Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2016, Blaðsíða 45
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS44
mennta- og menningarstofnanir, þar sem það vegur að því sem kallað er í
skýrslu Tómasar Inga Olrich „burðarás í menningarviðleitni þjóðarinnar.“52
En um leið er Orðtakasafnið sjálft besta dæmið um hina meinta burðarás, þar
sem í því kemur fram skáldskapur, ritunargleði, skráningarþörf, sérviska og
síðast en ekki síst „sérkennilegt samband frumleika og nýsköpunar.“53 Að
þessu leytinu til er Hið íslenzka reðasafn og Orðtakasafnið merki um aukna
áherslu á kaldhæðni á tilteknum tíma í íslensku samfélagi.54 En kaldhæðni
gegnir einnig mikilvægu hlutverki í starfsemi safnsins í að ávarpa gesti
þess og hefur Sigurður Hjartarson margoft sagt frá því sjálfur í viðtölum að
hans megin keppikef li í þeim efnum sé að beita húmor í framsetningum
safnsins, sem oftar en ekki er undir formerkjum kaldhæðni eins og sjá má
af orðtakalistanum. Sú viðleitni dansar á mörkum þess sem þykir við hæfi
og jafnvel siðlegt, en það markast bæði af viðfangsefninu sjálfu, typpum
sem eru ákveðið feimnismál, og þeirri spillingu sem viðfangsefnið felur
í sér gagnvart viðteknum hefðum í að lýsa þjóðernislegum einkennum
Íslendinga. Hugrenningar um siðspillingu eiga sér stað þrátt fyrir
yfirlýsingar þess efnis að safnið sé ekki klámfengið þ.e. sé að fjalla um
notkun typpa við kynlífsathafnir, heldur frekar af meiði náttúruminjasafna,
en í skrifum um safnið hefur siðspillingarhugmyndin verið orðuð eða gefin
í skyn.55 Áhersla safnsins á typpi og sögulegt samhengi þeirra í fortíð og
nútíð dregur fram áhuga Íslendinga á þeim. Safnið sviptir þar með hulunni
af ákveðnu tómlæti og kannski feimni safna við að draga fram kynfæri og
hugmyndir um þau sem sérstakt viðfangsefni.
Safnastofnanir víða um heim hafa margar hverjar endurskoðað
starfsemi og framsetningu sína á menningararfi vegna gagnrýni á störf
þeirra og hefur menningarpólitík nýfrjálshyggju átt sinn þátt í slíkri
endurskoðun.56 Holtorf bendir til að mynda á að það sé ekki sama hvernig
sú endurskoðun er hugsuð og framkvæmd. Holtorf gerir því skóna að
farsæl leið til að takast á við vankanta við varðveislu og framsetningu á
menningararfi sé að styðjast við og beita húmor og tvíræðni.57 Holtorf
leggur til tvær leiðir til að framkvæma þetta. Í fyrsta lagi að líta svo á
að menningararfur sé ekki kjarni þeirra sem tilheyra tilteknu samfélagi,
52 Tómas Ingi Olrich 2001, bls. 8.
53 Sama heimild, bls. 7.
54 Fernandes og Huber 2001.
55 Sigurjón Baldur Hafsteinsson 2014.
56 Söfn í Hollandi hafa á undanförnum tveimur áratugum þurft að tileinka sér menningarpólitík
nýfrjálshyggju, með tilliti til rekstrar, varðveislu og sýninga.
57 Holtorf 2010.