Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2016, Blaðsíða 144
143STUTT YFIRLIT UM INNSIGLI Á ÍSLANDI
vera.35 Af þeim tæplega 5000 innsiglum sem varðveitt eru36 finnast aðeins
um 250 innsigli í Sigilla Islandica. Það munu þó ekki vera öll þau innsigli
sem Árni Magnússon lét draga upp fyrir sig því eitthvað af þeim innsiglum
og teikningum týndust í hafi árið 1729 og einnig er mögulegt að eitthvað
hafi brunnið árið áður.37 Árni Magnússon virðist hafa safnað bróðurparti
fornbréfa sinna og insigla á árunum um og eftir Íslandsferð sína árin 1702-
1712, en bréfaskipti milli hans og síra Hjalta Þorsteinssonar í Vatnsfirði benda
til þess að Árni hafi fengið hann til að draga upp nokkur af innsiglum sínum
árin 1712-1713. Þá hefur Árni væntanlega þegar hafið innsiglasöfnun sína að
einhverju leyti árið 1712 og var enn að þegar hann lést árið 1730.38
Þótt Árni Magnússon hafi verið frumkvöðull íslenskra innsiglafræða lá
fagið í gleymsku í yfir 100 ár eftir dauða hans, athuganir hans voru ekki
birtar á prenti fyrr en rúmum 200 árum eftir fráfall hans og það liðu meira
en 100 ár áður en annar íslenskur fræðimaður fékk áhuga á íslenskum
innsiglum. Sá var Jón Sigurðsson (1811-1879), oft nefndur forseti, en auk
þess að vera stjórnmálamaður var hann einnig afkastamikill fræðimaður.
Ritsmíðar Jóns frá árinu 1868 virðast vera alveg sjálfstæð rannsókn fremur en
að byggja á skrifum Árna Magnússonar, sem þó er vitað að Jón hafði aðgang
að á Kaup manna hafnar árum sínum. Eins og Guðmundur Magnússon hefur
bent á í grein sinni eru aðeins þrír eigendur innsigla af þeim 46 sem Jón vísar
til einnig á blöðum Árna Magnússonar.39 Því virðist Jón Sigurðsson hafa
byggt rannsókn sína á öðrum heimildum, einna helst virðist sem hann hafi
haft fornbréfin sjálf undir höndum með innsiglum þeirra þar sem hann vísar
ávallt í árið þegar bréfið er ritað og dregur upp innsiglismarkið. Skýringin er
væntanlega sú að Jón vann tímabundið að útgáfu Diplomatarium Islandicum,40
eða hins íslenska fornbréfasafns, árin 1857-1876. Uppdrættir Jóns, sem
því miður birtust ekki í fornbréfaútgáfunni, eru birtir hér að aftan ásamt
ritgerðum hans. Það var að beiðni hins þýska Karl Gustav Homeyers sem
Jón hóf að vinna samantektina, en Homeyer bað Jón um upplýsingar um
íslensk búmerki. Jón hófst þegar handa og var efni sem hann sendi Homeyer,
ásamt efni frá öðrum aðstoðarmönnum hans víðs vegar frá, birt í bók hans
Die Haus- und Hofmarken, sem kom út í Berlín árið 1870.41
35 Guðmundur Magnússon 2002, bls. 12.
36 Sama heimild, bls. 12.
37 S.I., 1. bindi, 1965, bls. xiij; Guðmundur Magnússon 2002, bls. 11-12.
38 Sama heimild, bls. xij-xiij.
39 Guðmundur Magnússon 2002, bls. 12-13.
40 Sama heimild, bls. 14.
41 Sama heimild, bls. 13.