Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2016, Blaðsíða 42
41„SJALDAN FELLUR REÐUR LANGT FRÁ RÓTINNI“
eintökum sem eru til sýnis. Íslenskir og enskir textar eru jafnframt við
sýningargripi. Þeir eru oft á tíðum langir og sumstaðar ljósritaðir beint upp
úr heimildum og sýndir þannig. Flest eintökin á safninu er einnig nefnd
á níu tungumálum (íslensku, latínu, esperanto, norsku, dönsku, ensku,
þýsku, frönsku og spænsku) og er gestum boðið að blaða í sérstakri Limaskrá
á fjórum tungumálum (íslensku, ensku, þýsku og frönsku). Í Limaskránni –
sem er íslenskun á ‚catalogue‘ (kata-lókur, þ.e. seinni liðurinn þýðir typpi,
sé enska heitið íslenskað) – er að finna heitin á eintökunum ásamt frekari
upplýsingum um hvaðan eintakið kemur, hvenær það var fengið og af hvaða
dýri eintakið er. Heiti skrárinnar dregur fram hæðnina í starfseminni og er
gott dæmi um með hvaða hætti safnið fær gamalgrónum íslenskum orðum
nýja og oft á tíðum óvænta merkingu.
Eitt af því sem eingöngu innlendum gestum stendur til boða er
fjölritaður einblöðungur með drögum að Orðtakasafni Reðurstofu Íslands,
eins og það er nefnt, og hefur að geyma orðatiltæki og aftan við þau kemur
fram frá hvaða sögulega tímabili þau eiga að vera. Þetta er orðtakalisti
sem hefur að geyma níutíu og eitt orðatiltæki í nýjum búningi og eru
sjálfsagt kunnugleg fyrir mörgum Íslendingum. En orðatiltæki eru ríkur
þáttur í íslensku máli, umræðu um íslenskt mál og almennri notkun í
tungumálinu. Með orðatiltæki er átt við orðtök, talshætti, fastar líkingar
og f leyg orð, sem geta verið fullmótaðar setningar en skiljast yfirleitt ekki
nema í því samhengi sem þær eru settar í.44 Í drögum að Orðtakasafni
Reðurstofu Íslands sem dreift er ókeypis til íslenskra gesta safnsins, er að
finna orðtak sem segir að „sjaldan falli reður langt frá rótinni.“ Í skýringum
aftan við orðtakið segir að það sé frá 16. öld og þýði að sjaldan falli epli
langt frá eikinni. Aftan á einblöðungnum sem geymir Orðtakasafnið má
sjá reðurlaga útlínur sem hefur að geyma Íslandskort með nafni safnsins í
miðju þess, einkunnarorð safnsins á latínu ‚Plus Intra‘ (þýð: ‚lengra inn‘)
og loks sex litlar myndir og stutta texta við þær sem eru fyndnar gátur.
Sem dæmi segir á einum stað: „Ég get ekki hugsað með höfðinu …“ og
á öðrum stað segir „Eigandi minn er alltaf að taka mig kverkataki …“ og
vísar til sjálfsfróunar. Orðtakasafnið er hins vegar að mestu leyti uppspuni
og runnið undan rifjum Sigurðar Hjartarsonar og félaga hans. Engar
vísbendingar er að finna á orðtakalistanum sjálfum um að orðtökin séu
tilbúningur.
Sigurður sagði mér frá því að orðtakalistinn „léki sér með það að orðið
44 Guðrún Kvaran 2004.