun hafi verið gerð til að grafa brunn í Oddbjarnarskeri en þegar hann
var orðinn 5-6 álna djúpur (rúmlega 3 metrar) þá kom sjór upp í botni hans
á stórstraumsf læði.10 Vegna þessara vandræða með drykkjarvatn virðist það
hafa verið almennur siður að vermenn f lyttu með sér vatn að heiman á
kútum og ankerum (tunnum).11
Eignarhald og ítök
Þjóðsagan segir að Oddbjörn hafi numið land í Oddbjarnarskeri og verið þar
heygður.12 Skerið kemur fyrst fyrir í ritheimildum í íslensku fornbréfasafni,
Stefánsmáldaga. Í máldaga Flateyjarkirkju á Breiðafirði er þess getið að
kirkjan eigi m.a. Oddbjarnarsker og Stykkiseyjar.13 Máldaginn var gerður
í biskupstíð Stefáns Jónssonar Skálholtsbiskups, en árfærsla er óljós og hann
því heimfærður á biskupsævi hans, líkt og segir í fornbréfasafni, eða til
1491–1518.14 Árið 1536 eru gerð skipti milli Múlakirkju á Skálmarnesi og
Flateyjarkirkju og hnykkt á þeim árið 1537. Skiptin fólust í því að Múlakirkja
hefði tolllaust skip, áttæring eða sexæring, og búðarstöðu í Oddbjarnarskeri
en Flateyjarkirkja í móti skógarhögg í Múlakirkjuskógi sem samsvaraði
ígildi áttærings eða teinærings farms af viði.15 Af þessu má ætla að á 16.
öld sé Oddbjarnarsker orðið eftirsótt verstöð og hafi að líkindum verið það
um langt skeið þótt ekki sé þess getið í ritheimildum. Þegar eftirspurn eftir
9 Pétur Jónsson 1940, bls. 2; Hermann S. Jónsson 1939, bls. 2.
10 Hermann S. Jónsson 1939, bls. 2.
11 Pétur Jónsson 1940, bls. 2.
12 Eysteinn G. Gíslason 1989, bls. 199; Ólafur Sívertsen 1952, bls. 139.
13 Íslenskt fornbréfasafn VII, bls. 79.
14 Íslenskt fornbréfasafn VII, bls. 14.
15 Íslenskt fornbréfasafn X, bls. 86-89 og bls. 111-112.