Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2016, Side 18
17KRISTJÁN ELDJÁRN: 100 ÁRA MINNING
ágætur og hafði afburðaþekkingu og leikni á íslenzkri tungu svo sem
hvarvetna má sjá í vönduðu málfari hans í ræðu og riti. Ekki féll honum þó
námið alls kostar og kvaðst hann þá hafa eitt sinn eins og af rælni lagt leið
sína þangað sem kennsla í fornleifafræði fór fram. Þar fann hann sinn rétta
sess og má vera að þá hafi rifjazt upp fyrir honum það sem móðurbróðir
hans, Sigfús Sigurhjartarson, hafði einhverju sinni nefnt við hann, að senn
mætti fara að hyggja að manni sem gæti tekið við af Matthíasi Þórðarsyni
þjóðminjaverði, sem þá var tekinn að nálgast aldursmörk embættismanna.
Mun Sigfús jafnvel hafa innt Kristján eftir því hvort hann gæti hugsað sér
að búa sig undir slíkt starf. Fór svo að hann ílentist í fornleifafræðinni.
Hann eignaðist þar marga vini meðal fornleifafræðinga og rækti alla tíð
sambandið við fjölmarga fræðimenn utan lands sem innan.
Kristján lauk fyrra hluta prófs í fornleifafræði, en svo kom stríðið og
þá slitnaði þráðurinn í því námi. Hann hafði komið heim vorið 1939 sem
þátttakandi í hinum danska hluta leiðangurs norrænna fornleifafræðinga
til rannsókna á fornbyggðinni í Þjórsárdal. Þjórsárdalur eyddist að byggð
í miklu Heklugosi er menn töldu þá hafa orðið árið 1300, en síðar kom í
ljós að hefði orðið árið 1104. Við stríðið tókust af samgöngur milli Íslands
og meginlands Evrópu. Stúdentar ytra komust ekki heim og námsmenn er
heima voru staddir komust ekki utan á ný, og þeirra á meðal var Kristján.
Námsbrautin var því teppt.
Á námsárunum ytra tók Kristján þátt í leiðangri danskra fornleifafræðinga
til Grænlands, til rannsóknar á fornum rústum frá byggð norrænna manna,
þar sem kallað var síðan Austmannadalur. Um þá rannsókn má lesa í
bókinni Gengið á reka. Þessi rannsóknarferð til Grænlands hefur verið
Kristjáni drjúggóð reynsla og æ síðan gaf hann rannsóknum á minjum
um landnám og byggð norrænna manna á Grænlandi og annars staðar í
Vesturheimi mikinn gaum og skrifaði sjálfur og þýddi rit um þær.3 Hann
taldi, að því er hann sagði síðar, að hann hafi verið valinn í leiðangurinn
ekki sízt vegna þess að leiðangursmenn höfðu íslenzka hesta til að f lytja
farangur þarna inn í óbyggðir Grænlands, fjarri mannabyggð nú. Hann
var íslenzkur sveitamaður og kunni því að fara með hesta, leggja á þá
og hengja byrðar á klakk og vissi hvað mátti bjóða hestunum. Frá einu
smáatriði úr leiðangrinum, en nokkuð afdrifaríku, sagði hann einu sinni.
Leiðangursmenn bjuggu í tjöldum og um þau var búið í klyfjum eins og
annan farangur. Tjaldsúlur og mænirásar voru langar spýtur og gekk illa
að hemja þær á hestunum, vildu slást á alla vegu eða drógust úr klyfjunum
3 Hér er átt við þýðingu Kristjáns á riti Pouls Nörlund, Fornar byggðir á hjara heims (útg. 1972).